07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

120. mál, veiting ríkisborgararéttar

Flm. (Stefán Stefánsson):

Fyrir nokkrum dögum síðan barst mjer brjef frá hr. Jóhanni Emil Landmark á Siglufirði, ásamt ýmsum skjölum, snertandi umsókn hans um íslenskan ríkisborgararjett, og tilmælum til mín um, að jeg flytti þetta frv.

Þó að jeg þekki nú ekki þennan mann sjálfur persónulega, hefi jeg aflað mjer ýmsra upplýsinga um hann, og eru þær allar í raun og veru eindregin meðmæli með því, að honum sje veittur hinn umbeðni rjettur íslenskra ríkisborgara, og öll vottorð, sem hann hefir sent mjer, bera honum hinn besta vitnisburð.

Maður þessi fluttist hingað frá Noregi til Siglufjarðar árið 1915. Kvæntist hann þar íslenskri konu og eiga þau eitt barn; auk þess hafa þau hjón tekið þar barn til fósturs. Íslenska er töluð á heimili þeirra og börnin eru að öllu leyti alin upp sem íslensk börn. Skilríki þau, er hann hefir sent mjer, sýna að fullu og öllu skil á þessu. Enn fremur hefir hann dvalið og átt heimili þarna í samfleytt 8 ár. Hann er lærður timbursmiður og hefir yfirleitt á sjer mjög gott orð, bæði sem duglegur og vandaður maður.

Að endingu vil jeg taka það fram, að Jóhann Landmark hefir sent mjer símskeyti, þar sem hann kveðst ekki hafa æskt eftir að halda ríkisborgararjetti í Noregi. En eigi að síður fór jeg þó til norska ræðismannsins hjer, að leita enn frekari upplýsinga um þetta, og sagði hann mjer, að til sín hefði heldur engin slík ósk komið. Fæ jeg því ekki sjeð, að neitt sje því til fyrirstöðu að veita þessum manni íslenskan ríkisborgararjett. Vil jeg því óska, að háttv. deild taki þessu máli vel, og að málinu verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni. Vænti jeg svo, að háttv. allshn. athugi skjöl þau og skilríki, er jeg hefi vitnað til í þessu máli.