03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

120. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg hefi ekki neinu að bæta við það, sem stendur í nál. en vil aðeins leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forsrh. (SE). hvort það sje ekki vilji hans að gera þær ráðstafanir, sem talað er um í nál. Eins og þar stendur, er talið heppilegt, að búin sjeu til eyðublöð, til þess að umsækjendur sæju, hvaða upplýsingar þeir þyrftu að gefa til þess, að beiðni þeirra yrði tekin til greina. Við eigum að meta svo mikils ríkisborgararjettinn, að ekki sje hlaupið í að veita hann fleirum en heppilegt þykir, að fái hann. Það væri ákjósanlegt, að ríkisstjórnin rannsakaði hag hvers manns áður en gengið væri með það til löggjafarþingsins. Annars er þetta mál ekki stórvægilegt, en það væri æskilegt, að auglýsingarnar kæmu út sem fyrst.