24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Hv. frsm. (ÞórJ) gat þess, að hv. fjvn. hefði fengið alment lof hjá hv. þingdeildarmönnum, en gat þess um leið, að sjer skildist sem svo, að jeg væri ekki ánægður með meðferð nefndarinnar á fjárlagafrv. Þetta er hinn mesti misskilningur, því að svo framarlega sem hv. nefnd fær lof, þá fellur mikill hluti af því lofi á mig líka, því að af 22 tekjuliðum í 2. gr. fjárlagafrv. stjórnarinnar er aðeins hróflað við 6, og af þeim liðum hefi jeg sjálfur einmitt bent háttv. nefnd á 4, er þyrfti að breyta. Jeg benti henni á það, að aukatekjurnar mundu áætlaðar fullhátt, því að þegar jeg samdi þetta, hafði jeg ekki eftir öðru að fara en afkomunni 1922. Sömuleiðis sagði jeg hv. nefnd, að kaffi- og sykurtollurinn mundi vera settur of hár, og þó sjerstaklega vörutollurinn. Ennfremur gat jeg þess, að hækka mundi mega áfengistollinn, en aftur á móti ekki tóbakstollinn. Háttv. nefnd hefir því sjálf aðeins komið með brtt. við 2 liði. Hefir hún lækkað annan en hækkað hinn. Var jeg þar varasamari en nefndin, en hinsvegar get jeg þó viðurkent, að hún hefir fetað dyggilega í fótspor mín yfirleitt. Bæði hv. frsm. (ÞórJ) og hæstv. atvinnumálaráðherra mintust á ummæli mín um gjöld til landssímans. Jeg held því enn fram, að hv. nefnd hafi hækkað gjöldin til ritsímans óþarflega mikið. Hæstv. atvrh. sagði, að eigi mundi verða lengra komist í lækkuninni nú. Það getur að vísu verið, en það er rjett að draga úr útgjöldunum sem mest má verða, því að þau voru orðin óhæfilega há. Samanburður á árunum 1922 og 1925 er ekki vel heppilegur, meðal annars af því, að dýrtíðaruppbótin hefir altaf farið lækkandi, en þó að árin sjeu ekki vel sambærileg, þá sýnir það sig þó, að jeg hefi verið á rjettri braut, þar sem gjöldin hafa á 2 árum lækkað um 138 þús. kr.

Hv. frsm. og hæstv. atvrh. tóku það fram báðir, að þeir hefðu sjerstaklega rannsakað launaliðina, er snerta símann, og sögðu, að ekki væri hægt að komast af með minna en 310 þús. kr. Jeg álít, að þetta sje of hátt, miðað við 1922, þegar dýrtíðaruppbótin var miklu hærri, og þegar þess er gætt, að síðan hefir ekki verið bætt við nema einum nýjum manni. Þegar þá nægðu 270 þús. kr., þá þykir mjer undarlegt, að nú skuli þurfa yfir 300 þús. kr. Ennfremur má geta þess, að bæjarsíminn fjekk 1922 gagngerða breytingu, sem átti að geta dugað í nokkur ár. Annars gladdi það mig að heyra frá hæstv. atvrh., að landssímastjóri hefði ákveðið að veita eigi 2 stöður, sem lausar eru við símann. Jeg skal geta þess, að jeg gleymdi áður að minnast á 42. lið, sem hefir verið hækkaður, en það er viðvíkjandi Borðeyrarstöðinni. Hv. frsm. hefir tekið það fram, að sú hækkun sje óhjákvæmileg. Jeg man ekki til, að jeg hafi sjeð neina till. frá landssímastjóra í þá átt. Hafi hún legið fyrir, þá hefir mjer skotist yfir hana, en sje hjer um samningsbundna upphæð að ræða, þá er sjálfsagt að veita hana.

Þá hefir komið fram hjer till. frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um að veita bæjarsímastúlkunum launauppbót. Jeg skal viðurkenna það, að mjer kom til hugar að taka þetta upp í fjárlagafrv., en þar sem þurfti að sneiða svo af 13. gr., þá þótti mjer ekki gerlegt að taka þannig einn flokk út úr. Jeg viðurkenni, að stúlkur þessar hafa lægst laun af öllum sýslunarmönnum landsins, og jeg skal taka það fram, að jeg get greitt atkv. með till. hv. 3. þm. Reykv. eftir að hann hefir tekið aftur úr till. orðin „við bæjarsímann“. Hjer er ekki nema um fáar stúlkur að ræða, og er því hækkunin mjög lítil, sem af þessu leiðir.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) mintist á till. um strandferðirnar. Styrkurinn til „Suðurlands“ er 31 þús. kr., en til Djúpbátsins 15 þús. kr. En það var óhjákvæmilegt að gera samning Við þessa 2 báta, þar eð þeir flytja póst. Get jeg fullvissað háttv. þm. um, að það var lagt alt kapp á að komast að betri kjörum við „Suðurland“ án þess að það hepnaðist. Hygg jeg, að hv. samgmn. hafi komist að svipaðri niðurstöðu og jeg í þessu efni. Ástæðan til, að styrkurinn hefir verið færður niður fyrir árið 1925, er sú, að það þarf að spara. Það eru aðallega 3 strandferðabátar, sem þarf að styrkja, Suðurland, Djúpbáturinn og Skaftfellingur, því jeg játa, að hann er alveg nauðsynlegur, en smærri bátana verður að fella niður.

Hæstv. fjrh. (JÞ) mintist á, að alvanalegt væri, að stjórnin borgaði út fje eftir gömlum lögum, og efast jeg ekki um, að henni sje það heimilt. En aftur á móti er algerlega ólöglegt að borga fje eftir þál. Annars veit jeg ekki til, að það hafi tíðkast fyr en á stríðsárunum; þá kann það að hafa verið nauðsynlegt, en nú er það ekki, og ætti að kveða þann draug niður. Á morgun kemur til umræðu þál um að heimila stjórninni útborgun á hækkuðum launum til nokkurra yfirfiskimatsmanna. Jeg álít, að fiskimatsmennirnir eigi skilið að fá þessa launahækkun, sem þar er farið fram á. En af principiellum ástæðum mun jeg greiða atkv. á móti því og skora á flm. hennar að taka hana aftur.