06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

60. mál, ríkisskuldabréf

Flm. (Jón Sigurðsson):

Eins og tekið er fram í greinargerð þessa frv., þá hafa menn rekið sig á það, að sum ákvæðin í lögunum um ríkisskuldabrjef eru til talsverðs baga. Eins og kunnugt er, gera lögin um brúargerðir ráð fyrir, að ríkið taki lán til að byggja þær brýr, sem þar eru taldar, eða til þess að leggja fram þann hluta fjárins, er ríkissjóði ber. Í framkvæmdinni hefir þetta orðið þannig, að sýslufjelaginu hefir verið gefinn kostur á að fá brýrnar bygðar, ef sýslan, auk síns hluta, legði fram sem lán handa ríkissjóði það fje, er honum ber að greiða til brúargerðarinnar. Meiningin var, að þar sem um stærri brýr væri að ræða, þá yrði þetta prófsteinn á þörf sýslubúa fyrir þetta mannvirki, hve fúsir þeir reyndust til að leggja fram fje til þess. Nú hagar svo til í Skagafjarðarsýslu, að brýn nauðsyn er á að reisa þar stórbrú, og hefir mikill undirbúningur verið hafinn í því skyni og fjársöfnun. En hjer er sá hængur á, að fæstir af sýslubúum eru þeir stórefnamenn, að þeir sjái sjer fært að binda mikið af fje sínu í 25 ár. Flestir geta aftur á móti lagt lítið eitt af mörkum. Frv. þetta fer aðeins fram á, að þetta sje gert mögulegt með því í fyrsta lagi að veita stjórninni heimild til að hafa nafnverð brjefanna lægra. Stofnun Eimskipafjelags Íslands hefir best sýnt, hve heillavænleg almenn þátttaka í slíkum fyrirtækjum er, og að mikið fje getur safnast, þótt hlutirnir sjeu smáir. Í öðru lagi fer frv. fram á, að brjefin verði dregin út, svo að fjeð verði ekki óumflýjanlega bundið í 25 ár, eins og nú er. Ef þessar breytingar ganga fram, er rutt steinum úr götu mikils nauðsynjamáls. Þessi heimild í lögunum, sem frv. fer fram á, kemur því aðeins til framkvæmda, að lánsupphæðin nái vissri upphæð — 25 þús. kr.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta meir, en vona, að hv. deild taki frv. vel og láti það fara til fjhn.