24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

60. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Fjhn. hefir fallist á þetta frv. í aðalatriðum þess, en hefir hinsvegar fundist, að gera þurfi á því nokkrar breytingar. Nefndin leggur til, að gerðar verði tvær aðalbreytingar á lögum nr. 8, 20. júní 1923. Fyrri aðalbreytingin er sú, að rýmka um ákvæðin um nafnverð brjefanna. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að stjórnin geti ákveðið nafnverð þessara brjefa niður í 25 og 50 krónur. Nefndin álítur heppilegra að leggja þetta algerlega á vald stjórnarinnar í hverju einstöku tilfelli, vegna þess að búist er við því, að ýms hjeruð vilji sjá stjórninni fyrir lánsfje til innanhjeraðs framkvæmda, t. d. brúagerða, símalagninga o. fl. Telur nefndin vera rjettara að einskorða þetta ekki, en láta stjórnina hafa vald til ákvörðunar. í öðru lagi leggur nefndin til að gera þá breytingu á frv. að heimila stjórninni að ákveða vaxtafótinn í hvert sinn, en festa hann ekki eða ákveða í lögunum. Í lögunum er vaxtafóturinn ákveðinn 4½–5½%, en nú sem stendur eru vextir allir mjög breytilegir, og er því rjettara að fela stjórninni að kveða á um þetta eftir því, sem best á við í hvert skifti.

Önnur aðalbreyting nefndarinnar á frv. er þó sú, að ríkisskuldabrjefin skuli vera útdráttarbrjef í stað þess að standa öll ógreidd til enda útgáfutímans. Fyrir þessu telur nefndin tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú, að samkv. áliti nefndarinnar yrðu brjefin auðseldari, ef þau væru útdráttarbrjef, þar sem kaupandinn ætti þá von á, að einhver hluti þeirra yrði dreginn út árlega; eins mundi þetta gera brjefin veðhæfari. Síðari ástæðan er sú, að nefndin álítur ekki rjett, að ríkið taki lán, þótt til verklegra framkvæmda sje, er standi lengur en lengst 25 ár. Nefndin álítur, að ef brjefin eigi að greiðast öll í einu lagi eftir 25 ár, mundi það oftast verða til þess, að ríkið yrði að taka ný lán til þess að greiða þau eldri. En nefndin telur rjettast, að slík lán ríkissjóðs standi aðeins hæfilega langan tíma.

Vegna hins erfiða fjárhags ríkisins hefir nefndin leitað ýmsra ráða til þess að bæta úr erfiðleikum ríkissjóðs, og meðal annars hefir hún borið fram allverulegt tekjuaukafrv., þar sem er verðtollsfrv., og leggur sömuleiðis til, að frv. um dýrtíðaruppbót á ýmsum tollum verði samþykt af hv. deild. Telur nefndin naumast fært að ganga lengra í þessa átt að sinni, en aftur á móti hygg jeg, að flestir muni vera nefndinni sammála um, að eins og nú er komið fjárhagnum, yrði naumast hægt að halda áfram neinum verklegum framkvæmdum fram yfir fjárlög. Nefndinni hafði jafnvel hugsast að koma fram með frv., þar sem tekið væri fyrir það, að stjórnin nú fyrst um sinn ljeti framkvæma neitt af því, sem gera má hún eftir sjerstökum lögum, svo sem húsagerð, brúagerð o. fl. Nefndin hætti þó við að bera fram þetta frv. að sinni, en æskir eftir ákveðinni yfirlýsingu eða loforði frá hæstv. stjórn um að nota ekki þessar sjerstöku heimildir í lögum eða ráðast ekki í aðrar verklegar framkvæmdir en þær, sem standa í fjárlögunum. Mun þá nefndin hlíta því loforði, en ella mun hún bera þetta frv. fram. Einn hv. nefndarmanna hafði sjerstöðu í nefndinni að því er við kom breytingu á frv., en um þetta síðasta atriði, sem jeg nú gat um, var hann oss hinum nefndarmönnum fyllilega sammála.