27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

73. mál, yfirsetukvennaskóli

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og nál. sýnir, hefir nefndin fallist á að leggja til, að frv. verði samþykt. Annars hefi jeg rakið málið allítarlega við 1. umr., og tel því ekki þörf á að gera það nú. Nefndin hefir gert tvær brtt. Hin fyrri er sú, að landlækni sje gert að skyldu að gegna störfum við ljósmæðraskólann. Núverandi landlæknir hefir undanfarið haft að launum 1500 kr., en við 2. umr. fjárlagafrv. fyrir 1925 voru laun hans lækkuð niður í 1000 kr. Nefndin vill hafa hjer sömu skipun á og um kenslu biskups í guðfræðideild háskólans. Þó ætlast hún ekki til, að þetta komist á fyr en landlæknisskifti verða næst.

Hin brtt. er sú, að lögfest verði 300 kr. laun ljósmæðra, sem starfa við skólann. Till. kom fram í gær um að lækka þau niður í 200 kr. með 6 mánaða starfi. Nefndin telur rjett að halda 300 króna launum fyrir 9 mánaða starf, enda er það sama hlutfall. Nefndin gerir þetta ekki að kappsmáli, en vill þó ekki taka þetta aftur og biður deildina að samþykkja frv. án þess að láta það gjalda þessa. Níu mánaða nám er ekki of langur undirbúningur undir jafnábyrgðarmikið starf. Mun það vera álit allra, sem gera sjer ljóst, að það er meiri alvara á ferðum þegar kona elur barn en þegar kýr ber í fjósi.