11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

134. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Eins og menn rekur minni til, var hjer til umræðu í fyrradag breyting á sveitarstjórnarlögunum frá hv. þm. Mýra. (PÞ) og brtt. frá mjer við það frv. En því frv. var vísað til stjórnarinnar, og er jeg sá, að þau mundu verða afdrif málsins, tók jeg brtt. mína aftur. Og er hún nú hjer fram komin í sjerstöku frv. um viðauka við sveitarstjórnarlögin.

Jeg gerði þá grein fyrir þessari tillögu eða viðauka við lögin, og er það að nokkru enda tekið fram í greinargerðinni við frv., og þykir mjer því engin ástæða til að endurtaka það nú. Viðauki þessi er nauðsynlegur til þess, að fult jafnrjetti haldist í þessu efni hjer við Faxaflóa sem við aðra firði og flóa á landinu. Brtt. mín, sem var alveg samhljóða þessu frv. að efni til, var í allshn, og lýstu báðir nefndarhlutarnir því yfir, að þeir væru henni fylgjandi. Jeg tel því ekki þörf á, að málið fari til nefndar framar en orðið er, en vænti þess, að hv. deild lofi því að ganga óhindrað fram, enda er það skilyrði fyrir því, að það geti orðið að lögum á þessu þingi, þar sem svo er orðið áliðið þingtímans.