14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

134. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Ottesen:

Þetta frv. hefir gengið mótmælalaust gegnum tvær umr. sem sjerstakt frv. og eina umr. sem sjálfstæð brtt., og það er fyrst nú, þegar á að fara að gera út um málið hjer í deildinni, að hv. 1. þm. Árn. (MT) ræðst grimmilega á það frá ýmsum hliðum og hefir sýnilega haft mikinn viðbúnað. Mjer kemur þessi árás hv. þm. á frv. alveg á óvart. Hann hafði talað við mig um brtt. þá, er hann nú flytur, og leitað samvinnu við mig um hana, og var þá ekki annað að heyra á honum en að hann teldi frv. þetta gott og heilbrigt og rjettmætt í alla staði. En nú kallar hann frv. hreina og skæra útsvarshreppapólitík. En sje þetta nú svo, þá á það ekki sjerstaklega við frv. mitt út af fyrir sig, heldur þá um þau ákvæði í sveitarstjórnarlögunum, sem þetta frv. er stílað við og sem hann hefir játað, að sjeu sitt eigið verk. Það eru því hans eigin handaverk, hans eigið fóstur, sem hann nú kallar hreina og skæra útsvarshreppapólitík.

Þá taldi hv. þm., að með frv. væri vikið frá því grundvallaratriði, sem það ákvæði sveitarstjórnarlaganna byggist á, því, að menn, sem stunda útveg við sama fjörð eða flóa, sem þeir búa við, skuli ekki útsvarsskyldir, þótt þeir reki útgerð sína í öðru sveitarfjelagi við þann sama fjörð eða flóa, ef þeir greiða útsvar heima hjá sjer. Það er vitanlega ekki rjett. Meining þessa ákvæðis er vitanlega sú, að þeir, sem sækja á mið á sama firði og flóa, sem hreppsfjelag þeirra sjálfra liggur að, sjeu undanþegnir útsvarsgreiðslu annarsstaðar en þar, sem þeir eiga heima. En aftur á móti gengur brtt. sjálfs hans móti þeirri frumreglu. Menn á Eyrarbakka og Stokkseyri sækja sína veiði heiman að frá sjer á þau mið, er tilheyra Eyrarbakka-„bugtinni“. Mín till. fer því fram á það, að frumreglan sje haldin við Faxaflóa sem annarsstaðar. En hv. 1. þm. Árn. vill með sinni till. rjúfa hana.

Eins og jeg hefi áður sagt, þá er hinn nýfallni og umræddi hæstarjettardómur ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið. Í þeim dómi er Garðskagi talinn takmarka Faxaflóa að sunnanverðu, en vitanlegt er, að þó Sandgerði sje utan þeirra takmarka, þá er þaðan sótt á þau mið, sem eru innan takmarka flóans, eins og þau eru talin að vera samkv. þessum hæstarjettardómi. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að Garðskagi hefði ætíð verið talinn takmarka Faxaflóa að sunnanverðu, en það er þvert ofan í sannleikann og álit fjölda manna að fornu og nýju. Jeg get þar vitnað til ýmsra fornra heimilda, svo sem Landnámu, fyrir því, að Faxaflói hefir jafnan verið talinn frá Reykjanesi. Í Landnámu, 2. kap., segir svo um siglingu þeirra Hrafnaflóka og fjelaga hans að landinu: „Þeir kvámu austan at Horni, ok sigldu fyrir sunnan landit. Enn er þeir sigldu vestr um Reykjanes, ok upp lauk firðinum, svá at þeir sá Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikit land, er vér höfum fundit; hér eru vatnföll stór.“ Síðan er þat kallaðr Faxaóss.“ Ennfremur eru til hjer í skjölum Alþingis samþyktir ýmsar viðvíkjandi veiðiskap og öðru slíku hjer við flóann. Þar eru t. d. samþyktir frá fundi, sem haldinn var á Vatnsleysuströnd, þar sem mættir voru menn úr Hafnahreppi til þess að ráðgast um ýms ákvæði og gera samþyktir um netjalög og því um líkt við Faxaflóa. Þetta sýnir, hvernig þeir Suðurnesjabúar hafa litið á um takmörkin fyrir flóanum.

Nú vill svo vel til, að skólastjóri stýrimannaskólans hefir ennfremur gefið vottorð um það, að hann líti svo á, að Faxaflói verði að teljast frá Reykjanesi til Öndverðuness. Annars munu til vera aðrir, sjerstaklega yngri skipstjórar, sem líta þannig á málið, að flóinn teljist aðeins frá Öndverðunesi að Garðskaga. Og þó að hæstarjettardómur liggi fyrir um það, að takmörkin sjeu þessi, þá veit jeg, að hitt er langalmennasta skoðunin, einmitt sú skoðun, sem hjer hefir ríkt frá upphafi Íslandsbygðar. Að hjer sje verið að breyta landafræðinni, er aðeins fjarstæða; rjettara væri þá að segja, að með frv. væri verið að koma í veg fyrir, að henni væri breytt, eins og gert hefir verið með þessum margumrædda hæstarjettardómi. Frv. er flutt til þess, að fult samræmi sje í þessu atriði eins um Faxaflóa eins og aðra firði og flóa á landinu. Og það virðist ekki ósanngjarnt, og það því fremur, þar sem svo hagar til hjer, að lífsnauðsyn er þeim, sem innar búa við flóann, að stunda veiðar sínar frá Sandgerði á vetrarvertíðinni. Alt önnur er afstaðan fyrir Eyrarbakka- og Stokkseyrarmenn. Fyrst og fremst búa þeir ótvírætt utan Faxaflóa, og í öðru lagi stunda þeir mest veiðar sínar heiman frá sjer. T. d. í fyrravetur stundaði aðeins einn bátur þaðan veiði frá Sandgerði, og þó ekki nema fram í febrúar; þá flutti hann heim og stundaði netaveiðarnar heiman frá sjer. Þessi brtt. hv. 1. þm. Árn. er því fjarstæða einber, því það er sitthvað að vilja láta Faxaflóa halda þeim takmörkum, sem verið hafa að fornu og nýju, eða teygja hann alla leið austur að Þjórsárósum. Það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um viðskifti manna á Suðurnesjum og Árnesinga og Rangæinga, sje jeg ekki, að komi þessu máli hið minsta við, og sleppi því alveg að fara út í þá sálma. En út af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði síðast í ræðu sinni, að hann mundi fylgja frv., ef niður fjellu orðin „í þessu efni“, þá vil jeg leyfa mjer að bera fram skriflega brtt. um það, ef hv. þm. skuldbindur sig þá til að fylgja frv. og taka sína brtt. aftur. (MT: Já, það skal jeg gera). Þá leyfi jeg mjer hjer með að afhenda hæstv. forseta hina skriflegu brtt.