14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

134. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Torfason:

Jeg held, að hv. þm. Borgf. (PO) megi vera mjer þakklátur fyrir, að jeg hefi leitt hann frá villu hans vegar; en slíkt verður oft best gert með því að sýna villurnar í skoplegu ljósi. Þess vegna kom jeg fram með brtt. mína, svo að hann gæti sjeð frv. í spjespegli. Það var alls ekki meining mín að ráðast á málið, heldur þvert á móti að bjarga því. Greiði jeg því atkvæði, ef brtt. verður samþykt. Hann mintist á samtal okkar um frv., og þarf jeg þar ekki öðru til að svara en því, að það eru talin óskráð lög, að menn hermi ekki þau orð, sem sögð eru við þá í einkasamtali. Það er satt, að við töluðum saman um þetta mál, jeg og hv. flm., en hann ljet þess ógetið, að jeg sagði honum, að úr því okkur gat ekki komið saman, mundi jeg fara minna ferða. Auðvitað sagði jeg honum ekki allan minn hug, og hefir hann áþreifanlega sannað, að það var hyggilega gert. Hv. flm. (PO) mintist á það, að þetta væri hreppapólitík hjá mjer. Þetta er alveg öfugt. Það er hann, sem af hreppapólitík virðist gleyma bæði skráðum og óskráðum lögum, en þar sem hv. flm. hefir nú sjeð að sjer, þykir mjer gustuk að hrella hann ekki frekar í þessu máli, og tek brtt. mína aftur.