14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

134. mál, sveitarstjórnarlög

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa seinni ræðu hv. 1. þm. Árn.; hún var öll frá upphafi til enda tilraun til þess að leiða athygli manna frá því, hver óskapnaður hans eigin brtt. er, sem hann nú hefir tekið aftur. Það var líka að öllu leyti sæmst honum sjálfum að koma þeim óburði fyrir kattarnef.

Nú hefir háttv. þm. alt í einu snúið við blaðinu og þykist nú fullur umhyggju fyrir málinu og að alt hafi þetta verið í góðum tilgangi gert hjá sjer; já, sjer er nú hver umhyggjan. Það sjer áreiðanlega í úlfshárin undan sauðargærunni, en hluturinn er, að hann sjer þess engan kost að vinna máli þessu neitt ógagn; sú tilraun hans var andvana fædd. Það sjer hann nú; það veldur skoðanaskiftunum, en ekki þessi litla brtt. mín, sem hann telur svo mikils virði og eignar sjer heiðurinn af. Hann segist með því að eiga hlutdeild í þessari brtt. minni hafa komið fyrir mig vitinu í þessu máli. Það er nú svo, en það verður bara því ábærilegra, hvernig mjer tókst að koma fyrir hann vitinu með að láta ekki sína vitlausu brtt. koma undir atkvæði, heldur taka hana strax aftur. Þá mynd, sem hv. deildarmenn sjá speglast af hv. 1. þm. Árn. Þessa brtt. hans sjá þeir ekki í spjespegli, heldur alveg eins og hún er í raun og sannleika.