15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði ýmislegt að athuga við ræðu hv. frsm. 1. kjörbrjefadeildar (JÞ), um kosningakærur þær, sem nú hefir verið lagður úrskurður á, og sjerstaklega tel jeg hafa verið mjög mikla galla á Seyðisfjarðarkosningunni. En jeg kvaddi mjer ekki hljóðs þá, til þess að eyða ekki málfrelsi mínu. Jeg bjóst við að hafa þörf fyrir það, þegar að því kæmi að ræða þessa kæru, sem nú liggur fyrir.

Hv. 3. kjörbrjefadeild leggur til með miklum meiri hluta, að kosningin á Ísafirði verði tekin gild; en þó að úrslitin sjeu ef til vill ráðin fyrirfram, get jeg ekki stilt mig um að fara nokkrum orðum um málið.

Það hefir komið fram mjög rökstudd kæra yfir kosningunni á Ísafirði, frá meira en 20 kjósendum. Skal jeg þræða kæruna lið fyrir lið, svipað eins og hv. frsm. 3, kjörbrjefadeildar (JAJ) gerði, og andæfa jafnóðum því, sem hann sagði um kæruatriðin. En áður en jeg fer lengra, vil jeg leyfa mjer að bera fram fyrirspurn til hv. frsm. (JAJ), sem jeg óska, að hann svari nú þegar, annaðhvort með jái eða neii. Hefir hv. 3. kjörbrjefadeild opnað atkvæðaumslög ákveðinna manna, sem undirkjörstjórn hefir tekið gild? (Aldursforseti SJ: Það hefir verið gert). Þar sem hv. frsm. svarar ekki, verð jeg að álíta þögn hans viðurkenningu á því, að hv. kjörbrjefadeild hafi raskað leynd þeirri, sem vera á yfir atkvæðagreiðslu manna og lögin mæla svo ríkt fyrir um. Háttv. sessunautur minn, þm. V.-Sk. (JK), segir nú líka, að atkvæðaumslögin hafi verið opnuð. Það er mjög herfilegt brot á kosningalögunum, sem hv. kjörbrjefadeild hefir gert sig seka í með þessu, því að á þennan hátt má rekja, hvernig ákveðnir menn hafa greitt atkvæði.

Fyrsta atriði kærunnar er um galla á skriflegri atkvæðagreiðslu, er fram fór hjer í Reykjavík, þeirra Stefáns Hermannssonar og Jónínu Jónsdóttur. Þau hafa ekki undirritað fylgibrjefin, en það er tvímælalaust brot á 4. gr. laga nr. 47 frá 30. nóv. 1914, þar sem svo segir: „Hann (þ. e. kjósandinn) útfyllir því næst og undirskrifar fylgibrjefið.“ Úr þessu bætir það ekkert, þó að skrifstofa bæjarfógetans í Reykjavík votti það á kjördegi, að þau hafi kosið, því að það fullnægir ekki ákvæðum laganna að heldur. Jeg tel því rangt af kjörstjórnunum að meta þessi atkvæði gild.

Þessi galli á kosningunni er þó lítill í samanburði við það, að þessir 2 kjósendur og 2 aðrir hafa sannanlega kosið á 2 stöðum. Þetta er afdráttarlaust brot á kosningalögunum, og skil jeg ekki, hvernig háttv. frsm. (JAJ) getur leyft sjer að fullyrða, að þessi 4 atkv. hafi engin áhrif á lögmæti kosningarinnar, þar sem þó á engan hátt er unt, eftir úrskurðun meiri hluta kjörstjórnarinnar á Ísafirði, að teygja meira en eins atkvæðis meiri hluta handa frambjóðandanum Sigurjóni Jónssyni. En þetta er í samræmi við þau önnur rök, sem háttv. frsm. (JAJ) hafði fram að bera fyrir hönd kjörbrjefadeildarinnar. (JAJ: Jeg hygg, að í 3. kjörbrjefadeild sjeu lögfræðingar jafngildir hv. þm.). Jeg þykist jafnsnjall háttv. frsm. (JAJ) í þeim efnum, en hitt get jeg skilið, að hann vilji sveigja lögin á þann hátt, sem betur kemur í svipinn. En jeg tel þó, að lögin hljóti einnig að ná til hans flokks. Og það er greinilegt, hvað lögin segja um þetta efni. í 5. gr. laga nr. 28, 3. nóv. 1915, er svo fyrir mælt:

„Sá sem hefir heimilisfang víðar en á einum stað, segir sjálfur til, á hverjum stað hann vill neyta kosningarrjettar síns.“ Þessir kjósendur, sem hjer ræðir um, vanrækja að gera þetta. Þau eru vitandi vits að greiða atkvæði á tveim stöðum. Því að um sama leyti sem bœjarfógetaskrifstofan hjerna vafalaust sendir yfirforgangshraðskeyti til Ísafjarðar, um að þau hafi greitt hjer atkvæði, eru þau að ganga að kjörborðinu hjer í bæ og kjósa vafalaust lista sama flokks. Þessu til stuðnings er 3. gr. laga nr. 50, 20. júní 1923:

„Enginn má við sömu kosningar senda frá sjer nema einn kjörseðil.“ Því að megi ekki senda frá sjer nema einn kjörseðil, má auðvitað enginn greiða atkvæði á kjörstað, nema því aðeins að skriflegt atkvæði hans sje áður gert ógilt. Þessu til stuðnings er og 6. gr. sömu laga, 2. málsgr. Þetta eitt ætti að vera nægilegt til þess að ógilda kosninguna. (MJ: En 32. gr. kosningalaganna?). Ef kjörstjórninni hefði verið kunnugt um þetta, hefði hún átt að vísa atkvæðunum frá. En kjörstjórnin gat auðvitað ekkert um þetta vitað, og því áfellist jeg hana ekki fyrir þetta atriði. En nú er hinu háa Alþingi kunnugt, hvernig í þessu liggur, og er það því berlega skylda þess að ónýta þessi 4 atkvæði, en með því verður kosningin á Ísafirði ógild, þar sem einungis veltur á einu atkvæði samkvæmt úrskurði meiri hluta kjörstjórnar.

Háttv. frsm. (JAJ) kvað það ekki sannað, að þeir 3 kjósendur, sem stóðu hjer á kjörskrá og greiddu atkvæði skriflega sem ísfirskir kjósendur, hafi í raun og veru kosið einnig hjer í Reykjavík. En nú vill svo til, að hv. 3. kjörbrjefadeild hafði vottorð frá einum manni úr yfirkjörstjórninni í Reykjavík, er sannar, að þessir kjósendur hafi greitt atkvæði hjer. Háttv. frsm. (JAJ) leiddi þetta hjá sjer, taldi einungis líklegt, að svo hefði verið, en jeg tel það skýlaust sannað. (JAJ: Það var ekki um það getið, að vottorðsgefandi væri í yfirkjörstjórn; mjer var ókunnugt um það). Var hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) ekki í 3. kjörbrjefadeild? Jeg skal með leyfi hœstv. forseta (SJ) lesa upp vottorðið, svo að þeir, sem kunnugir eru, geti sjeð, hvort vottorðsgefandinn var ekki í yfirkjörstjórninni:

„Að gefnu tilefni vottast hjer með, að við síðustu alþingiskosningar í Reykjavík neyttu eftirgreindir kjósendur kosningarrjettar:

Nr. 668. Oddur H. G. Gíslason, bókbindari, 66 ára, Grettisg. 54.

Nr. 492. Jónína S. Jónsdóttir, húsfrú, 60 ára, Grettisg. 54.

Nr. 854. Stefán Hermannsson, úrsmiður, 45 ára, Hverfisg. 57.

Allir þessir kjósendur eru á aukakjörskrá.

Virðingarfylst.

Þorvarður Þorvarðsson.“

(JóhJóh: Hvenær er vottorðið dagsett!) 11. þ. m. Það er mjög langt síðan þess var óskað, að vottorðsgefandi útvegaði slíkt vottorð, og mun hann hafa haft aðgang að kjörskránum, sem viðhafðar voru kosninguna. Þetta tel jeg fulla sönnun og efast um, að hv. þm. þori að vefengja, að umræddir kjósendur hafi greitt atkvæði á tveimur stöðum.

Þá kem jeg að kosningarúrslitunum sjálfum og gerðum yfirkjörstjórnar. Það er sannað með útskrift úr gerðabók yfirkjörstjórnarinnar á Ísafirði, að af þeim atkvæðum, sem voru ágreiningslaust tekin gild, átti Haraldur Guðmundsson 439, en Sigurjón Jónsson einungis 438. Þessi atkv., sem ekki hefir orðið ágreiningur um, eru öll ógölluð og eru hin eiginlegu úrslit kosningarinnar. En þegar hjer er komið, grípur kappið í kosningunni meiri hluta yfirkjörstjórnar, og er þá farið á ný að vega og meta hina gölluðu seðla. Jeg er sammála hv. frsm. (JAJ) um það, að rjett sje að úrskurða um gallaða seðla jafnóðum og að þeim kemur. En yfirkjörstjórnin tekur þá á ný til athugunar, svo sem jeg gat um, og úrskurðar á þann veg um þá, að frambjóðandinn Sigurjón Jónsson hafði 1 atkvæði umfram.

Hinir gölluðu seðlar, sem lagðir voru frá við upptalninguna, voru alls 21. Af þeim voru 15 dæmdir ógildir í einu hljóði. Umboðsmaður Haralds Guðmundssonar samþykti þetta af þeirri ástæðu, að hann hugði, að yfirkjörstjórnin ætlaði að þræða bókstaf laganna og ógilda alla þá seðla, sem greinilega væru merktir. Á meðal þessara seðla var ekki ljelegri seðill en:

„Herra Haraldur Guðmundsson, Ísafirði.“ Af öllum þeim vafaseðlum, sem jeg hefi sjeð, þykir mjer sjálfsagðast að taka þennan gildan, þar sem hjer er fullkomin utanáskrift. Hv. frsm. (JAJ) kvað kjörbrjefadeildina og hafa viljað telja þetta gott og gilt atkvæði, en það kom ekki til af góðu, því að þá var dreginn fram annar seðill, til þess að vega salt á móti þessum. Þennan seðil Haralds Guðmundssonar átti, eins og áður er sagt, langhelst að taka gildan af öllum vafaseðlunum, en jeg vil þó halda því fram, að kjörstjórnin hefði tvímælalaust átt að ónýta alla þessa seðla; þá hjelt hún sjer fast við kosningalögin.

Þá eru 2 seðlar, sem á stendur Sigurður Jónsson. Þeir voru auðvitað báðir dæmdir ógildir, enda ekki auðið annað. En svo langt gengur frambjóðandinn Sigurjón Jónsson, að hann mótmælir þessu og eignar sjer báða seðlana. Hvernig í dauðanum hefði mátt telja honum þessi atkvæði? Það eru sjálfsagt margir Sigurðar Jónssynir á Ísafirði; jeg þekki að minsta kosti einn, Sigurð Jónsson kennara, sem á Ísafirði er alkunnur maður, og má vel vera, að þessir tveir kjósendur hafi viljað kjósa hann og ætlað það leyfilegt. Jeg minnist þess, að við þær einu almennu borgarstjórakosningar, sem fram hafa farið hjer í Reykjavík, kom fram seðill með nafni alþekts borgara hjer í bæ, sem var ekki í kjöri, og kom hvorugum frambjóðandanum til hugar að eigna sjer það atkvæði. Jeg verð því að telja það freklega ágengni af hálfu frambjóðandans Sigurjóns Jónssonar að koma til hugar að eigna sjer þessi atkvæði.

Þá eru 2 seðlar, sem yfirkjörstjórn tók gilda. Á öðrum þeirra stendur: Sigurjónsson Jónsson, en á hinum er merki í hringnum framundan nafni Sigurjóns.

Þetta leggur yfirkjörstjórn á vogarskálina til þess að fá meiri hluta handa Sigurjóni Jónssyni. Seðillinn með nafninu Sigurjónsson Jónsson er vafalaust ógildur. Enginn maður með því nafni er í kjöri. Ef fylgt er bókstaf laganna og þeim reglum, sem viðhafðar voru um ógildingu áðurnefndra 15 seðla, er þetta augljóst. Hinn seðilinn, með merkinu framundan nafni Sigurjóns, hefi jeg skoðað, og sá jeg, að hann var ekki merktur samkvæmt fyrirmælum kosningalaganna. Við stimplunina hefir stimpillinn ekki náð yfir allan hvíta reitinn, svo að hvít rönd er eftir. En einmitt á sama hátt hefir verið merktur seðill, sem gerður var ógildur fyrir Haraldi Guðmundssyni.

Loks hefir annar seðill verið ónýttur fyrir Haraldi, af þeirri ástæðu, að blekdropi hefir runnið á hann.

Jeg tel rjett að ógilda alla þessa seðla, en sje farið að meta þá og jafna þeim saman, þá verða ekki þau úrslit með rjettum dómi, að Sigurjón Jónsson hafi 1 atkv. umfram.

Menn geta vel skilið, að kjörstjórn leiðist til þess í kosningahita að ganga feti framar um að taka gild atkvæði en lög standa til. En hitt verður ekki fyrirgefið á neinn hátt, ef Alþingi samþykkir með köldu blóði það, sem hjer hefir verið gert. Jeg get ekki trúað því fyr en jeg tek á, að hið háa Alþingi leyfi sjer að ganga svo langt, að það fallist á gerðir meiri hl. yfirkjörstjórnarinnar á Ísafirði.

Jeg skal leyfa mjer að drepa á, hvernig Alþingi hefir litið á svipaðar kosningar undanfarið. Við kosningarnar 1908 stóð líkt á á Seyðisfirði. Þar var annað þingmannsefnið talið kosið með 1 atkv. mun. Þingið 1909 ónýtti þessa kosningu vegna galla á kjörseðlum, er yfirkjörstjórn hafði úrskurðað gilda. Þó voru þessir seðlar ekki svipað því eins gallaðir og seðlar þeir frá Ísafjarðarkosningunm, sem jeg hefi nú lýst. Þá var kosið á þann hátt, að blýantskross var gerður, og um einn atkvæðaseðil segir einn háttv. þm. (BJ): „Annað strikið er dregið tvöfalt, sem getur þó ekki stafað af því, að blýanturinn hafi verið tvíyddur. Sá seðill getur því ekki talist gildur.“ Annan seðil vildi sami hv. þm. láta ógilda vegna þess, að aukastrik sást á honum. Farast honum svo orð: „Enda má ekkert vera, er bent geti til, að viljandi hafi verið dregið ólöglega. Annars gætu menn, er þegið hefðu mútur, sýnt, hvern þeir hefðu kosið.“

Er gott að athuga þessi orð í þessu sambandi.

Enn eru nokkur atriði, sem þörf væri að minnast á.

Hjer í Reykjavík hafa t. d. tveir ísfirskir kjósendur verið látnir kjósa heima. Eru skjöl þau, er þá kosningu snerta, í mesta máta athugaverð. Þegar litið er á fylgibrjef atkvæðaseðlanna, verður eigi annað sjeð en þessir kjósendur hafi kosið í skrifstofu bæjarfógeta. En svo kemur vottorð eins skrifara bæjarfógeta, sem segir, að kosningin hafi farið fram á heimili kjósendanna. Þetta sýnist nokkuð leyndardómsfult. Og enda þótt undirkjörstjórn þar vestra sje eigi ljóst, hvernig hjer er í pottinn búið, þá verður hið háa Alþingi, sem veit alla málavöxtu, að taka tillit til slíks, ekki síst þegar um svo lítinn atkvæðamun er að ræða og sýnilegt er, að hart hefir verið fram dregið að fá úrslit þau, sem urðu á þessari kosningu.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að meðferð hv. 3. kjörbrjefadeildar á atkv. þeim, sem henni voru send. Á jeg við heimagreidd atkvæði Jóns Magnússonar og Guðrúnar Halldórsdóttur. Mjer skilst, að hv. kjörbrjefadeild noti einmitt annað þessara atkvæða til þess að fá sömu niðurstöðu og kjörstjórn Ísafjarðar. Þegar það er athugað og svo hitt, að kjósandi er ekki einu sinni skyldur að segja fyrir rjetti, hvern hann hafi kosið, þá kom mjer mjög á óvart, þegar hv. kjörbrjefadeild kemur og lýsir yfir því, að Guðrún Halldórsdóttir hafi kosið frambjóðandann Sigurjón Jónsson. Fæ jeg ekki betur sjeð en að hjer hafi hv. kjörbrjefadeild framið lagabrot, og undrar mig, að lögfræðingar þeir, sem í henni áttu sæti, skyldu láta slíkt viðgangast.

Fer lítil leynd að verða á atkvæðum manna, ef þessi regla verður upp tekin, og ekki þarf að fara í grafgötur með, hver komið hafi Sigurjóni Jónssyni á þing, ef þetta atkvæði verður látið ráða úrslitum.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessi kosning sje svo ramgölluð, að allir hv. þm. hljóti að greiða atkv. gegn lögmæti hennar, ef þeir fá tíma til að kynna sjer öll gögn til hlítar. Það efast jeg um, að þeir hafi getað enn og vil því gera þá till., að kosningunni verði vísað til væntanlegrar kjörbrjefanefndar. Geri jeg það í þeirri von, að menn sjeu eigi fyrirfram ákveðnir að greiða kosningunni atkv., enda þótt meiri hluti háttv. kjörbrjefadeildar leggi það til.