24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Það hefir valdið hjer töluverðri deilu, að vegamálastjóri hefir ekki látið smiðju ríkissjóðs starfa í vetur. Er því haldið fram, að ríkissjóður hafi tapað á þessari ráðstöfun, og það er jeg sannfærður um, því að ótrúlegt er, að hann hafi fengið ódýrari viðgerðir á áhöldum sínum hjá öðrum. Hefir áður verið að því fundið opinberlega, að farið hafi verið með smíðavinnu fyrir ríkissjóð til einstakra manna, þótt hægt væri að fá sömu vinnu gerða í landssjóðssmiðjunni fyrir mörgum þúsundum króna minna verð. Sú aðfinsla varð til þess, að þessu var kipt í lag. Jeg held því, að það hafi verið hin mesta ósparnaðarráðstöfun að láta loka smiðjunni, og því stór nauðsyn að láta hana taka til starfa sem allra fyrst.