05.03.1924
Efri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

59. mál, friðun rjúpna

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Þótt frv. þetta sje ekki umfangsmikið mál og muni auðskilið hv. deildarmönnum, vil jeg fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum, greinargerð þess til árjettingar.

Þar, sem jeg þekki til á Norðurlandi, sjest nú mjög lítið af rjúpum enn, þótt þær hafi nú verið friðaðar hátt á þriðja ár.

Þetta hlýtur að stafa af því, að þegar friðun þeirra hófst, höfðu bæði menn og harðindi lagst á eitt og gert sitt ýtrasta til að eyða rjúpum með öllu. Lítur helst út fyrir, að svo langt hafi útrýmingunni verið á veg komið, að ekki hafi vantað nema herslumuninn, að þetta tækist.

Þetta sá þáverandi landsstjórn og gaf út 26. nóv. 1920 bráðabirgðalög um, að rjúpur skyldu vera alfriðaðar til 1. janúar 1922. Þingið 1921 framlengdi þessa friðun þangað til í okt. síðastl. ár, en árið 1922 voru rjúpur hvort eð er friðaðar samkv. fuglafriðunarlögunum frá 1913.

Ef þing og stjórn hefðu ekki tekið svo í taumana, þá efast jeg um, að rjúpur væru hjer til, nema í endurminningu manna.

Þegar svo var komið, að ekki var nema örlítið eftir af rjúpu hjer á landi, er ekki að undra, þótt nokkuð langan tíma taki, að þeim fjölgi að verulegum mun, eða svo, að tiltækilegt sje að láta friðuninni vera lokið.

Ef hverjum verður leyft að skjóta rjúpu næsta haust eftir vild, eru litlar líkur til, að mikið verði um hana að sex árum liðnum, næst þegar þær verða friðaðar. Jeg hefi átt tal við nokkra hv. þm. um þetta mál síðan frv. þetta kom fram, og hafa þeir flestir álitið þess fulla þörf, að hjer væri eitthvað aðhafst. En sumir þeirra hafa ekki viljað fallast á svo langan friðunartíma sem frv. tiltekur. Má og vel vera, að hentugra væri að hafa heldur styttri tíma milli friðunaráranna. Sex ár eru máske fulllangur tími. Annars vona jeg, að frv. verði að lokinni umr. vísað til landbn.