13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

59. mál, friðun rjúpna

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg vildi aðeins þakka hv. nefnd, hvernig hún hefir farið með þetta mál, og vænti jeg, að hv. deild leggi meira upp úr því, sem nefndin leggur til, er hefir athugað sjerstaklega þetta mál, en áliti einstakra hv. þm., er lítið hafa um þetta hugsað. Eins og hv. frsm. (EP) tók fram, þá sitja í nefndinni menn úr öllum landsfjórðungum, en mjög eru þær misjafnar sögurnar, sem ganga um fjölgun rjúpunnar, en kunnugleiki nefndarinnar hefir getað metið þær að rjettu. Í sumum hjeruðum er mjög fátt af rjúpum, og svo er í mínu hjeraði og víðar. Aðrir segja, að fjölgunin sje mikil; svo er t. d. um hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Máske er eitthvað ýkt á báða bóga. Jeg skal taka það fram, að þegar hv. 1. þm. Eyf. var

að tala um það, hversu margar rjúpurnar væru orðnar þar, þá var engu líkara en að það væri hin mesta plága. Jeg get nú ekki verið á sömu skoðun og hann um það atriði. Hann tók það fram, að rjúpurnar væru orðnar jafnmargar og áður bæði í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu. Hv. 2. landsk. þm. (SJ), sem er búsettur í Þingeyjarsýslu, hefir aðra sögu að segja. Hann er einnig sömu skoðunar og jeg, að þó að harðindin sjeu rjúpunni ill, þá sje þó öllu lakara, þegar mennirnir fylgja harðindunum eftir. Því þegar rjúpan flýr undan harðindunum niður í bygðina, þá er mönnunum gert hægara fyrir, og er þá einatt hægt að gerfella hana. Það má vel vera, að of mikið sje af rjúpunni í Eyjafirði, en það er áreiðanlega ekki víðar á landinu. Annars býst jeg ekki við, að hv. 1. þm. Eyf. hafi komið fram með brtt. sína til málamiðlunar, eins og hann sagði, heldur til sundrungar, því að hann fór ekki á milli álits flm. og nefndarinnar, eins og hann hefði gert, ef hann hefði ætlað að miðla málum. Jeg þarf ekki að taka það fram nú, sem jeg mintist á í flutningsræðu minni, hversu það hefir gengið undanfarið með rjúpuna, enda eru flestir sammála um það, að löggjafarvaldið verði að gera sitt til þess henni fjölgi.

Mjer þótti einkennileg sú skoðun, sem kom fram hjá einum hv. þm., að ekki sje vert að halda áfram friðuninni af því að friðunarlögin sjeu brotin. Það væri ekki vel gott, ef löggjafinn ætti að slaka til á lögunum af því að þau væru brotin. Jeg held, að rjettara væri þá að sekta lögbrjótana. En jeg vona, að hv. deild finnist ekki of miklu bætt við friðunartímann, þó að hann sje framlengdur um tvö ár. Og því aðeins kemur að notum till. landbn., að rjúpan verði ekki eyðilögð áður en friðunartíminn byrjar næst. Jeg neita því ekki, að hægt sje að hafa tekjur af rjúpunni, en menn mega ekki setja það fyrir sig, þó að tekjurnar komi ekki strax, þar sem í sumum hjeruðum landsins er svo lítið um rjúpuna, að um engar tekjur gæti verið að ræða af þeim eins og nú stendur.