18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Þorláksson:

Jeg stend upp einungis til að mótmæla söguburði hv. þm. Borgf. (PO), að litlu erfiðara muni hafa verið að fá rjúpur til átu hjer í bænum síðustu ár friðunartímans heldur en áður, meðan þær voru ekki friðaðar. Þetta er alveg tilhæfulaust. Jeg get auðvitað ekki um það vitað, hvort það hafi komið fyrir, að einstaka rjúpur væru skotnar og hafðar á borðum hjer, en öllum almenningi er það vitanlegt, að rjúpur til manneldis hafa varla sjest hjer í bænum þessi friðunarár. Geti menn nefnt þess nokkur dæmi, að íslenskar rjúpur hafi verið hafðar til matar hjer á þessum tíma, þori jeg að fullyrða, að það eru einstakar undantekningar.