18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

59. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að virða hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) það til vorkunnar, þó að hann vilji þvo hendur kjósenda sinna í Reykjavík af því, að þeir hafi lagt sjer til munns forboðna ávexti. Jeg hefi heyrt þessa sögusögn úr mörgum áttum, að rjúpur hafi verið hjer til sölu, en hinsvegar hefir verið reynt að fara leynt með þetta, með því að selja rjúpurnar reyktar, en kjötið er svo auðþekt, að engum mun dyljast, hvað þeir eru að eta. Í veislunni, sem jeg gat um, var ekki reynt að dylja, hvaða kjöt væri á borðum, en það var látið heita, að það væru norskar rjúpur.