18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

59. mál, friðun rjúpna

Jakob Möller:

Jeg verð að taka undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði um rjúpnaátið hjer í bænum. Jeg hefi verið hjer að staðaldri allan þennan tíma og aldrei orðið var við það, að rjúpur væru á boðstólum eða yfirleitt etnar þessi ár. Jeg get viðurkent um veisluna, sem hv. þm. Borgf. (PO) mintist á, að þar voru rjúpur á borðum. Jeg sat þá veislu, og var mjer sagt, að rjúpurnar væru norskar; hafði jeg ekkert tækifæri til að rannsaka, hvort svo væri, en hinsvegar enga ástæðu til að rengja það. Og þar sem annað hefir ekki sannast síðan, geri jeg ráð fyrir, að þetta hafi verið satt. Þessi veisla var á aðalmatsölustaðnum í bænum, sem áreiðanlega aflar sjer matvæla í stórum stíl frá öðrum löndum, og hví skyldi forstöðumaðurinn ekki hafa getað keypt rjúpur jafnt sem önnur matvæli? Meðan ekki verður sannað, að hann hafi sagt rangt til, er ekki rjett að vera með dyljur um þetta, og engum til sóma. Það er víst og áreiðanlegt, að rjúpur hafa varla sjest hjer í bænum til sölu eða neyslu síðan friðunarlögin gengu í gildi, en áður voru þær mjög algengar og mikið notaðar af bæjarbúum.