18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Þorláksson:

Jeg vil segja hv. þm. Borgf. (PO) það, að slúðursögur verða ekki sannari, þó að þær sjeu margendurteknar, en hann hefir engar sannanir fyrir sínu máli aðrar en þær, að hann hafi heyrt þetta víða. Það er algengt í nágrenni við Reykjavík, að það sje lostið upp sögum, sem ganga svo um alt land, og það þekkja Reykvíkingar, að þegar þeir koma í nærsveitirnar, heyra þeir fjölda af þessháttar sögum, sem þeir hafa aldrei heyrt innanbæjar. Jeg hefði ekki tekið til máls um þetta, ef jeg hefði ekki verið þess fullvís, að þessi söguburður væri rangur. Menn brjóta lög hjer sem annarsstaðar, þá er almenningsálitið leyfir, og hefði rjúpnadráp verið tíðkanlegt hjer, þá hefði varla verið farið svo vel með það, að menn yrðu ekki við varir. En jeg veit sönnur á því, að einstaka menn hafa keypt rjúpur frá útlöndum, og geta þeir sýnt innflutningsleyfi, reikninga og önnur skilríki, er lúta að því.