25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg vil byrja með því að þakka háttv. deild fyrir það, hve vel hún hefir farið með till. fjvn. í þessum fyrri hluta fjárlaganna, sem ræddur var í gær hjer í deildinni, og vænti jeg, að framhaldið verði nú hið sama, og að háttv. deild sýni till. fjvn. við þennan kafla fjárlaganna sama velvilja og áður, enda kemur nú eigi síður til kasta háttv. deildar í því að koma lagi á fjárhag ríkisins að því er þennan kafla fjárlaganna snertir. Sný jeg mjer því næst að 14. gr. fjárlaganna. Þessi grein fjallar aðallega um skólamálin, og eins og gefur að skilja, gat fjvn. ekki farið hjer eins langt í því að draga úr útgjöldunum eins og hugur hennar stóð til, þar eð meiri hluti þessara útgjalda í 14. gr. fjárlaganna eru lögbundnar greiðslur, og treystist fjvn. því ekki að fara lengra í þá átt en till. hennar benda til. Því eins og áður er fram tekið varð ekki meiri hluti fyrir því að gera hjer á stærri byltingar.

Fyrsta brtt. fjvn. við þennan kafla, við 14. gr., er 50. brtt. á þskj. 163, og er hún um skrifstofukostnað biskups. Hann er færður úr 2 þús. kr. niður í 1 þús. kr. Þar eð nú samskonar till. frá fjvn. var í gær samþ. hjer í deildinni viðvíkjandi landlækni, þykist jeg vita, að háttv. deild verði sjálfri sjer samkvæm einnig í þessu, og álít jeg því óþarft að fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni. Þá kemur næst allstór brtt., um að fella niður við háskólann aukakennaraembættið í íslenskri málfræði. Eins og tekið er fram í nál. og áður hefir oft verið tekið fram í þessu máli, telur fjvn. þessa kennara ekki vera eins mikla þörf eins og margra annara. Áður en þessi maður kom að háskólanum, hafði einn og sami maður þessa kenslu á hendi ásamt kenslunni í norrænu, og sýndist mæta vel geta afkastað því. Álítur fjvn., að enn megi þess sama vænta af þeim manni, sem nú hefir embætti í norrænu í þessari háskóladeild og hefir reynst þar mjög nýtur starfsmaður og ágætur í alla staði. Nú hefir að undanförnu á þessu þingi orðið vart nokkurrar hreyfingar í þá átt að breyta að nokkru skipulagi háskólans og fækka kennurum við hann. Virðist sem þessi breyting, eða bylting, sem eins vel má kallast, hafi talsverð ítök meðal háttv. þm., og þar sem frv. um þetta efni er ennþá óafgreitt frá þinginu, um að draga saman í eitt þessar sparnaðar- og embættafækkunartill., virðist einsætt, að hjer eigi í fjárlögunum að fara þessa leið, eins og brtt. fjvn. gerir ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir að sameina heimspekis- og lagadeild háskólans og að til þess geti komið, að eigi verði nema 2 reglulegir kennarar í hverri deild háskólans, og í heimspekideildinni aðeins einn og einn aukakennari. Eftir þessu virðist vera full ástæða fyrir fjvn. að bera þessa till. fram og að ætla, að allsterks stuðnings megi vænta í þessu efni hjá háttv. þm. Fjölyrði jeg því ekki frekar um þetta að sinni, enda vænti jeg að fá máske síðar tækifæri til að víkja nánar að þessu atriði, en vil yfir höfuð reyna að haga þannig orðum mínum, að jeg geti orðið sem stuttorðastur. Þar næst kem jeg að 53. brtt. fjvn., um styrktarfje háskólans, en jeg mun samkv. tilmælum rektors háskólans og hæstv. forsrh. (JM) taka þessa brtt. aftur og geyma til 3. umr., þar eð háskólaráðið mun ætla að halda fund um þetta á meðan, og verður þá þetta atriði tekið síðar til meðferðar, er till. háskólaráðsins eru kunnar orðnar um þetta.

Kem jeg því næst að brtt. fjvn. viðvíkjandi fjárveitingunni til gerlarannsókna. Leggur nefndin til að færa fjárveitinguna niður úr 2000 kr. í 1600 kr. Taldi hún engan vafa á því, að þetta væri vel fært án skaða fyrir þessi störf. En þó að jafnvel hefði mátt fara lengra í þessu efni, hafði fjvn. eigi aflað sjer nægilegra upplýsinga um það atriði, og leggur því aðeins þetta til.

Þá er næst námsstyrkur stúdenta, er nema við erlenda háskóla. Hingað til hafa í fjárlögum verið veittar 8 þús. kr. í þessu skyni, en jafnan farið langt fram úr áætlun. Þannig var árið 1922 eytt 23 þús. kr. á þennan hátt, þrátt fyrir, að eigi var til ætlast meiri eyðslu en 8 þús. kr. í því skyni. Nú er auðsætt, að við þetta má ekki una lengur. Má gera ráð fyrir, að þessi útgjöld aukist stórum árlega, eftir því sem tala stúdenta vex. Hafa þeim jafnan verið veittar 1200 kr. hverjum, sem nám hafa stundað erlendis, án tillits til ákvörðunarupphæðar fjárlaganna, og verður þetta því þungur baggi ríkissjóði, ef þessu heldur áfram. Nú vill fjvn. gera þær breytingar á þessu að fastákveða upphæðina og hækka hana úr 8 þús. kr. upp í 12 þús. kr., en ætlast ákveðið til, að fram úr því verði ekki farið. Ennfremur vill fjvn., að felt verði burt úr fjárlögunum ákvæðið um ákveðna upphæð handa hverjum styrkþega, en ætlast til þess, að þessari upphæð verði skift milli námsmannanna án tillits til tölu þeirra, eftir því sem stjórnin telur rjett eftir öðrum ákvæðum athugasemdarinnar. Næsti liður er og hækkun á útgjöldunum; það er til ljóss og hita í mentaskólanum. Eins og áður hefir verið tekið fram um samskonar liði í fyrri kafla fjárlaganna, þýðir ekki að áætla þá lægri en fyrirsjáanlegt er, að greiða þarf, og hefir aldrei verið áætlað nóg fje í þessu skyni áður. Þá er næsta brtt. um að fje það, sem veitt hefir verið til útgáfu kenslubóka í mentaskólanum, verði felt í burt í þetta sinn. Það er að vísu hart að þurfa að leggja til að fella niður fjárveitingu, sem alls ekki verður talin ónauðsynleg, en fjvn. vill láta líta á það, að vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs verður að draga þar úr öllum útgjöldum, sem fært þykir, og má skoða þetta fremur sem frestun um nokkurn tíma á framkvæmdum, eins og nú verður víða að grípa til, fremur en að við þetta skuli hætt.

Næst kemur þá fjárveitingin til ljóss og hita o. fl. í gagnfræðaskólanum á Akureyri; þar er um samskonar hækkanir að ræða og við mentaskólann í Reykjavík, og telur nefndin þetta vera óumflýjanlegt, enda sje hjer alls ekki um raunverulegar hækkanir að ræða. Sama gegnir og um tillagið til kennaraskólans í Reykjavík. Þar er um samskonar hækkun að ræða og hjá hinum skólunum, en auk þess vil jeg taka það fram, að samkvæmt áliti forstöðumanns kennaraskólans liggur skólahúsið undir skemdum, ef eigi verður við það gert, og tók fjvn. þær ástæður til greina.

Þá er 61. brtt. fjvn., við 14. gr. B. VII., þar sem hún leggur til, að burt verði feld athugasemd um, að lærdómsdeild mentaskólans verði undanþegin skólagjaldi eftirleiðis, og vill ennfremur hækka skólagjöldin úr 100 kr. upp í 150 kr. fyrir innanbæjarnemendur. Telur fjvn. ekki ástæðu til að undanskilja lærdómsdeildina í þessu efni, og enda ekki miður farið, þótt nokkuð dragi úr tölu stúdtenta eftirleiðis. Næst koma þá skólarnir á Hólum, Eiðum og Hvanneyri. Þetta eru alt dálitlar hækkanir á útgjöldunum, en reynsla undanfarinna ára hefir sýnt það, að ekki er hægt að komast af með minni fjárupphæðir en þetta til skólanna. Þetta er hliðstætt við hækkanirnar við aðra ríkisskóla. Svo koma iðnskólarnir í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri, og leggur fjvn. til, að færður verði niður styrkur til þeirra um helming, hvers fyrir sig, en í aths. ætlast fjvn. til, að þetta sje aðeins breyting í þá átt, að viðkomandi bæjarfjelög bæti skólunum það upp, sem í burt er felt úr fjárlögunum. Telur fjvn. þetta fulla sanngirni, þar sem skólar þessir koma viðkomandi bæjarfjelögum að mestum notum, og því rjett, að nokkru af þessum útgjöldum sje ljett af ríkissjóði. Jeg hefi heyrt það víða utan að mjer, að þessi og aðrar slíkar tillögur þyki allbarnalegar, að vilja velta ýmsum gjaldabyrðum af ríkissjóði yfir á bæjar- eða sveitarsjóði, sem eigi sjeu betur færir um að bera þessi gjöld en ríkissjóðurinn. Það má vel vera, að þeir sjeu lítt til þessa færir; en jeg hygg, að fjárhagsástæður ríkissjóðs hafi þá ekki verið teknar til athugunar eins og skyldi, enda vill það oft við brenna, að þeir, sem hæst láta um þetta, bera minst skyn á, hve afarörðugar eru kringumstæður ríkissjóðs á þessum tímum, eða þá hugsa alls ekki um það. En fjvn. telur alveg víst, að þau bæjarfjelög, sem hjer eiga í hlut, muni fúslega taka þessi útgjöld að sjer, er þessar mentastofnanir eiga í hlut, sem fremur en allir aðrir skólar eru einungis fyrir bæina.

Kem jeg þá að verslunarskólunum báðum, Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólanum. Þar hefir fjvn. ákveðið að lækka styrkinn um helming, niður í 3000 kr. til hvors þeirra. Ætla jeg ekki að ræða þessa brtt. fjvn. nú, þar sem fram er komin brtt. um að fella þessar upphæðir alveg niður. Mun þá gefast tækifæri til þess að fara frekar út í þetta, er þær verða ræddar, en jeg tek það aðeins fram, að fjvn. hefir ekki ætlað sjer að ganga lengra en þetta í niðurfærslunni.

Um niðurfærsluna á launum forstöðumanns yfirsetukvennaskólans er það að segja, að gildandi lög ákveða þau þetta, en þótt þau hafi stundum nú á síðari árum verið hækkuð, þá hefir það alt verið reglulaust, og þessi lækkun nú er ekki meiri en nefndin hefir gert víða annarsstaðar. Þá eru af sömu ástæðum lækkuð laun fyrir kenslu við þennan sama skóla úr 900 kr. niður í 600 kr. Er þessi niðurfærsla raunar ekki alveg niður í ákvæði laganna frá 1912, eins og laun forstöðumannsins, en nefndinni virðist, að þau hafi þá verið sett tiltölulega lægri.

Næstir eru þá kvennaskólarnir í Reykjavík og á Blönduósi. Hefir fjvn. lækkað nokkuð styrkina til þessara skóla, en ætlast til, að sú niðurfærsla færist að nokkru leyti yfir á viðkomandi bæjar- og sýslusjóði, — að því er skólann í Reykjavík snertir yfir á bæjarsjóð Reykjavíkur, en um Blönduósskólann gegn tillagi annarsstaðar frá. Hefir fjvn. ekki orðið sammála um þetta atriði, en meiri hl. leggur þetta til. Þetta kann nú að þykja harðleikni af fjvn., þar sem skólar þessir eru hinar einu sjermentunarstofnanir kvenna í ríkinu, en fjvn. áleit, að hún gæti þá ekki forsvarað gerðir sínar gagnvart skólunum yfir höfuð, ef ekki væri samræmi í þessu, jafnt að því er þessa skóla snerti. Að því er kvennaskólann í Reykjavík snertir, hefir styrkurinn til hans í raun og veru verið áætlunarupphæð, þar sem miklu meira hefir verið eytt en áætlað var. T. d. var árin 1921–22 áætlaður styrkur til þessa skóla 14 þús. kr., en þó runnu til hans úr ríkissjóði yfir 25 þús. kr. Það er því ljóst, að þessi skóli hefir ekkert olnbogabarn verið hjá stjórninni undanfarið, þar sem hún á honum hefir brotið allar algildar reglur um prívatskóla. Hefir hann og átt margt gott skilið, þar eð það er sýnt, að honum hefir verið mjög vel fyrir komið og praktiskt rekinn. Jeg skal þegar taka það fram, að laun forstöðukonu þessa skóla hafa verið sjerlega lág. Fjvn. getur því alls ekki sagt annað en gott eitt um þennan skóla, enda þótt hún leggi þetta til um hann. Sama er um Blönduósskólann að segja, og stendur þó nokkuð sjerstaklega á um hann, þar sem honum hefir verið breytt þannig, að hann er nú rekinn eingöngu sem húsmæðraskóli. En af þeim ástæðum, að Blönduósskólanum hefir verið breytt þannig, gerði fjvn. þá breytingu á ákvæðunum um upphæð námsstyrksins, að hann var hækkaður að nokkru, miðað við nemendafjölda. Stafar þetta af því, að við þessa breytingu á skólanum getur hann ekki tekið jafnmarga nemendur sem áður. Fyr voru þar um 50 nemendur, en nú ekki nema liðlega 30. En þó að nemendatalan hafi lækkað, hefir skólinn jafna þörf styrksins, þar eð þessi breyting hefir kostað ærið fje. Mjer hafði borist erindi frá sýslunefnd þar norður um mikið hækkaðan styrk til skólans, en undir þeim fjárhagskringumstæðum, sem nú eru hjá ríkissjóði, hafði jeg ekki brjóstheilindi til að bera það erindi fram hjer í þinginu, því að jeg tel sjálfsagt, að alt annað eigi að víkja, þegar um er að ræða að rjetta við fjárhag ríkisins. En þessi ákvæði um hækkun styrksins á hvern nemanda hafa engin aukin útgjöld í för með sjer fyrir ríkissjóð. Þetta leiðir eingöngu af nemendafækkuninni. Geri jeg svo ekki þessa brtt. að frekara umtalsefni, en legg þetta undir dóm háttv. deildar.

Þá leggur fjvn. til að lækka ritfje fræðslumálastjóra að nokkru. Er það í samræmi við samskonar lækkanir á öðrum sviðum. Þá er og lagt til að fella niður fjárveitinguna til framhaldsnáms kennara og Skólablaðsins, sem nú mun vera hætt að koma út, og því ekki ástæða til þess að veita lengur fje til þess. En hvað framhaldsnám kennara snertir býst nefndin við, að lengdur verði nú kenslutími í kennaraskólanum, og er þá því síður ástæða til framhaldsnáms.

Þá kem jeg að Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, og er þar ætlast til, að nokkuð af því fje, sem ríkið hefir greitt til hans, verði greitt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar og úr sýslusjóðum Gullbringu- og Kjósarsýslna. Er þetta af svipuðum ástæðum og lækkað hefir verið tillag til annara slíkra skóla. Þessi skóli er mjög hliðstæður kennaraskólanum í Reykjavík, að þetta er gagnfræðaskóli og samskóli fyrir karla og konur. Er skólinn mjög vinsæll, sem og hinn er, en þessar tillögur fjvn. eru aðeins gerðar til að koma á samræmi við aðra skóla. Þá leggur og fjvn. til, að innanbæjarnemendur í Flensborgarskólanum greiði skólagjald eftir sömu reglum og annarsstaðar á sjer stað. Þá hefir verið felt niður tillag til lýðskólans í Bergstaðastræti 3 í Reykjavík. Þetta er einnig gert aðeins af sparnaðarástæðum, en fjvn. er þeirrar skoðunar, að ef bæjarstjórn Reykjavíkur telur þennan skóla nauðsynlegan, muni hún taka hann að sjer, og sýnist heldur ekki óviðeigandi, þar sem bærinn kostar engu til gagnfræðakenslu.

Út af brtt. um að fella niður tillag til alþýðukenslubóka vill fjvn. taka það fram, að um þetta er sama að segja og um útgáfu bóka fyrir mentaskólann, að það er sparnaðarráðstöfun, sem verður að skoða sem frestun á þessu, en eigi annað. Þá hefir fjvn. lækkað styrkinn til Ólafs Pálssonar fyrir sundkenslu og felt niður tillag til leikfimiskenslu. Telur nefndin þetta ekki svo nauðsynlegt, að ekki megi án þess vera að sinni. Var þessu og marið inn í fjárlög síðast með litlum atkvæðamun, og engar skýrslur hafa nefndinni borist um það, hve mikið gagn hafi af þessu orðið eða hve margir hafi notið þessarar kenslu.

Þá kem jeg að 15. gr. Hún fjallar um útgjöldin til vísinda og lista. Hvergi hafa brtt. nefndarinnar verið eins róttækar og á þessum lið. Það er nú svo, að menn líta mjög misjöfnum augum á þessi mál. Sumir telja þau vera hin nauðsynlegustu með þjóðinni, en aðrir telja þau aftur næsta óþörf. Það mun vera hjer sem oftar, að það rjetta sje einhversstaðar á milli. En þannig leit nefndin á málið, að ekki væri hægt að bjarga ríkissjóði með vísindum einum eða listum. Nefndin hefir þó ekki borið þessar brtt. fram af því, að hún beri ekki virðingu fyrir vísindum og listum, en hún sá, að hjer var betra að koma við frestun þessara útgjalda en víða annarsstaðar. Leit hún svo á, að þar sem hjer væri aðeins um frestun að ræða, þá væri þetta tiltækilegt, enda vona jeg, að háttv. deild líti eins á málið.

Nefndin hefir lækkað styrkinn til Þjóðmenjasafnsins, og ætlast hún til, að sú upphæð sparist á aðstoðinni, þannig að safnið sje ekki fyrst um sinn opið nema 4 stundir í viku, í stað 6 stunda. Sömuleiðis hefir hún fært fjárveitingu til fornmenjakaupa niður í 500 krónun. Kaup á listaverkum fellir hún alveg niður. — Jeg veit, að ýmislegt af þessu snertir þjóðernistilfinningu okkar, og því sárt að sjá því á bak — en þess er að gæta, að hjer er aðeins um frestun að ræða. — Þá leggur nefndin til, að fjárveitingin til Náttúrufræðisfjelagsins sje lækkuð nokkuð og sömuleiðis að færð sje niður fjárveitingin til Fornbrjefasafnsins. Næsta lið, útgáfu Alþingisbókanna, vill hún líka eindregið fella niður. Telur nefndin þar sjerstaklega tækifæri til frestunar, því þau not, sem af Alþingisbókunum eru fyrir sögumenn, eru svipað aðgengileg í handritum. Styrkurinn til Listvinafjelagsins er einnig feldur niður, af sömu ástæðum sem flest annað Þá er styrkurinn til skálda og listamanna færður niður í 8 þús. kr. Komu fram í nefndinni ennþá róttækari till. viðvíkjandi þessum lið, en þetta varð þó niðurstaðan. Það er auðvitað eins um þennan lið og marga aðra, að það má líta misjöfnum augum á það, hve þarfir þeir sjeu, og hefir jafnan verið gert. En svo mikið er víst, að eins og þessu hefir verið úthlutað fyrirfarandi, sýnist ekki þurfa að verja lækkun á styrknum, og jafnvel þó lengra hefði verið gengið.

Næst kemur lækkun á styrk til Jóhannesar L. Lynge, og þá að styrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar skuli feldur niður. Nefndin leit eins á þessi störf, að þessu mætti fresta. Það skal þó tekið fram, með tilliti til lækkunarinnar á styrknum til Jóhannesar L. Lynge, nefndin ætlast ekki til, að hann starfi neitt að verki sínu á meðan það er ekki betur borgað, heldur að hann leiti sjer einhverrar annarar vinnu. Styrkinn til Guðmundar Bárðarsonar hefir nefndin einnig felt niður. Er henni það kunnugt, að hann getur ekki fyrir hann starfað að því, sem hann er til ætlaður, og nær hann því ekki tilgangi sínum. Aftur sýndist nefndinni ekki fært að hækka styrkinn, svo hann gæti bæði orðið manninum til framfæris og vísindastarfs. Jeg vil geta þess, að þessi maður hafði áður styrk úr sáttmálasjóði, sem líka er búið að taka. Er það þá eðlilegt, að ríkissjóður dragi þarna að sjer hendina, þar sem styrkupphæðin er orðin alt of lág, er sáttmálasjóður hefir gert það, sem ber þó meiri skylda til þessa.

Næst kemur veðurathuganastöðin. Þar hefir nefndin lagt til, að miklar breytingar verði gerðar og styrkurinn færður niður í 20 þús. kr. Það er því ástæða til að fara nokkuð ítarlega út í þennan lið. Kostnaður við veðurathuganastöðina var fyrir árið 1923 39 þús. kr. Þar af fór til símskeyta 14 þús. kr., til athugunarstöðva úti um land 4 þús. kr., til aðstoðarmanns, skrifara og aukaaðstoðarmanns 10100 kr., veðurskeytaeyðublöð 1000 kr. og húsnæði, ljós og hiti 1900 kr. Nefndinni virðist kleift að draga nokkuð úr þessum útgjöldum. Hefir hún hugsað sjer, að lítið eitt mætti lækka kostnaðinn við símskeytasendingar, svo sem næmi tveim þúsundum, með því að nánari samvinna væri við landssímann. Og með því að fresta veðurspám og draga úr öðrum störfum telur hún hægt að komast af án þessara þriggja aðstoðarmanna, þar sem ætla megi, að forstöðumaðurinn muni komast yfir þau störf, sem eftir eru. Það þykir ef til vill mikið á forstöðumanninn lagt, en nefndin telur þetta þó tiltækilegt.

Næsta brtt. nefndarinnar er að fella niður styrkinn til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins. Nefndin leit svo á, að fjelagið gæti með góðum fyrirlesurum aflað sjer nægilegs fjár, svo að styrkur þessi væri í rauninni óþarfur og hefði ekki æfinlega verið vel notaður. Þá hefir nefndin og fært niður styrkinn til íþróttasambands Íslands af sparnaðarástæðum, þó að hún telji sambandið góðs maklegt. Styrkinn til Þórarins Guðmundssonar hefir hún og felt niður af sömu ástæðum, og svo jafnframt því, að engar áskildar skýrslur hafa legið fyrir nefndinni, kenslunni viðvíkjandi.

Næst er nýr liður um styrk til frjettastofu blaðamannafjelagsins. Nefndin hefir lagt það til, að veitt verði lítil fjárupphæð í þessu skyni. Er í áliti nefndarinnar gerð nokkuð náin grein fyrir þessum lið. En jeg vil þó bæta því við, að eftir þeirri áætlun, sem gerð er fyrir fyrirtækið, var búist við 6 þús. kr. úr ríkissjóði. Svo langt hefir nefndin ekki viljað fara, enda þó líkur sjeu til, að það verði að nokkru borgað með tekjuaukningu á öðrum sviðum í ríkissjóðinn.

Þá er jeg kominn að 16. gr. Sú grein höndlar um tillagið til verklegra framkvæmda. Þar hefir nefndin bæði gert brtt. og komið með nýja liði.

1. liðurinn er Búnaðarfjelag Íslands. Nefndin leggur það til, að styrkurinn til þess verði hækkaður um 10 þús. krónur. Nefndin viðurkennir, að ómögulegt sje að halda áfram hinni margþættu starfsemi Búnaðarfjelagsins, nema að hækka styrkinn. Og að stöðva þessar framkvæmdir og rannsóknir eins og nú stendur, telur nefndin ekki rjett. Það má altaf segja, að of miklu fje sje varið til ýmislegs, sem fjelagið hefir með höndum, og að ekkert sjáist í aðra hönd. En margt af þessum störfum er þannig vaxið, að árangur getur ekki sjest fyr en löngu síðar og ekki fyr en mikið fje er til þess gengið. Þannig er með flestar tilraunir. Og þar sem alt þetta starf á að vera í þá átt að auka framleiðsluna, telur nefndin þessa hækkun forsvaranlega. Styrkurinn til búnaðarfjelaganna er hjer allmikið lækkaður frá því sem verið hefir. Er það þó ekki af því, að nefndin telji þann styrk ekki hafa mikla þýðingu, heldur af hinu, að hún hefir tekið upp nýjan lið, sem hún býst við, að muni styrkja ýmislegt af því, sem búnaðarfjelögin hafa áður fengið styrk sinn miðaðan við. Sá liður er 35 þús. kr. samkv. 2. kafla jarðræktarlaganna. Hljóðar sá kafli um túnrækt, garðrækt og safnhúsagerð, og er, eins og kunnugt er, skylda að styrkja þessi verk samkv. þeim lögum. Það gat auðvitað komið til mála að fresta framkvæmd jarðræktarlaganna; en þar sem nefndin telur það eitt af fyrstu skilyrðunum fyrir aukinni framleiðslu, að jarðræktin sje studd og aukin, telur hún eiga illa við, að byrjað sje á frestun laganna jafnsnemma og þau koma til framkvæmda. Þar sem hjer er heldur ekki um stærri upphæð að ræða, gat nefndin ekki gengið fram hjá henni. Hitt vill hún ekki ganga inn á, að fylla upp kröfur laganna að því er þúfnabanann snertir, því að þá þyrfti þessi upphæð að vera um 50 þús. kr. að minsta kosti. En til þess treystist nefndin ekki. Eftir þá reynslu, sem fengin er af þúfnabananum, þá við nefndin ekki leggja neitt fje úr ríkissjóði til þeirrar starfsemi að svo stöddu. Það tæki hefir ekki reynst eins vel hjer og menn gerðu sjer vonir um; sjerstaklega er allur kostnaður við vjelina fram úr hófi hár. Verður sjálfsagt að nota hann miklu takmarkaðra við smærri ræktunarbletti en gert hefir verið nú undanfarið. Er það og eðlilegast, að þeir greiði þann kostnað, sem þiggja vinnuna.

Næsta brtt. er um það að lækka laun garðyrkjustjórans um 1000 krónur. Lítur nefndin svo á, að þó að garðyrkjustjórinn sje ágætur maður, þá geti ríkissjóður ekki haldið honum við á fullum launum vegna Garðyrkjufjelagsins, þar sem annar fullhæfur maður er líka starfandi við gróðrarstöðina. Næsti liður er um laun skógfræðinga, og hefir nefndin hækkað hann. Það virðist hafa gleymst að tilfæra laun Einars Sæmundsens og húsaleigustyrk eins og frá þessu var gengið á síðasta þingi. Þetta hefir nefndin leiðrjett.

Þá kemur hjer nýr liður, um tillag til fjárkláðalækninga. Sá liður hefir ekki verið í fjárlögum fyr, heldur í óvissum gjöldum. Nefndin vildi taka hann upp í fjárlögin og bjóst við, eftir því sem á undan er gengið, að hann gæti ekki verið lægri. Þannig hefir hann farið hæst upp í 57½ þús. kr. Telur nefndin ekki rjett að takmarka liðinn mjög, enda þótt hún viti, að allur kostnaður verði greiddur; það er einungis til að villa sjálfum sjer sýn.

Þá er næsti liður, Fiskifjelag Íslands. Nefndin hefir hækkað styrkinn til þess um 5 þús. kr. Að vísu kom fram krafa um miklu meiri hækkun, en það sá nefndin sjer ekki fært. Þessa litlu hækkun vildi hún samt veita fjelaginu, með því hún taldi það hliðstætt Búnaðarfjelaginu, og því rjett að gera þeim báðum sömu skil. Jafnframt hefir hún gert fjelaginu að skyldu að annast útgáfu fiskimannaalmanaksins á sinn kostnað og án íhlutunar um fyrirkomulag, en að það komi farmönnum innanlands að fullum notum,

Næst kemur liðurinn um markaðsleit erlendis. Hafði hann í stjfrv. verið lækkaður frá því sem verið hefir, en nefndin hækkaði hann aftur. Er hún þeirrar skoðunar, að enn sje nauðsynlegt að kynna sjer og leita erlends markaðs fyrir afurðir landsins, og að því fje, sem til þess fer, sje vel varið.

Næst er heimilisiðnaður. Af því tillagi, sem til hans er ætlað, leggur nefndin til, að veittar sjeu 2 þús. kr. til Halldóru Bjarnadóttur. Það hefir nefndin lagt til vegna þess, að henni er kunnugt um það, að þessi kona hefir brennandi áhuga á því máli og hefir sýnt þar óvenjulegan dugnað. Hefir hún unnið mjög að því að breiða út þekkinguna á þessari iðn, enda á hún nú víða góðar rætur á landinu. Þetta vill nefndin styðja af alhuga. Og þótt tillagið til þessa liðs sje ekki hækkað, þá lítur nefndin svo á, að þennan þátt eigi sjerstaklega að efla. Þessi kona hefir skólanámsskeið úti um land og hefir auk þess leitast mikið fyrir um markað erlendis fyrir þennan iðnað. Hefir hún og siglt utan, til þess sjálf að greiða fyrir því máli. Þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vil að lokum taka það fram, að nefndin leit svo á, að launa bæri svo alveg sjerstaka viðleitni og ástundun.

Næsti liður er skrásetning vörumerkja. Er hann lækkaður um helming, eða úr 1600 kr. niður í 800 kr. Þegar styrkur þessi var hækkaður, var það gert af því, að óumflýjanlegt var talið að gjalda mikinn skrifstofukostnað, sem af þessu mundi leiða. Nú hefir verið upplýst, að þessi skrifstofukostnaður er ekki svo mikill, að nauðsyn beri til að hafa styrkinn svona háan.

Næst er lækkaður styrkurinn til ungmennafjelaganna. Viðurkennir nefndin fyllilega starfsemi þessara fjelaga, en styrkurinn er lækkaður samkvæmt þeirri stefnu, að með smániðurfærslum vinnist nokkur heildarupphæð, sem alt vinni í áttina að stöðva okkur á barmi fjárhagslegrar glötunar.

Þá er nýr liður um leiðbeining við húsagerð til sveita. Hefir sá liður verið feldur niður í frv. stjórnarinnar. En nefndin hefir litið svo á, að það væri óheppilegt og órjett að fella þennan lið niður. Hún viðurkennir, að það beri sjerstaklega brýn þörf til þess að bæta húsakynni til sveita; jafnframt játar hún, að þessi maður hefir töluverðu áorkað í þessu efni. Ef til vill má nú segja, að lítið sje hægt að framkvæma á þessum tímum, en því fer betur, að víða eru þeir bændur, sem bæði þurfa að byggja og gera það. Vildi því nefndin ekki vera því til fyrirstöðu, að það væri gert rjett og heppilega og eftir þeim aðferðum, sem nýjastar eru og bestar. Jeg vil taka þetta glögt fram, að bændum landsins er hin mesta nauðsyn á því að bæta híbýli sín og að þessi maður hefir á ýmsan hátt bætt þau, og eins lofa þær tilraunir, sem hann hefir gert á síðasta ári, talsvert miklum umbótum fram yfir þær, sem verið hafa. Og víst er um það, að störf og tillögur þessa manns hafa ekki fallið mönnum ver í geð en ýmsar till. húsagerðarmeistara ríkisins. Lá fyrir nefndinni ítarlegt erindi um styrkbeiðni frá manni þessum ásamt skýrslu um störf hans, sem viku að húsagerð. Hefir hann meðal annars bygt hús á Melgraseyri, sem að áliti kunnugra manna er sjerlega vel bygt og vandað í alla staði. Aftur hefir húsagerðarmeistari ríkisins bygt hús á prestssetri einu þar vestra, sem er bæði minna og ver gert en húsið á Melgraseyri, en þó miklu dýrara. Eru þessi hús góð til samanburðar. Annað er 19X13% á stærð, hitt 11X12, og þó bygging þessa minna húss sje óvandaðri, kostar hver teningsmetri í því 68,20 kr., en í hinu aðeins 34,50 kr. Eru það ekki staðhættirnir, sem valda því, heldur gerð húsanna sjálfra. Jeg get lýst því yfir, að jeg er persónulega kunnugur þessum manni; hann hefir unnið hjá mjer og mjer er óhætt að fullyrða, að hann er framúrskarandi vandvirkur maður og gengur svo vel frá öllu, að ekki er völ á betur. Vænti jeg því þess, að hv. deild líti svipað á og nefndin og kjósi, að þessi liður sje settur inn af nýju.

Næst er það, að styrkurinn til björgunarskipsins Þórs er hækkaður úr 20 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Liggur fyrir skjal frá stjórn björgunarbátsins, þar sem sýnt er rækilega fram á, hve þung útgjöld það sjeu fyrir fjelagið að halda skipinu úti. Dylst engum, sem kunnugur er málinu frá undanförnum þingum, að það sje rjett. Er talið, að þetta eigi sinn þátt í því, að útsvör í Vestmannaeyjum hafa hækkað svo gífurlega, að 70 til 80 kr. koma á hvern íbúa. Þegar þess er gætt, að til Vestmannaeyja leitar fólk til atvinnu víðsvegar af landinu, 500–600 manns á hverri vertíð, og ber úr býtum 500–600 þús. kr. í kaup auk viðurgernings, þá sýna þær tölur, að hjer er verið að vinna fyrir alt landið, engu síður en fyrir þetta eina útgerðarfjelag. Líka má taka það fram, að fjelagið skuldar mikið, og varð bæjarsjóðurinn í Vestmannaeyjum að hlaupa undir bagga með því 1920 og lána því 72 þús. kr., sem enn er ógreitt að öllu. Einnig mun það skulda 80 þús. kr. í Íslandsbanka. Af hlutafjenu, sem var 200 þús. kr., hafa aldrei sjest neinir vextir, og búast hluthafar ekki við að svo verði, og heldur aldrei við hlutaupphæðinni. Má því óhætt segja, að menn þessir leggi mikið á sig, en þeir finna til þess, að fyrir fiskveiðar Eyjabúa er þetta skip ómissandi. Einnig hefir það orðið að liði á öðrum sviðum, t. d. til eftirlits við síldveiðar, og leggur nefndin til, að stjórnin haldi þeirri venju áfram, til þess að ljetta undir útgerð Eyjaskeggja.

Næst eru hjer 2 liðir um styrkveitingu til embættismannaekkna. Þarf jeg ekki að fjölyrða um þá, því nál. segir alt í því máli, sem nauðsynlegt er. Þetta eru aðeins smáupphæðir til tveggja prófastsekkna. Höfðu menn þeirra ekki trygt þeim lífeyri af því að þeir voru undir eldri launalögunum. Sömuleiðis er lagt til að veita tveimur póstmönnum styrki, þeim Stefáni Stefánssyni á Eskifirði og Friðrik Klemenssyni. Tel jeg víst, að hv. þd. fallist á ástæður nál. fyrir þessu. Annar maðurinn er fjörgamall og hefir gegnt þessu embætti um langan tíma. Hinn, sem var álitinn hinn færasti maður til þessa starfa, misti heilsuna snögglega, og verður ekki sjeð, að hann verði heill aftur Vill því nefndin ekki efast um sanngirni manna í þessu máli.

Þá leggur nefndin til, að eftir 21. gr. komi ný grein, sem verði þá 22. gr. Eru það tvær tillögur um, að ríkissjóður ábyrgist lán. í fyrsta lagi 40 þús. kr. lán til mjólkurfjelagsins Mjallar í Borgarfirði, í öðru lagi 15 þús. kr. lán til Bessastaðahrepps í Gullbringusýslu.

Hvað Mjöll snertir, þá er til lánsheimild frá fyrri þingum, en þar sem fjelagið sjer ekki fram á, að það geti fengið lán úr viðlagasjóði, en ætlar aftur á móti að það fái lán erlendis eða hjer á landi gegn ríkisábyrgð, þá hefir það farið þessa á leit. Nefndin lítur svo á, að hjer sje um nytjafyrirtæki að ræða, sem sjálfsagt sje að styrkja, svo sjást megi í framtíðinni, hvort það geti ekki orðið svo fullkomið, að við þurfum ekki að kaupa niðursoðna mjólk frá Danmörku. Vill nefndin því, að ríkið ábyrgist lánið, enda hafa sýslurnar lofað endurábyrgð gagnvart fjelaginu.

Hin tillagan, um ábyrgð fyrir Bessastaðahrepp, er líka af knýjandi ástæðum fram komin. Hefir þessi hreppur borið sig upp undan því, að hann fái ekki staðið straum af framfærslumönnum sínum. Í hreppi þessum eru 140 íbúar, af þeim eru 23 bændur og alls 44 gjaldendur. Síðastliðið haust var þar jafnað niður 9 þús. kr., en þurfti að leggja á 21 þús. kr.

Þurfamennirnir eru 52, eða einn framfærslumaður á hverja 2% manns í hreppnum, og meira en 1 framfærslumaður á hvern gjaldanda. Er því hreppnum langt um megn að standa straum af þeim. Hefir því hreppurinn sótt um 15. þús. kr. lán, enda skuldar hann 20 þús. kr., auk 8 þús. kr., sem hann þarf að gjalda þegar í stað, eða því sem næst. Leitaði hann fyrst til sýslnanna um ábyrgð, en er bankarnir treystust ekki til að lána gegn henni, sneri hann sjer til stjórnarinnar, en hún hefir vísað honum til þingsins. Þar sem fjvn. fær ekki sjeð, að hreppurinn komist af án lánsins, leggur hún til, að ríkið taki að sjer ábyrgðina, enda gangi Gullbringu- og Kjósarsýsla í ábyrgð fyrir hreppinn.

Þá hefi jeg farið yfir till. nefndarinnar, þær sem máli skifta og jeg sje ástæðu til að minnast á. Hvað viðvíkur brtt. frá einstökum þm., mun jeg fylgja sömu reglu og áður, að tala þá fyrst um þær, er flm. hafa talað fyrir þeim. Er að því tímasparnaður og er hans ekki síst þörf, ef hægt væri að koma honum við.