18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

59. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Það er auðvitað sjálfsagt að beygja sig undir vilja hæstv. forseta um þessi efni. En þess hefi jeg rjett til að vænta, að þegar einum þm. hefir verið leyft að bera af sjer sakir umtölulaust, þá sje öðrum heldur ekki sýnd tregða í því efni.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að frásögn mín um rjúpurnar í sendiherrasamsætinu væri slúðursaga, sem orðið hefði til og aukist og margfaldast á leiðinni frá Reykjavík og út um sveitirnar, þá skal jeg taka það fram, að það var hjer í Reykjavík, sem jeg heyrði hana. Sú saga er því ekki um langan veg að komin og engu sönnunargildi glatað af þeim sökum.

Þá krafðist hæstv. forsrh. (SE) þess, að jeg kæmi með sannanir í þessu máli. Hæstv. ráðherra stendur nú ekki sjerlega vel að vígi með það að heimta skjallegar sannanir í þessu máli af okkur hv. þm. Str. og mjer, samtímis því, sem hann tekur munnlegar frásagnir frá gestgjafanum um hið gagnstæða fyrir góða og gilda vöru. Honum ætti þó að vera innan handar að fá hjá hóteleiganda reikningana yfir þessar norsku rjúpur. En ef til vill kemur það alt fram við þá væntanlegu rannsókn út af þessu máli, sem jeg skal síst letja eða telja úr að hafin verði.

Sje það satt, sem almælt er, að rjúpur hafi verið fluttar út hjeðan í vetur, þá er þess ekki ólíklega til getið, að einhver rjúpan hafi slæðst ofan í magann á einhverjum Reykvíking.