25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1925

Ágúst Flygenring:

Tvö málefni vildi jeg örlítið minnast á.

Annað er brtt. við fjárlögin frá sjútvn. Samskonar er þáltill. sú, sem hjer er á dagskrá, sem sje uppbót á kaupi þriggja fiskimatsmanna. Eru það 600 krónur til tveggja manna, en 1000 kr. til eins. Er þessi uppbót í samræmi við þá, sem þingið 1923 veitti, og segja þessir menn mjer, að þá hafi verið svo um talað, að hún hjeldist, en hún hafi nú fallið niður af vangá við samning fjárlagafrv.

Þegar þáltill. var til umræðu, færði jeg fram helstu ástæðurnar fyrir rjettmæti þessara krafna. Skal jeg ekki endurtaka þær, en jeg vil aðeins minna á það, að svo lengi, sem skyldumat er og menn vilja virkilega vanda eftirlit með flokkun fiskjarins, þá er það ekki hægt nema því aðeins að halda sömu mönnunum lengi, þeim mönnum, sem hafa sett sig inn í það, hverskonar fiskur kaupendunum þóknast best. Það hafa þessir menn gert. Þeir hafa fengið styrk til að fara utan og kynt sjer markaðinn bæði á Spáni og víðar við Miðjarðarhafið. Hafa þeir átt tal við kaupmenn, komið í hús þeirra og athugað vöruna. Hafa þeir því víðtæka þekkingu í þessum málum og auka hana með því að leita sjer með hverjum farmi upplýsinga um og fá umsögn kaupenda um, hvernig þeim hafi líkað matið. Er það áríðandi, að vel sje gert við þessa menn, því þeir gegna trúnaðarstöðu beggja aðilja. Og eins og nýjar reglur geta verið skaðlegar í þessum málum, þannig getur og verið óheillavænlegt, að nýir menn sjeu teknir, sem ekki eru starfinu vaxnir.

Jeg vil líka taka það fram, að þessi viðbótarþóknun er það minsta, sem sjútvn. datt í hug að fara fram á. Er hún aðeins gerð í samræmi við gerðir þingsins 1923, en ekki af því að hún sje nóg, þar sem þessir menn eru allra manna verst launaðir. En þar sem gert er ráð fyrir, að endanleg endurskoðun á launum allra embættismanna og opinberra starfsmanna fari fram á næsta ári, vildi nefndin ekki vera að gera breyting á því, sem síðasta þing gerði í þessu efni. Vænti jeg því þess, að háttv. deild fallist ljúflega á þessa till.

Hitt atriðið, sem jeg vildi örlítið minnast á, er brtt., sem komið hefir fram frá hv. fjvn. viðvíkjandi Flensborgarskólanum. Hefur styrkurinn til hans verið færður niður úr 1500 kr. í 1200 kr., og er ætlast til, að þessar 300 kr. sjeu greiddar af sýslunum og Hafnarfjarðarkaupstað.

Það vill nú svo vel til, að hv. frsm. (ÞórJ) hefir kynst einum hreppnum, og getur því gert sjer í hugarlund, hvað mikið sýslan muni leggja til, því svipaðar sögur gæti jeg sagt mönnum af öðrum hreppum. Það er og víst, að sýslan vill ekki leggja neitt til, af þeirri ástæðu að þeir segja, að sjer komi þessi skóli ekki frekar við en skólinn á Akureyri og aðrir skólar. Því þennan skóla sækja menn alstaðar að, af Norður-, Austur- og Vesturlandi, og eins og skýrslurnar sýna, er námsfólkið fleira úr öðrum hjeruðum en Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Háttv. fjvn. hefir fylgt þeirri reglu að draga úr öllum fjárveitingum, sem ekki eru lögboðnar, og þar á meðal hafa ýms kenslumál orðið hart úti, þó ríkisskólarnir haldi sínum styrk óskertum. Mjer og fleirum, sem þekkja vel til Flensborgarskólans, sem vitum, að hann er fyrsti vísirinn til alþýðumentunar hjer á landi, þykir það rækalli hart, að hann skuli vera svona aðþrengdur fjárhagslega.

Þessi skóli hefir nú staðið í 50 ár og er brautryðjandi alþýðumentunar og kennarafræðslu í landinu, en hefir altaf haft úr litlu að spila og átt undir högg að sækja með fjárveitingar í hverjum fjárlögum, eins og allir hv. eldri þm. muna. Svo lítil efni á skólinn við að búa, að þó þessar 15 þús. kr. í frv. stjórnarinnar fengju að standa óhaggaðar, hefði hann minna en nokkur annar skóli á landinu. Stofnun þessi var upphaflega gefin landinu, til alþýðu- og kennaramentunar, af örlátum og stórhuga manni, sem vildi bæta menning og mentun landsins á þennan hátt. Og væri leitt, ef skólinn ætti nú að fara í hundana vegna peningaleysis, eftir að hann hefir rekið starfsemi sína svo vel, sem ýmsir mætustu menn þessa lands bera honum vitni um. Menn, sem þar hafa notið kenslu, en eru nú komnir í ýmsar stöður. Jeg get vitnað til fjölda margra mætra og mentaðra manna, sem hafa lært í skólanum og teljast nú í röð bestu manna landsins. Þessi skóli hefir altaf verið ódýr í rekstri, og er það mikið að þakka því, hve ágætir menn hafa stjórnað honum. Nú stjórnar honum einhver allra besti skólamaður landsins, og meðan honum endist aldur, er skólanum borgið með að veita góða fræðslu.

Í upphafi var gefin jörð til skólans og gömul hús. Var þetta þá aðeins vísir, en nú hefir altaf síðan með hagsýni og sparsemi verið aukið við eignirnar, svo að hagur skólans má heita alveg furðu- góður. Ef ríkissjóður hefði stofnað til skólans af slíkum vanefnum og svo átt að reka hann með þeim styrk, sem skólinn hefir haft, þá efast jeg stórlega um það, að hagur hans hefði verið sambærilegur við hag Flensborgarskólans nú. Og jeg þarf ekki að efast um það, jeg veit, að hagur hans hefði verið annar og verri. En munurinn hefir altaf reynst mikill á stjórn þeirra fyrirtækja, sem eru eign einstaklinga, og hinna, sem ríkin eiga að sjá um. Stjórnir ríkjanna geta heldur ekki haft eins náið eftirlit og einstaklingar. Þess skal líka getið í þessu sambandi, að Flensborgarskólanum hefir verið stjórnað fyrir ekki neitt og kennarar þar hafa unnið fyrir nálega helmingi minni laun en við sambærilega skóla ríkisins.

Jeg ætla annars ekki að flytja langa ræðu um þetta mál. Vona jeg, að allir hv. þm. sjái og skilji, hvert gagn er að skólanum. Hann sækir einmitt fólk á aldrinum milli tvítugs og þrítugs, þeim aldri, sem sagt er að menn hafi mest not af námi. Og jeg sje ekki, að til mála geti komið, að hv. deild þyki of mikið að veita einar 15 þús. krónur til þessa skóla, þegar alveg hliðstæður skóli ríkisins fær 55 þúsund. Og jeg vil benda á það, að miðað við nemendafjölda er þessi skóli ekki helmingi, heldur þrefalt, fjórum sinnum ódýrari í rekstri en aðrir skólar af sama tægi. Jeg hefði gjarnan kosið að komast hjá að víta fjárveitinganefnd. Jeg skil, að hún hefir alstaðar viljað klípa úr útgjöldunum, til þess að reyna að bæta úr fjárhag ríkissjóðs. Við þekkjum allir þörfina, og á nefndin þakkir skilið fyrir hinn góða sparnaðarvilja sinn. En jeg gat samt ekki þagað við þessari till. hv. nefndar, því að mjer finst hún ekki sanngjörn. Jeg býst alls ekki við því, að sýslurnar og bærinn leggi nokkuð af mörkum. Það yrðu þá að vera einstakir menn. Sýslurnar eru illa staddar, og svipað er um bæinn. Að minsta kosti skuldar hann ærið fje. En lántökur á þessum tímum tel jeg óheilbrigt að fara út í, enda ókleift að fá peningalán. Og hvað sem öðru líður, þá er varhugavert að binda þennan 12 þúsunda styrk við fjárveitingu frá sýslunum og bænum. En fari svo, að till. hv. nefndar verði samþykt, er hægt að minnast frekar á það atriði við 3. umr.

Undarlegt er það, að styrkveitingar til einkaskóla skuli ekki vera miðaðar við kostnaðinn við skólahaldið, en enn þá undarlegra er hitt, að slíkir skólar sjeu ekki látnir njóta þess, að þeim er stjórnað með sparsemi og hagsýni. En hvað sem annars má um þetta segja, vænti jeg þess fastlega, að hv. þingmenn ljái mjer fylgi sitt til að fella þessa till. hv. nefndar. Læt jeg svo lokið máli núnu, þó að nógu gaman hefði verið að tala meira um einkaskólana, því að jeg lít svo á, að allir skólar hjer á landi ættu að verða einstaklingseign. Með því móti yrðu þeir bæði ódýrari og betri.