12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

59. mál, friðun rjúpna

Sveinn Ólafsson:

Það hefir orðið töluvert tímafrekt þetta litla mál, frekara en margir munu hafa búist við; mjer finst hjer þó ekki vera um neinn vanda að ræða, og því brá mjer í brún, þegar jeg sá nál. meiri hl. nefndarinnar, sem leggur til, að öryggisákvæði laganna frá 1913, um að friða rjúpuna 7. hvert ár, skuli felt úr gildi. En þess verður að gæta, að það er ekki langur tími, sem þetta hefir staðið í lögum ennþá, og er því ekki fengin nein veruleg reynsla um það, hvort þessa ákvæðis þurfi við, en hinsvegar benda lögin frá 1921 til þess, að það þurfi að friða rjúpuna við og við, svo henni gæti fjölgað eitthvað; og áður en lögin 1913 voru gefin út, var það orðið alment álit, að það þyrfti að gera eitthvað annað og meira en að stytta veiðitímann aðeins. Nú má það telja víst, að lögin frá 1921, um þessa löngu friðun, hafi ekki verið bygð á rjettri undirstöðu, þ. e. að rjúpan hefði kolfallið svo að hún þyrfti því langan tíma til að fjölga aftur. Hitt er eðlilegra að ætla, að hún hafi flúið land í bili, því ef hún hefði fallið, hefði henni ekki getað fjölgað svona ört aftur á þessum stutta tíma, sem raun er á orðin, og það þrátt fyrir alla launveiði.

Hjer er á tveim þskj. þræddur millivegur milli frv. og till. meiri hl. nefndarinnar. Þessar miðlunartill. er að finna á þskj. 167 og 178. Brtt. 167, frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), gerir ráð fyrir, að friðunin frá 1921 falli niður árið 1925, en mín brtt. (178) ætlar friðuninni að falla niður þegar á næsta hausti. Hinsvegar vill hvorugur okkar hagga við lögunum frá 1913, um friðunina 7. hvert ár, sem ekki er ennþá nægilega reynd og líkur eru fyrir, að þurfi að standa lengur í lögum. En um þessa friðun frá 1921 vil jeg aðeins skírskota til þeirra orða minna, sem jeg ljet falla hjer við 1. umr. þessa frv., að jeg álít enga ástæðu til þess að láta þessa friðun standa nú lengur áfram en til næsta hausts, þar eð sannanlegt er, að gnægð af rjúpum er til víða um landið, eða var á síðasta hausti, og hinsvegar mikil þörf fyrir almenning að geta aukið framleiðsluna á öllum sviðum, en af rjúpnaveiðum hafa orðið töluverðar tekjur í mörgum sveitum landsins. Það er að vísu rjett, að meiri hl. nefndarinnar vill láta nokkuð koma í stað þessarar árlegu ófriðunar á rjúpunni — þ. e. stytting veiðitímans — og er dálítið í því, en þó bætir það sjöunda ársfriðunina ekki upp til fulls. Þá hygg jeg, að það sje ekki til bóta að banna veiðarnar fyrri helming októbermánaðar; jeg held það sje ekki á rökum bygt hjá háttv. þm. Ak. (BL), að skaði geti af því hlotist fyrir markaðsverð þessara afurða, þótt veiðin byrji með október, og ekki hefi jeg orðið þess var, að ungarnir væru ekki orðnir fullþroskaðir í byrjun októbermánaðar. Að það þurfi að bíða með veiðina vegna þess, að rjúpan sje í sumarfjöðrum í byrjun októbermán., held jeg að sje heldur ekki fullgild ástæða. Litaskifti rjúpunnar fara mestmegnis eftir því, hversu snemma leggur snjó í fjöllin, og það er mjög breytilegt. Jeg held því, að öllu athuguðu, að hagkvæmara sje að hafa lögin frá 1913 óbreytt og að láta veiðitímann halda sjer eins og þar er gert ráð fyrir, en fella úr gildi á komanda hausti lögin frá 1921.