12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á brtt. á þskj. 167. Svo stendur á henni, að menn þeir, er háttv. þm. Borgf. (PO) nefnir búandkarla, á Vesturlandi, hafa óskað eftir, að rjúpan yrði friðuð áfram til 15. október 1925. Hv. Ed. hefir samþykt að framlengja friðunartímann til 1926; en það finst mjer óþarft að svo stöddu. Ef rjúpunni fjölgar lítið á þessu sumri, mætti framlengja friðunartímann á næsta ári. Jeg veit vel, að rjúpnaveiðar gefa mörgum mönnum talsverðar tekjur, en þeirri atvinnugrein má auðveldlega stórspilla með því að byrja á þeim alt of snemma.

Jeg hefi nú heyrt þá háttv. þm. Borgf. og háttv. 1. þm. S.-M. lýsa því yfir, að í þeirra hjeruðum væri orðið eins mikið af rjúpu og þá er mest var áður, fyrir 1920, en jeg hefi nýlega talað við tvo menn frá Austurlandi, ofarlega af Hjeraði, og telja þeir, að þar sje mjög lítið um rjúpur. Jeg veit ennfremur með vissu, að í Ísafjarðar-, Barðastrandar-, Dala-, Stranda og Húnavatnssýslum er mjög lítið af henni. Jeg hygg, að það sje því rjett fyrir hv. þdm. að fallast á brtt. mína, nema þá, er bráðlangar svo í rjúpnakjöt, eins og t. d. hv. þm. Borgf. segir um Reykvíkinga, og máske einstöku menn í Borgarfirðinum, þar sem rjúpan er að flökta alveg heima á hlaðinu hjá þeim. Jeg held, að sú ályktun hv. 1. þm. S.-M., að rjúpan hafi flutt til annara landa, geti naumast verið rjett. Hún mun hafa dáið út í harðindunum veturinn 1920; enda hefi jeg engan annan en háttv. þm. heyrt halda því fram, að rjúpan væri farfugl. Að fara að gera upp á milli búandmanna á Norður- og Vesturlandi annarsvegar og Austurlandi og Borgarfirði hinsvegar, held jeg að sje naumast rjett. Tel jeg betra að halla sjer að þessari miðlunartillögu minni.