12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

59. mál, friðun rjúpna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg sje af því, sem fram er komið í þessu máli, að hv. nefnd hefir ekki tekið til greina athugasemdir þær, sem jeg gerði við 1 umr., um að setja einhver ákvæði inn í frv. til að fyrirbyggja, að menn keyptu rjúpur á friðunartímanum. Ætti að leggja allþunga refsingu á þá menn, sem gerðu sig seka í því. Vil jeg því leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún sjái sjer ekki fært að athuga þetta til 3. umr. — Það er jafnan mjög óviðfeldið og leiðinlegt að setja lög, sem svo eru úr garði gerð, að tiltölulega auðvelt er að fara í kringum þau.