12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

59. mál, friðun rjúpna

Hákon Kristófersson:

Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að jeg hefði snúið út úr orðum sínum. Skil jeg ekki í, að svo hafi verið, enda var það hvorki löngun mín nje ætlun, en hitt er það, að jeg held, að honum hafi sjálfum orðið á að snúa út úr orðum mínum. Svo að á honum sannast: „Hægra er að kenna heilræðin en halda þau.“

Jeg bar aðeins saman athafnafrelsi manna og þær takmarkanir, sem á því væru gerðar oft og einatt með lögum. Í því sambandi mintist jeg á sel, lax og æðarfugl, sem menn vissulega fá ekki að skjóta eða veiða eftir vild sinni. Annars benti hv. þm. Borgf. á, að annað gilti með selinn en rjúpuna, því selirnir myndu geta flúið skotin og forðað sjer frekar en rjúpurnar. Hvað um það — jeg vildi aðeins drepa á þetta, ef hæstv. forseti skyldi hafa meint það til mín, að farið væri út fyrir efnið. Jeg gerði það ekki; jeg minti aðeins á takmarkanir á athafnafrelsi manna, sem gerðar væru í þessu máli eins og með öðrum lögum, sem jeg drap á.

Um málið ætla jeg ekki að tala frekar. Það getur hver jetið þessar horuðu rjúpur, eins og skáldið sagði, fyrir mjer.