25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Jeg á að vísu enga brtt. við þennan kafla, en vil þó alt um það leyfa mjer að fara nokkrum orðum um einstöku liði.

Það er þá fyrst 66. brtt. fjvn., sem jeg vildi minnast á, þar sem lagt er til að lækka styrkinn til iðnskólans í Reykjavík um 3 þús. kr., eða helming. Jeg get að vísu sparað mjer ýmsar athugasemdir, sem jeg hefði ástæðu til að gera við þessa brtt., og nægir mjer að vísa til ummæla hæstv. fjrh. (JÞ) um. þetta efni nú fyrir skemstu. Þó skal jeg leyfa mjer að geta þess, að forstöðunefnd skólans kom til mín snemma í vetur, áður en jeg samdi fjárlagafrv., og skýrði mjer frá, að skólinn mundi verða að hætta störfum, ef ríkissjóðsstyrkurinn yrði ekki hækkaður um 2000 kr. Sýndi forstöðunefndin reikninga skólans og færði skjallegar sannanir fyrir því, að svo hlyti óhjákvæmilega að fara, þar sem þeir, er standa að skólanum, gætu alls ekki tekið meiri byrðar á sig. Jeg hafði góð orð um að hækka þennan styrk í frv., en þegar til kom, sá jeg mjer ekki fært að leggja það til. Hinsvegar kom það mjer mjög á óvart, að hv. fjvn. skyldi ekki treysta sjer til að leyfa þessum lið að standa óbreyttum. Jeg tel fullvíst, að allir, sem til þekkja, muni taka undir það, að þessi skóli hafi reynst mjög vel allan þann langa tíma, sem hann hefir starfað. Þó að jeg muni fylgja flestum sparnaðartillögum háttv. fjvn., mun jeg því ekki geta greitt atkv. með þessari brtt.

Þá leggur nefndin til í 98.–103. brtt., að ýmsir styrkir til fjelaga og til útgáfu góðra íslenskra bóka verði feldir niður. Jeg hlýt að játa, að það er ekki beinlínis tjón að því, þó að útgáfu þessara góðu bóka sje frestað í 1–2 ár, þyki nauðsyn bera til. En þó finst mjer óviðkunnanlegt að fella niður styrkinn til útgáfu Alþingisbókanna, sem reynt hefir verið að flýta sem mest á síðustu árum, svo að sem mest yrði komið út eftir 6 ár, þegar Alþingi á 1000 ára afmæli. Mjer er örðugt að kingja því, að ekki sje auðið vegna fjárhagsins að veita lítilfjörlegan styrk árlega um næstu ár til þess að gefa út þetta stórmerka heimildarrit að sögu landsins, sem nú er ekki til nema í handriti, sem fáir eiga kost á að nota. Sama máli gegnir um jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, að aumur má fjárhagurinn vera, ef ekki er unt að styrkja dálítið útgáfu þess rits. Jeg sje, að háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) flytur brtt. um að leggja það á vald stjórnarinnar, hvort styrkja skuli útgáfu þessara rita, og mun jeg aðhyllast hana í því trausti, að hæstv. stjórn sjái sjer það fært.

Það hefir talsvert verið minst á styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelags Íslands. Jeg sá mjer ekki fært að fara fram á hærri fjárveitingu til þessara fjelaga en gert er í frv. Háttv. fjvn. hefir nú farið fram á, að styrkurinn til Búnaðarfjelagsins verði hækkaður um 10 þús. kr., en hinsvegar hafa komið brtt. frá einstökum þm. um að lækka þessa styrki talsvert. Jeg vil taka það fram, að þar sem nú er verið að taka fyrir kverkarnar á öllum framkvæmdum, get jeg ekki sjeð annað en að Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið verði að sætta sig við hið sama. Því hefir verið barið við, að allar starfsáætlanir fjelaganna hljóti að raskast við þetta. En aðgætandi er, að þessi styrkur er fyrir árið 1925, en nú í ársbyrjun var Búnaðarfjelaginu fullkunnugt um, hvern styrk stjórnin ætlaði því í frv., og átti það því að haga áætlun sinni eftir upphæðinni í stjfrv., en ekki eftir því, hvað það áleit sjálft, að það þyrfti. Raskist áætlun fjelagsins af þessum ástæðum, er því stjórn fjelagsins einni um að kenna.

En hve miklu er annars ekki raskað um allskonar fyrirtæki! Munu þeir ekki vera æðimargir, sem þykjast verða fyrir vonbrigðum, þegar ýms fyrirtæki eru stöðvuð, sem þeir hafa búist við, að yrðu látin halda áfram? Jeg býst við, að Árnesingum þyki vonir sínar bresta, ef ekkert verður unnið að Flóaáveitunni á þessu sumri, og ýms fleiri hjeruð munu þykjast illa svikin, þegar það kemur upp, að ekki verður lagður neinn vegarspotti eða símalína. Það verður röskun á öllu vegna fjárkreppunnar, ekki einungis á áætlunum Búnaðarfjelagsins og Fiskifjelagsins, heldur alls landsins. Jeg býst þó ekki við að greiða atkvæði með lækkun á styrknum til Búnaðarfjelagsins, þar sem svo þörf stofnun á hlut að máli, en hinsvegar mun jeg alls ekki geta fylgt brtt. um hækkun styrksins.

Þá vill hv. fjvn. bæta inn nýjum lið, gjöldum samkvæmt jarðræktarlögunum. Það er tekið fram í athugasemdum stjórnarinnar, að nauðsynlegt muni að áætla einhverja upphæð fyrir þessu, en þar sem lögin sjeu ekki komin til framkvæmda, sje ógerningur að gera sjer grein fyrir þeim gjöldum nú. Jeg verð að líta svo á, eftir till. háttv. nefndar, þó að jeg heyrði ekki háttv. frsm. minnast á það, að nefndin hafi kynt sjer málið svo vel, að hún viti, að lögin muni koma til framkvæmda að einhverju leyti á næsta ári. Jeg sje þó ekki ástæðu til að veita þarna fje til aukinna framkvæmda frekar en víða annarsstaðar, og leyfi mjer að benda á, að þetta er í rauninni ekki annað en aukinn styrkur til Búnaðarfjelagsins og landbúnaðarins. En þar verður að spara eins og á öðrum sviðum. Jeg get ekki betur sjeð en að þessar framkvæmdir verði að þola sömu bið sem aðrar, og mun jeg því greiða atkv. gegn þessari brtt.

Þá vill hv. fjvn. veita 25 þús. kr. til fjárkláðalækninga. Getur hún þess í nál., að þetta sjeu lögboðin gjöld, sem numið hafi talsvert miklu undanfarin ár; t. d. hafi kostnaðurinn við þetta orðið 57½ þús. kr. árið 1922. Jeg verð að segja, að jeg varð alveg forviða, þegar jeg sá þennan nýja lið. Jeg mundi ekki eftir, að nein brögð hefðu orðið að fjárkláða á síðasta ári, eða útgjöld vegna hans. Það fje, sem nefndin telur varið í þessu skyni 1922, var alls ekki til útrýmingar fjárkláða, heldur víst aðallega til kaupa á baðlyfjum, eins og stendur í landsreikningnum. Það ár var keypt allmikið af baðlyfi í Kaupmannahöfn, sem nú liggur víðsvegar um landið, það sem enn er óselt og ekki hefir lekið niður. Því að svo óheppilega tókst til um kaupin, að ílátin reyndust illa. Þessu fje var því varið til lyfjakaupa, en ekki til þess að útrýma fjárkláðanum. Nú eru til talsverðar birgðir af lyfjum, og má búast við, að eftir þetta verði næg baðlyf búin til innanlands og verði því ódýrari. Kostnaður við fjárkláðalækningar á síðasta ári var eftir skýrslu ríkisbókara kr. 318,10. Þetta var allur kostnaðurinn, og þó ætlar hv. nefnd, að á næsta ári muni þurfa að verja 25 þús. kr. til þessa. Á þessu ári hafa mjer vitanlega ekki komið neinar skýrslur frá sýslumönnum um fjárkláða úti um land, og vona jeg, að ekki verði meiri brögð að honum en svo, að kostnaðinn megi taka af óvissum gjöldum.

Hv. fjvn. flytur einnig brtt. um að hækka fjárveitingu til markaðsleitar fyrir íslenskar afurðir erlendis. Jeg fór fram á 5 þús. kr. í þessu skyni, en jeg get þó verið því meðmæltur að hækka þennan lið upp í 10 þús. kr. Hinsvegar vil jeg taka það fram, að nú um 2 undanfarin ár hefir verið farið í markaðsleit einmitt til þeirra staða, sem dýrast er að ferðast til, svo að aðalkostnaðurinn er þegar greiddur. Það kemur tæplega til þess, að maður verði sendur á næsta ári til Ameríku — um Ástralíu er varla að ræða í þessu sambandi, — og síðastliðið ár hefir verið sent til Finnlands, Rússlands, Slovakíu, og veit jeg því ekki, hvert ætti að vera þörf á að senda nú. Upphæð sú, sem jeg lagði til, ætti því að geta nægt, en vegna þess, hve mál þetta er mikilvægt, get jeg verið með þessari hækkun, og auðvitað er upphæðin alls ekki of há, verði nokkuð ágengt um aukningu markaðsins. Aftur væri freistandi að minnast á, að hve miklu leyti þessi markaðsleit hafi komið að tilætluðum notum og hvort framleiðendur og útflytjendur hafa fært hana sjer í nyt svo sem vera skyldi. En jeg mun þó sleppa því að þessu sinni.

Þá er ein brtt. frá háttv. fjvn., að setja inn fjárveitingu til leiðbeinanda um húsagerð til sveita. Hv. frsm. fór mörgum orðum og fögrum um þennan lið, nauðsyn starfsins, ágæti mannsins og brýna þörf styrksins. Jeg þekti árangurinn af starfi þessa manns þau ár, sem jeg var landritari, og jeg get ekki sagt, að jeg væri hrifinn af því. En þau 2 ár, sem jeg gegndi ráðherraembætti, þekti jeg þetta þó enn betur, og gat jeg ekki sjeð minsta gagn af þessu starfi. Þegar jeg sá ekkert liggja eftir mann þennan árið 1922, skrifaði jeg honum í apríl 1923 og beiddi hann um skýrslu um það, hvað hann ætlaði sjer að gera þá næsta sumar. Þetta hefði jeg ekki átt að þurfa að gera; maðurinn hefði átt að senda slíka skýrslu ótilkvaddur, eins og allir aðrir starfsmenn gera, er svipuð störf hafa með höndum, vegamálastjóri, vitamálastjóri og fleiri. En það var síður en svo, að þessi maður gerði það; stjórnin varð að skrifa honum, en hann tók ekki meira tillit til þess en það, að hann svaraði aldrei brjefinu. Jeg verð að segja, að mjer er ekki gjarnt að viðhafa sterk orð, en þó verð jeg að kalla það ósvífni af starfsmanni ríkisins að virða stjórnina ekki svars, þegar hún spyr hann, hvað hann ætli að gera, maður, sem var á mjög góðum launum. Jeg varð og ekki var við, að hann gerði annað síðastliðið sumar en að dunda við að reisa hús fyrir sjálfan sig hjer í bænum. Það er einkennilegt að vera að hrópa um sparnað og óþarfa embættismenn, en þegar þessi maður hefir sýnt sig gagnslausan og honum er vikið frá fyrir þær sakir, kemur óðar tillaga um að setja hann aftur í starf sitt. Jeg verð að segja það, að erfitt mun veitast að fækka starfsmönnum landsins, ef nú er ekki auðið að losna við þennan mann.

Nefndin lætur þá athugasemd fylgja þessum lið, að „vinni hann auk þess að húsagerð einstakra manna, skal greiða fult dagkaup, er rennur í landssjóð.“ Þó að háttv. frsm. kveði þetta geta numið einhverju, hygg jeg, að honum muni veitast erfitt að sýna fram á það 1928 eða 1929, að mikið fje hafi runnið i landssjóð fyrir vinnu þessa manns. Jeg hygg, að það muni verða svipað sem um aðstoðarmann húsameistara ríkisins, sem greidd hafa verið laun í von um endurgreiðslu á þennan hátt, en engar efndir orðið á, svo að jeg viti.

Þá skal jeg að endingu víkja að brtt. hv. sjútvn. um launauppbót þriggja yfirfiskimatsmanna, og er jeg henni meðmæltur. Jeg gat um það í gær, að jeg væri samþykkur þingsályktunartill., sem komið hefir fram um þetta, en jeg gæti ekki greitt henni atkvæði af principástæðum, þar sem till. væri í raun og veru fjáraukalög fyrir þetta ár. Það er vitanlegt, að laun þessara manna eru mjög af skornum skamti, en þeir gegna mjög mikilvægum störfum og hafa gefið í skyn, að þeir mundu neyðast til að láta af störfum sínum, ef kjör þeirra væru ekki bætt. Verði nú þessi uppbót fyrir 1925 samþykt, vænti jeg þess, að hæstv. stjórn sjái sjer fært að veita þessum mönnum samskonar uppbót á þessu ári, þó að bein heimild sje ekki fyrir því. Vil jeg því skjóta því til flm. þessarar óþinglegu þáltill., að þeir taki hana aftur, ef þessi brtt. verður nú samþykt.