05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

33. mál, friðun á laxi

Jón Baldvinsson:

Jeg get tekið undir það, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði. Jeg hefði ekki verið á móti undanþágunni í fyrra, ef jeg hefði ekki þá þegar sjeð, að hún væri til skemda, — skapaði fordæmi. Því þó að það sje rjett, að Ölfusá sje mikið vatnsfall, og undanþága frá laxafriðunarlögunum komi því ekki eins illa niður, þá er hún ekki svo stór, að hún verði ekki borin saman við aðrar stórar ár, t. d. Hvítá í Borgarfirði. Verði nú komið með kröfu um undanþágu fyrir Hvítá, þá getur Alþingi ekki annað en samþykt það, og svo koll af kolli, þangað til undanþágan nær til allra, því einlægt getur verið álitamál, hve langt á að ganga í slíku efni.

Þetta mál er orðið talsvert kappsmál. Árnesingar skiftast hjer í tvo flokka. En jeg hygg, að langsamlega meiri hluti sje því samþykkur, að fella beri úr gildi undanþáguna frá síðasta Alþingi. Svo sem kunnugt er, hefir talsvert verið gert til þess að undanförnu að hvetja þá menn, sem eiga laxveiðiítök, til þess að koma á stofn laxaklaki. Nú er það skiljanlegt um þá menn, sem búa við efri árnar í Árnessýslu, að ef laxagangan er stöðvuð að mun vegna laganna frá síðasta Alþingi, þá muni áhuginn í þeim efnum minka. Og það er víst, að þessi lög, hafa haft áhrif í þá átt, að dregið hafi verið úr framkvæmdum í þessu efni, eða jafnvel hætt við þær. Í Sogið hefir t. d. á síðastliðnu ári sama sem enginn lax gengið, og sá maður, sem átti að veiða til laxaklaksins, átti mjög erfitt með að fylla klakhúsið. Jeg kom þangað sjálfur í sumar, og er mjer þetta því kunnugt. Það er því víst, að trúin ein á það, að laxgangan stöðvist, er til stórskemda. — Þar að auki hefi jeg sannar sögusagnir um það, að við Hvítá ofanverða hafa nokkrir bændur, sem veiði eiga í Hvítá, tjáð sig hafa fengið undanfarin ár mesta veiði í lagnet fyrri hluta vikunnar, á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum, en aftur mun minni afla seinni hlutann. Þetta rökstyðja menn með því, að laxinn heftist á göngunni af netunum neðan til í ánni, en hlaupi svo upp í árnar á sunnudögum, þegar lagnirnar eru teknar upp. Það virðist að minsta kosti mjög sennilegt að hugsa sjer þetta svona. Og svo heldur hv. frsm. minni hl. (MJ) því fram, að lögin hafi engin áhrif haft! Það er vitanlega ekki rjett; þau hafa dregið úr áhuga manna fyrir laxaklaki. Og þegar það kemur í ljós, að veiði þeirra, sem búa við efri árnar, minkar, þá er það skiljanlegt, að þeim sje kappsmál að fá lögin numin úr gildi.

Í þessu sambandi vil jeg drepa á annað atriði, þó það komi ekki beinlínis þessu máli við, en það er eyðing sels í ánni. Það sýnist dálítið undarlegt, að í þessari sömu á skuli líka vera selalagnir og selurinn friðaður, þó hann vitanlega eyðileggi laxveiðina. En til að auka laxveiðina ætti vitanlega að útrýma selnum úr Ölfusá.

Nú sýnist mjer, eins og jeg hefi tekið fram, að þessi lög hafi þau illu áhrif, að draga úr laxaklaki og minka hlunnindi þeirra af veiðinni, sem hennar gætu notið. Eitt sumar er að vísu stuttur tími til að dæma um áhrifin af þessum lögum, en það er almenn trú og skoðun þarna austur frá, að veiðin hafi minkað vegna undanþágunnar, einkanlega í Soginu; þangað gekk sama sem enginn lax síðastl. sumar, hjá því, sem að undanförnu. Mjer virðist því einsætt að fella úr gildi þessa undanþágu frá laxfriðunarlögunum, sem samþykt var á síðasta þingi.