05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

33. mál, friðun á laxi

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að tefja tímann með langri ræðu, því jeg býst við því, að margir hafi vænst þess af Alþingi, að það verði tíma sínum til annars en þess að fella úr gildi samþyktir frá síðasta þingi.

Jeg býst við því, að mönnum sje kunnugt um afstöðu mína til þessa máls frá síðasta þingi. Þá fylgdu hv. þm. Árnesinga mjög fast fram því sama, sem hv. núverandi þm. sama kjördæmis hafa lýst yfir, að hafi vakið mjög almenna óánægju. Jeg veit ekki, hvað við, sem erum ókunnugir, eigum að segja um svona samkvæmni. Annaðhvort hafa þeir, sem báru málið fram í fyrra, harla lítið haft við almenningsvilja að styðjast, og því sagt ósatt, eða þá að frv. flutningsmaður þessa máls nú lítur nokkuð öðrum augum á, og það sje aðeins frá hans hlið sjeð, að lögin frá í fyrra sjeu óheppileg. Nú er mjer að vísu ekki kunnugt um það, hvernig lax hagar sjer á göngu sinni upp ár. En jeg hjó eftir einu atriði hjá hv. flm. En það var það, að laxinn stöðvaðist við netin og færi ekki lengra. En nú sögðu hv. þm. í fyrra, að netin næðu alls ekki nema í miðja ána, eða tæplega það, sem trúlegt er. Jeg veit nú af minni reynslu af silungaveiði, að silungur mundi fara fram fyrir netendann. En eftir því, sem hv. flm. segir, þá er það öðruvísi með laxinn. Jeg verð nú að segja eins og Skarphjeðinn: „Leiðist mjer þóf þetta.“ Mjer virðist það hringl ófært, að þingið sje nú að fella úr gildi lög, sem samþykt voru á næsta þingi á undan; slíkur hringlandaháttur aflar ekki þinginu trausts hjá þjóðinni. Að því leyti er jeg alveg samdóma hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og hefir hann tekið það flest fram, sem jeg vildi sagt hafa. Sami hv. þm. hefir komið hjer fram með rökstudda dagskrá. En mjer hafði dottið í hug önnur rökstudd dagskrá, svo hljóðandi:

Með því að hugir manna í Árnessýslu virðast vera mjög á reiki i þessu máli, þar sem breyting sú á laxveiðilögunum, sem gerð var á síðasta þingi, var þá sögð fram komin eftir ósk og samþykki laxveiðieigenda i hjeraðinu, en nú koma frá ýmsum sömu aðiljum óskir i gagnstæða átt, þá virðist full ástæða til að málið sje látið bíða að sinni, enda var á síðasta þingi skorað á stjórnina að leita álits sýslunefnda landsins um breytingu á laxveiðilögunum, sem vænta má, að verði lögð fyrir þingið áður en langt um liður; tekur því deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Þessa dagskrá leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta. Tilgangurinn með henni er sá, að stjórnin fái tilætlaðar upplýsingar, svo að næst þegar málinu verður ráðið til lykta, þurfi ekki að koma fram tillaga um það á næsta þingi, að fella það úr gildi, sem samþykt var á næsta þingi á undan.