25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurjón Jónsson:

Jeg vil aðeins tala nokkuð um 2 brtt., sem jeg á á þskj. 196. Jeg skal þá byrja á því það þakka háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) fyrir ummæli hans um till. sjútvn. viðvíkjandi launum yfirfiskimatsmanna. Oss sjávarútvegsnefndarmönnum er mjög ant um, að sú till. verði samþykt, því verði hún feld, þá er hætt við, að vjer missum frá þeim störfum þá menn, sem nú gegna þeim og sjávarútvegurinn má alls ekki án vera.

Jeg vil vekja athygli háttv. þm. á því, að þegar laun yfirfiskimatsmanna voru hækkuð árið 1923, þá voru störf þeirra aukin talsvert um leið, því þá var tekið upp skyldumat á fiski, sem ekki var skylt að meta áður, og það var því fylsta sanngirni í því að hækka þau, einkum þegar þess er gætt, að laun þessara manna voru mjög lág; þau voru lægri en laun þau, sem ýmsir verkstjórar fengu. Jeg vissi það, að laun yfirfiskimatsmannanna í Vestfirðinga- og Austfirðingafjórðungi voru ekki nema 2400 kr. með dýrtíðaruppbót. Þó eru þessir menn svo vel hæfir og ábyggilegir, að ef við missum þá frá störfunum, þá er það mikið tjón. Einkum þekki jeg það vel, að sá yfirfiskimatsmaður, sem starfar fyrir vestan, er sjerstaklega vel hæfur til starfsins og í alla staði ágætismaður. Þó hafa þessir menn haft lægri laun en mörg fjelög borga verkstjórum sínum, og þó eru störfin mikil. Jeg vil því sjerstaklega biðja hv. þdm. um að samþykkja þessa brtt. — Þá á jeg aðra brtt. á sama þskj.till. kemur sjálfsagt mörgum hv. þm. undarlega fyrir sjónir, því þar er um nokkuð mikla fjárhæð að ræða. En til þess að gera háttv. þm. skiljanlegt, hvers vegna hún er fram komin, vil jeg skýra nokkuð frá tildrögum þessa máls. í fyrravetur um þetta leyti leitaði Ísafjarðarkaupstaður samþykkis stjórnarráðsins til þess að kaupstaðurinn keypti eign þar vestra, svonefndan Hæstakaupstað. Skjölin viðvíkjandi þessu munu hafa verið send suður um mánaðamótin mars og apríl í fyrra. En jafnframt því sem kaupsamningur þessi var gerður, gerði kaupstaðurinn leigusamning við seljendurna, og með þeim samningi var þeim leigð þessi eign til 5 ára, og þeir eiga rjett á að fá samninginn endurnýjaðan til annara 5 ára. Í þessum sama leigusamningi er það skýrt ákveðið, að Ísafjarðarkaupstaður skuli gera hafskipabryggju til afnota fyrir seljendur. Og kaupstaðurinn skuldbindur sig til að gera þessa bryggju á þessu ári og hafa hana tilbúna til notkunar fyrir 1. janúar 1925. Verði kaupstaðurinn ekki búinn að koma bryggjunni upp fyrir þann tíma, verður hann að greiða 1000 króna sekt fyrir hvern mánuð, sem líður án þess að bryggjan verði fullgerð. Jeg vona því, að hv. þm. skilji af þessu, að það er hreint og beint fjárhagsleg nauðsyn fyrir Ísafjarðarkaupstað að koma bryggju þessari upp. Hæstv. þáverandi stjórn samþykti kaupin og leiguskilmála, og hefir stjórnin gengið út frá því, að Ísafjarðarkaupstaður nyti styrks úr ríkissjóði, svo sem tilskilið er í hafnarlögum fyrir Ísafjörð frá 1922. Þess vegna hafði jeg fullan rjett til þess að búast við því, að stjórnin tæki þennan styrk upp í fjárlög þessa árs. Fór stjórnin með málið til hv. fjvn., er ekki var málinu hlynt, og heldur ekki jeg fjekk þar neina áheyrn.

Eins og jeg drap á, er með lögum frá 1922 ákveðið, að ríkissjóður skuli leggja til hafnarbóta alt að ¼ kostnaðar, en þó ekki fyr en upphæð er veitt til þess í fjárlögum. Um leið og stjórnin leyfir Ísafjarðarkaupstað að gera þessar ráðstafanir ber henni skylda til þess að sjá um, að kaupstaðurinn fái þennan lögheimilaða styrk.

Það er með lögum ákveðið, að ekki megi nota til hafnarbóta hafnarsjóð, nema með samþykki stjórnarinnar. Jeg vænti því styrks frá háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) og jeg vonast eftir öflugum stuðningi þess flokks, sem studdi hæstv. síðustu stjórn.

Að síðari hluta till. minnar verð jeg að víkja nokkrum orðum. Geri jeg þar ráð fyrir, að væntanlegur styrkur verði greiddur kaupstaðnum á þann hátt, að styrkupphæðin verði dregin frá skuld þeirri, sem Ísafjörður er í við ríkissjóð. Fjárhagur Ísafjarðar er nú svo erfiður, að jeg tel engar líkur til þess, að skuldinni yrði lokið á næstu árum, en nú er hún um 90 þús. kr.

Eins og málum er nú komið, geri jeg nokkrar kröfur til hv. þm. um, að þeir sýni hjer meiri sanngirni en annars er alment sýnd málaleitunum um styrki. Fyrst og fremst er málið þannig undirbúið, með samþykki hæstv. fyrv. stjórnar, og í öðru lagi kostar þessi styrkur ríkissjóð ekki bein peningaútlát, heldur gengur upp í skuld kaupstaðarins við ríkissjóð, en sú skuld getur ekki orðið greidd fyrst um sinn.