25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1925

Árni Jónsson:

Jeg á ásamt háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) viðaukatill. við 14. gr. A. b. 4 undir XIII. lið á þskj. 196, um viðbótarstyrk til húsabyggingar til handa prestinum á Skeggjastöðum í Norður-Múlasýslu. Hefir legið erindi um þetta frá prestinum fyrir háttv. fjvn., en hún ekki sjeð sjer fært að taka beiðni hans til greina. Jeg vil samt ekki liggja henni á hálsi fyrir það, eins og nú standa sakir, þar sem svo margt þarflegt verður að bíða betri tíma.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) mintist á það í síðustu ræðu sinni, að mjög væri mörgum húsabyggingum til sveita ábótavant og frágangur á þeim ljelegur. En það verður ekki sagt um hús það sem hjer er um að ræða. Það er bygt á síðastliðnu sumri og hefir presturinn ekkert til sparað, að það yrði sem veglegast og vandaðast. Eru í því 12 herbergi og öll mjög góð, og má því húsið teljast frekar ódýrt, en það hefir kostað 25 þús. kr., að frátaldri viðgerð og stjett, sem nam ca. 2500 kr.

Til húsbyggingarinnar fjekk presturinn lán úr prestakallasjóði að upphæð 5 þús. kr. og styrk 5 þús. kr. Hitt hefir hann alt lagt til sjálfur, eða fullan helming kostnaðarins, og býst jeg við, að það sje megnið af efnum hans. Hann er nú hniginn að aldri, hefir verið prestur í 30 ár og nú síðustu 17 árin í þessu rýra og afskekta prestakalli. Það er því ekki að búast við, að hann njóti hússins lengi sjálfur, heldur hefir hann bygt það fyrir framtíðina eða þá, sem á eftir honum koma, og er slík viðleitni svo virðingarverð, að maklegt væri að henni væri nokkur samhugur sýndur. Er ekki heldur svo, að þetta gæfi ekki arð. Ríkið ætti hlutdeild í húsinu og gæti leigt það út gegn 4% leigu, og sýnist þá full sanngirni mæla með því, að presturinn væri styrktur með þessum 2000 kr. En með tilliti til hins örðuga fjárhags og hinnar virðingarverðu sparnaðarviðleitni háttv. þings og fjvn., þá tek jeg samt þessa till. aftur, en geymi þó prestinum rjett hans óskoraðan og geri ráð fyrir að bera þessa till. síðar fram.