25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1925

Sveinn Ólafsson:

Nafn mitt stendur við 4 brtt. á þskj. 196 í þeim kafla, sem nú er til umræðu. Get jeg ekki leitt hjá mjer að fara um þær nokkrum orðum, þótt jeg hinsvegar reyni að tefja ekki tímann með því að fara langt út í aðrar till.

1. brtt. mín undir lið XIV fer fram á, að færð verði niður upphæðin til ljóss og hita í Hólaskóla. Að jeg geri þessa brtt. kemur til af því, að jeg sje, að það hlýtur að vera af vangá hjá hv. fjvn., að sá liður er ekki áætlaður lægra. Skýtur í því efni skökku við með skólana á Eiðum og Hvanneyri. Nefndin gerir ráð fyrir 6 þús. kr. í þessu skyni til skólans á Akureyri, þar sem er um margfalt meira húsrúm að ræða en á Hólum, mjög mikinn fjölda herbergja og húsið ekki hlýtt; en ætlar 5 þús. kr. til Hólaskólans. Til sömu þarfa Hvanneyrarskólans er áætlað, að fari 3 þús. kr. og 3500 kr. á Eiðum.

Eftir því, sem mjer kemur þetta fyrir sjónir, þá þyrfti líklega Eiðaskóli hæsta upphæð til ljóss og hita, því þar er flutningurinn á eldiviði til skólans eflaust lengstur og erfiðastur. Verður þar t. d. að flytja öll kol um 50 km. veg, sem þó er ekki allur akfær, svo að reiða verður nokkurn spöl á hestum. Nemendafjöldinn er svipaður á Hólum og Eiðum; en þar sem ríkissjóður hefir ekki ennþá ráðist í að byggja upp eða stækka Eiðaskóla, þá verða kennarar og nemendur að búa þar á þrem stöðum. Gerir það alt heimilishald torveldara og dýrara. En þó að þessir erfiðleikar sjeu hjer fyrir hendi og þó flutningur til annara skóla sje mun greiðari, þá hygg jeg, að þessi upphæð, sem áætluð er, muni nægja handa Eiðaskólanum, og eins að sú upphæð, sem jeg legg til að Hólaskóla verði veitt, muni vera sæmileg.

Jeg minnist þess nú, að fyrir nokkrum árum var leitað til þingsins um fjárveitingu til vegarlagningar milli sjávar og Hóla. Var því þá haldið fram, að þetta væri einkum nauðsynlegt vegna ýmsra aðdrátta að Hólum, og var talið, að þetta myndi t. d. gera allan eldivið ódýran. Nú hygg jeg, að sú breyting sje orðin á veginum þar, að allur flutningur frá sjó sje að minsta kosti miklu auðveldari þar en að Eiðum. Þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta, en hygg, eins og jeg tók fram áðan, að það hafi verið af vangá hjá hv. fjvn., að hún áætlaði þennan lið til Hólaskóla svo óvenjulega háan.

Þá á jeg aðra brtt. á sama þskj. (196) undir XX. lið. Þar hefi jeg leyft mjer að leggja til, að styrkurinn til Leikfjelags Reykjavíkur sje bundinn því skilyrði, að jöfn upphæð verði veitt til þess úr bæjarsjóði. Styrkurinn var áður 4000 kr., og lagði þá bæjarsjóður á móti 1/3 eða 2000 kr. Sumum finst, ef til vill, að svona skilyrði sje ekki sanngjarnlegt, en mjer finst það þó afareðlilegt, þegar um slíkar stofnanir sem leikhús er að ræða, þar sem það starfar þó fyrst og fremst fyrir íbúa þess bæjar, sem það er í. Og þó jeg telji þessa stofnun alls ekki lítils virði eða gagnslausa, þá snertir hún samt harla lítið aðra hluta landsins en Reykjavík. Því finst mjer líka, að þessi styrkur sje mjög vel viðunanlegur frá hendi ríkissjóðs, bæði fyrir leikfjelagið og bæjarfjelagið, sem nýtur ávaxtanna af starfsemi þess. Vænti jeg því, að hvernig sem um aðrar brtt. fer, þá verði þessari vel tekið.

Þá kerfi jeg að þriðju brtt. minni undir lið XXVII á þskj. 196, sem jeg flyt ásamt hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Hún lýtur að því, að fjárveitingin til markaðsleitar verði hækkuð úr 10 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Þykir okkur þessi upphæð of lágt áætluð bæði í frv. stjórnarinnar og í till. hv. fjvn. í þessu skyni var árið 1922 varið 20–30 þús. kr. Raunar er það rjett, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) tók fram, að megnið af því fje fór til að kosta sendiferð manns til Vesturheims og að óþarft mun að gera ráð fyrir svo dýrum ferðum að þessu sinni. Það sem nú þarf að gera í þessu efni, er ekki fyrst og fremst að láta menn ferðast og skoða sig um eða skrifa ferðasögur, heldur að gera tilraunir um sölu afurðanna og annast um sendingu sýnishorna í ýmsar áttir. Við búumst við því, að allir geti orðið á einu máli um það, að þessi viðleitni sje mjög þörf, og ekki aðeins í þá átt að leita að nýjum fiskmarkaði, sem talsvert hefir þegar verið gert að, heldur mun engu minni þörf á að leita fyrir sjer um sölu á kjöti, með breyttri söluaðferð, og öðrum landafurðum.

Jeg vil leggja áherslu á það, að fje þetta veiði ekki eingöngu notað til að ferðast fyrir, heldur miklu fremur til raunverulegra sölutilrauna. Aðrar þjóðir, sem líkt stendur á fyrir, hafa varið miklu fje í þessu skyni. Við höfum líka árið 1923 veitt fje eða heitið því til Sambands íslenskra samvinnufjelaga á líkan hátt, til þess að það þyrfti ekki að bíða mikinn halla af tilraunum sínum um sölu á kældu kjöti. Reyndar mun svo heppilega hafa farið um þá tilraun, að ekki hafi komið til ábyrgðar ríkissjóðs. En við slíka eftirgrenslun og sölutilraunir getur altaf komið til þess, að til ábyrgðar þurfi að taka.

Jeg sje á þessu sama þskj. brtt. frá háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Barð. (HK), sem gengur í líka átt, aðeins skemra. Þeir leggja til, að veittar sjeu í þessu skyni 15 þús. kr. í stað 20 þús. Það segir sig sjálft, að nái till. okkar hv. 1. þm. N.-M. (HStef) ekki fram að ganga, þá mun jeg greiða atkvæði með lægri till.

Loks er þá fjórða brtt. undir XXXV. lið á sama þskj. Hún er aðallega flutt af hv. 1. þm. N.-M. (HStef), og mun hann mæla fyrir henni eins og þarf. En þó vildi jeg fara um hana örfáum orðum. Hjer er farið fram á það, að veitt sje ábyrgð ríkissjóðs fyrir væntanlegu láni að 2/5 stofnkostnaðar til dúkaverksmiðju á Austurlandi. En tilgangurinn með þessari tillögu er fyrst og fremst sá, að glæða og halda við þeim áhuga, sem þar er vaknaður á þessu máli, með því að þingið sýni, að það vilji veita sinn stuðning. Hitt segir sig sjálft, að ekki getur komið til framkvæmda fyrst um sinn í þessu efni, vegna þeirra örðugleika, sem að steðja hvaðanæva. Jeg vil geta þess, að í hitteðfyrra var safnað fje í þessu skyni, og fengust um 85 þús. kr. til fyrirtækisins úr 5 hreppum kringum Reyðarfjörð. Og á þingi 1922, þegar þetta gerðist, var gefið fyrirheit um að styrkja fyrirtækið með 50 þús. kr. En á þingi í fyrra fór á alt annan veg. Þá skaut upp hugmynd, sem var spáný og áður óþekt, að reist yrði allsherjar ullarverksmiðja fyrir alt land einhversstaðar hjer á Suðurlandi fyrir um 2 miljónir kr. Þetta kom í opna skjöldu, þegar verið var að leita stuðnings fyrir verksmiðjuna á Austurlandi, og varð til þess, að þingið kipti að sjer hendinni og vildi ekki styðja hana. Við þær undirtektir dofnaði áhugi manna eystra fyrir málinu og lögðu þeir hendur í skaut í bili. En svo fór áhuginn að lifna á ný. Fjársöfnun var aftur hafin og mun verða haldið áfram, ef sæmilega árar. En aðalástæðan til þess, að Austfirðingum er þetta svo mikið kappsmál, er sú, að árum saman höfum vjer orðið að senda of fjár úr landi til norskra ullarverksmiðja fyrir vinslu á ull, því nær til allskonar dúkagerðar.

Fyrir stríðið skiftu menn á Austurlandi eingöngu við norskar verksmiðjur, og síðan stríðinu lauk hafa þau viðskifti verið tekin upp af nýju. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi getað fengið hjá umboðsmönnum þessara norsku verksmiðja, þá munu ganga til þeirra úr 2 austustu sýslunum 200–240 þús. krónur á ári fyrir vinslu á ull, sem vel mætti vinna hjer heima. Við höfum fulla trú á því, að þetta mundi lagast, ef verksmiðju yrði komið upp þar eystra. En hinsvegar mun allur almenningur hafa litla trú á því, að sú stóra allsherjar ullarverksmiðja, sem ráðgert var í fyrra að reist yrði og enn á ítök í hugum sumra manna hjer um slóðir, muni komast bráðlega á stofn og bæta úr fyrstu þörfinni. Mjer virðist liggja næst að hugsa fyrir henni eins og framtíðarfyrirtæki, þegar betur árar og frekari reynsla er fengin, þegar vjer getum farið að hugsa til þess að flytja út unna ull og keppa með okkar dúka í nágrannalöndunum. En sem stendur er bráðnauðsynlegt að bæta úr þeirri klæðaþörf, sem nú er innanlands, og ekki verður fullnægt með öðru móti en því, að sækja vinslu til útlendra verksmiðja eða kaupa útlenda dúka ránverði. Mun jeg svo ekki fjölyrða um þetta meira, en ætla aðalflm. að gera betur.

Loks skal það sagt viðvíkjandi brtt. háttv. fjvn., að jeg mun reyna að halda í hönd með henni fram eftir kvöldinu uns yfir lýkur með atkvgr. Ekki þó svo að skilja, að jeg fylgi henni alveg óskorað og undantekningarlaust. En nú eins og í gær get jeg yfirleitt hallast að flestum brtt. hennar. Vegna tímaskorts verð jeg að neita mjer um það að minnast á einstakar till. annara þingmanna, og hefi ekki önnur ráð en að láta atkvæði mitt skera úr um afstöðu mína, þegar þar að kemur. Mjer er illa við það að sitja hjer langt fram á nótt undir ræðuhöldum. En lýst get jeg því yfir, að jeg sje mjer ekki fært að styðja nema sárfáar af brtt. einstakra deildarmanna. Jeg finn þó ástæðu til þess að drepa ögn á eina slíka brtt. frá háttv. þm. Reykv., öllum fjórum, áður en jeg lýk máli mínu. Hún er XVI. liður á þskj. 196, um hækkun á rekstrarfje til kvennaskólans í Reykjavík. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) talaði með miklum fjálgleik um ágæti þessarar stofnunar og það, hver sæmd og þörf væri að hækka þann styrk fram úr því sem nú er. Það lá við, að jeg viknaði við helgiblæinn á ræðu háttv þm. En jeg held nú samt, að fjvn. hafi verið sanngjarnari í sínum tillögum um þessa dýrlegu stofnun og sýnt henni fullan sóma. Hjer verður sem sje það að muna, að þegar verið er að skera niður eins og mögulegt ef af slíkum mentastofnunum og klípa af hverri fjárveitingu, þá verður ekki sjeð, að þessi mentastofnun hafi nokkra ástæðu til að spenna bogann svo hátt sem hjer er gert eða að hún hafi orðið fyrir misrjetti, heldur miklu fremur, að henni hafi verið þyrmt fremur ýmsum öðrum. Jeg verð því að segja það, að mitt hjarta er svo kalt, að jeg býst ekki við því að fylgja brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þótt fagurlega mælti hann.