03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Jeg get í raun og veru látið mjer nægja að vísa til nál. meiri hl. á þskj. 256. Eins og þar er tekið fram, hefir frv. verið sent bæjarstjórn Hafnarfjarðar til umsagnar, og sendi bæjarstjórnin svar, sem jeg býst við, að allir hv. deildarmenn hafi lesið, því það er prentað í nál. minni hl. á þskj. 243. Meiri hluti bæjarstjórnarinnar leggur eindregið á móti því, að frv. verði að lögum, og virðist meira að segja taka það mjög óstint upp, að þingmaður annars kjördæmis skuli hafa flutt þetta frv. Jeg játa að vísu, að úr þessu einu væri ekki mikið gerandi, ef nokkuð hefði legið fyrir um það, að töluverður flokkur manna í Hafnarfirði vildi fá þessa breytingu. En jeg verð að líta svo á, að ekkert bendi á það. Hv. flm. (JBald) getur þess að vísu í greinargerð fyrir frv., að það sje flutt að beiðni nokkurra manna í Hafnarfirði, en eftir málvenju flestra manna er það sama sem fáir, og verður því ekki sjeð, að nokkur áhugi sje fyrir því í Hafnarfirði, að þetta komist á. Hvað sem því líður, hvort rjett sje að hafa hlutfallskosningar í þessar nefndir eða ekki, þá verður því ekki á móti mælt, að þetta sje fremur innra mál kaupstaðarins. Lítur meiri hl. allshn. svo á, að í slíku máli sje rangt af Alþingi að fara að kúga bæjarstjórnina í Hafnarfirði til þess að taka upp aðra starfshætti en hún vill hafa; að minsta kosti mun ekki liggja á því, á meðan áhugi er ekki meiri fyrir þessu en fram hefir komið. Jeg skal svo að lokum taka fram, að því fer fjarri, að jeg geri þetta að kappsmáli, og býst jeg ekki við að standa í neinum deilum um það.