03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Hv. flm. (JBald) segir, að þessi hlutfallskosning nefnda sje eðlileg afleiðing af því fyrirkomulagi, sem nú ríki við bæjarstjórnarkosningar. Kveður hann það eðlilegast, að eins sje farið að við nefndakosningar og að hjer sje um að ræða sjálfsagða rjettarbót. Það geta nú verið nokkuð deildar meiningar um þetta. Mín skoðun er sú, að þetta „system“ sje til óhappa einna. Það er bara til þess gert að skapa eftirhermuflokkadrætti og spana upp pólitíska flokka í smábæjarholum, þar sem um er að ræða að kjósa fáeina karla til þess að stýra bæjarmálunum. Þetta frv. er, eins og það er flutt, að vísu ekkert ósanngjarnt, en það er leiðinlegt og smámunalegt „humbug“. Það er það af því, að ástandið þarna gefur ekkert tilefni til að gera neina breytingu á kosningu í nefndir bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Þykir mjer það leiðinlegt, að það skuli hafa hent þennan hv. þm„ sem telur sig málsvara verkalýðsins, að leggjast fyrst gegn jafnnauðsynlegu máli og mikilsverðu fyrir þennan kaupstað og frv. var, sem jeg bar fram fyrir skömmu síðan, en koma svo fram með annað eins endemis „humbug“ sem þetta frv. er. Það er ekki einu sinni tveggja aura virði, enda býst jeg við, að jeg hafi ekki einu sinni svo mikið við það að greiða um það atkvæði. Hvort þessir menn skipa nefndir í Hafnarfirði með hlutfallskosningu eða ekki, hefir alls enga þýðingu. Og jeg vil fullyrða það, að þótt hv. 2. þm. Reykv. þykist bera verkalýðinn mjög fyrir brjósti, þá geri hann það ekki meira en þeir ýmsu borgarar í Hafnarfirði, sem ekki æskja þessarar breytingar. Jeg lít annars svo á, að þinginu beri ekki að svo stöddu að skifta sjer neitt af þessu máli, því það er hjer um að ræða innra mál kaupstaðarins; auðvitað hefir þingið vald til þess, ef það vill, en jeg tel það bara ekki rjettmætt, og því síður hyggilegt. — Það er að vísu svo, að meiri hluti bæjarfulltrúanna ræður því, hverjir skipaðir eru í nefndirnar, og það liggur líka í hlutarins eðli, að hann geri, og það gerir hann, hvernig sem kosið verður. En mjer er kunnugt um það, að þeir menn einir eru skipaðir, sem líklegastir þykja til að gera sem mest gagn, hver á sínu sviði. Sá, sem er byggingarfróðastur, er skipaður í bygginganefnd, sá, sem er skólafróðastur, er settur í skólanefnd o. s. frv. Hitt væri líka óhagsýni og hreinasta tap fyrir bæinn og alla hlutaðeigendur, að fara öðruvísi að. Nei, jeg verð að endurtaka það, að þetta frv. er eitthvert það skærasta „humbug“, sem enn hefir komið fram á þessu þingi.