03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) kvað nefndin ekki vita með neinni vissu, hvort að bak þessa frv. væri nokkuð verulegt fylgi meðal kjósenda í Hafnarfirði. — Jeg vil í tilefni af þeim orðum hans lesa hjer upp yfirlýsingu frá einum bæjarfulltrúanun í Hafnarfirði. Hún hljóðar svo:

„Jeg undirritaður lýsi hjer með yfir að jeg er einn af þeim, er mæltust til og fólu alþingismanni Jóni Baldvinssyni að flytja frv. það um hlutfallskosningu, er hann nú flytur, og sem er í fullu samræmi við vilja hinna fulltrúa verkamanna flokksins.

Hafnarfirði, ¼ 1924.

Davíð Kristjánsson.

(BSt: Þetta lá ekki fyrir nefndinni) Þetta lá að vísu ekki fyrir nefndinni, en jeg hafði ekki búist við því, að hv. þm. myndu búast við, að jeg færi að spinna neitt upp um flokksmenn mína í Hafnarfirði enda væri slíkt heldur óviturlega gert. (BSt: Jeg dróttaði engum uppspuna að háttv. þm.). Háttv. þm. virtist efast um, að rjett væri skýrt frá ástæðum málsins. Jeg vil annars þakka þeim háttv. þm., sem mælt hafa með frv. Og út af því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á Ísafjörð, vil jeg taka það fram, að þó að mínir flokksmenn sjeu þar í meiri hluta og ef minni hlutinn óskaði eftir hlutfallskosningum, eins og hjer er farið fram á, þá myndi jeg hiklaust greiða því atkvæði. Jeg þarf ekki að gera því á fæturna, að flokksmenn mínir legðust á móti slíku máli, því jeg veit með vissu, að þeim kæmi aldrei til hugar að sýna slíka ósanngirni.