03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Jeg vil aðeins bera af mjer þá ásökun hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að jeg með því að spyrna á móti þessu frv. sje að kynda stjettarígsbál. Jeg hefi aðeins sagt, að þetta mál sje ekki þess vert að tala um það. Jeg tel það ekki æskilegt fyrirkomulag fyrir hvern smákaupstað að innleiða hlutfallskosningar, sem óbeinlínis byggja upp óeðlilega flokkaskiftingu og veikja ábyrgðartilfinning einstaklingsins, og á sama tíma draga úr sjálfstæðri skoðun hans. En annars þótti mjer nokkuð skrítið, að hv. flm. (JBald) þóttist flytja þetta mál fyrir verkalýðinn í Hafnarfirði, en hefir þó sjálfur gerst til þess að eyðileggja annað mál, sem var miklu meira vert fyrir hann.

Hvað snertir það, sem talað hefir verið hjer um stjettaríg í Hafnarfirði, þá hlýtur það að stafa af ókunnugleik, því þar eru engar sjerstakar yfir- eða undirstjettir; þar eru aðeins sjómenn, verkamenn, handiðnamenn og fáeinir kaupmenn. Þetta er í raun og veru ekki nema ein alþýðustjett, enda sjest það á því, hvernig skipað er í bæjarstjórnina. Í minni hlutanum þar er einn kennari, einn snikkari, einn stýrimaður og einn framkvæmdarstjóri. Hjer er engin undirstjett. Og eins og jeg sagði í upphafi, vil jeg ekki greiða þessu frv. atkvæði, af því jeg tel þess enga þörf og enga rjettarbót í því felast. Jeg veit ekki, hvort nokkur meiri hluti er fylgjandi því í Hafnarfirði. Og jeg vil bíða með að afgreiða það þangað til það kemur í ljós, hver sje vilji fólksins þar. Eins og frv. nú liggur fyrir er það hreint hjegómamál.