10.04.1924
Efri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Björn Kristjánsson:

Af því enginn annar tók til máls, vil jeg fara fáeinum orðum um þetta frv., sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir borið fram. Jeg hefi leitað upplýsinga hjá bæjarfógeta í Hafnarfirði, hvernig á frv. þessu standi og hvort bæjarstjórnin hefði samþykt að biðja um að flytja frv. Svaraði hann því neitandi. Ennfremur spurði jeg, hvort sósíalistar hefðu orðið út undan við nefndarkosningar. Sagði hann, að sósíalistar væru í fleiri nefndum en þeim bæri, ef hlutfallskosning hefði farið fram. Það er rjett, að af 3 sósíalistum hefir einn ekki verið kosinn nema í eina nefnd. Er það vegna þess, að menn veigra sjer við því að hafa samvinnu við hann, samkv. reyndu undanfarið. Einnig vildu menn vegna heilsufars hans hlífa honum við slíkum nefndarstörfum.

Jeg get látið þess getið viðvíkjandi þessum bæjarfulltrúa, að jeg þekti hann fyrir mörgum árum sem heiðarlegan og drenglyndan mann. Síðustu ár hefir hann verið formaður kommúnistafjelagsins, og lítur út fyrir, að heilsa hans hafi ekki þolað þau störf. Efalaust væri honum fyrir bestu að taka sem mesta hvíld, til þess að hann gæti náð fullri heilsu aftur. En ef frv. nær fram að ganga, verð jeg að telja, að ýtt sje undir, að hann fái ekki þessa hvíld, sem honum er nauðsynleg. Þess vegna get jeg ekki mælt með samþykt frv.