07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Sjútvn. hefir fallist á frv. það, sem hjer er til umræðu, og leggur til, að það verði samþykt með lítilsháttar breytingum. Með atkvæði sínu hefir sjútvn. og allflestir hv. þdm. við 3. umr. fjárlagafrv. samþykt og fallist á frv. þetta, og þarf því ekki að vænta, að það mæti neinni mótspyrnu, enda þyrfti og þess við, að það fengi fljóta afgreiðslu frá þinginu. Það er að vísu með samviskunnar mótmælum, að sjútvn. mælir með því, að tekið verði fje úr sjóðnum í þessu skyni, en hún hefir ekki getað fundið annað ráð til þess, að hægt verði að halda uppi sæmilegum landhelgisvörnum á næsta ári. Það er nú nýbúið að samþykkja hjer í deildinni frv. um að hækka landhelgissektirnar, þannig að þær verði miðaðar við gullgildi, og nefndin gerir sjer því von um, að sjóðurinn geti vaxið ekki minna en áður og því fljótt náð sínum upphaflega tilgangi, þó að til þessa sje gripið fyrst um sinn. Það er skoðun sjútvn., að við Íslendingar verðum að láta okkur nægja um nokkurra ára bil að verja landhelgi okkar með smábátum, er við gerum sjálfir út, en notast að öðru leyti við dönsk herskip, meðan samningar um það haldast milli Íslands og Danmerkur. Nefndin beinir því til stjórnarinnar að stuðla til þess eftir mætti, að gott samkomulag haldist milli íslensku og dönsku strandvarnarskipanna.

Sjútvn. hefir aðeins gert smávægilegar brtt. við frv., og hefir flm. þess fallist á þær. Það er að vísu allveruleg breyting, er nefndin leggur til, að öllu sektarfje auk vaxta sjóðsins skuli varið til strandvarna, en nefndin gerir ráð fyrir, að svo geti farið, að sektarfjeð hrökkvi ekki á móti tillagi ríkissjóðs, og því vill hún heimila, að grípa megi líka til vaxtanna af sjóðnum, en þó með þeirri takmörkun, að til þeirra sje ekki tekið meira en það, er sektarfjeð hrekkur ekki fyrir þessum kostnaði á móts við það, er ríkissjóður leggur fram. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþykt með þessum breytingum, en gerir auk þess ráð fyrir, að gerðar verði ráðstafanir til þess að tryggja betur viðgang og vöxt sjóðsins óðar en fjárhagur ríkisins batnar.