07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Ágúst Flygenring:

Hvað viðvíkur þessum tilmælum hæstv. fjrh. (JÞ), þá tel jeg víst, að nefndin muni taka þetta til athugunar til 3. umr., og þætti mjer sennilegt, að hún tæki það til greina, eins og hann óskar.

Hvað hitt snertir, það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, þá er það ekki rjett, að allar árstekjur sjóðsins fari til þessa. Eins og menn vita, þá fær sjóðurinn 20 þús. kr. á ári úr ríkissjóði, og hygg jeg því, að svo lengi, sem þeirri reglu verður fylgt, að ríkið leggi á móti sjóðnum að hálfu til landhelgisvarna, þá muni það, sem hann leggur til þessa, alls ekki fara fram úr árlegu sektarfje og vöxtum, enda ekki gert ráð fyrir, að það geti komið fyrir. Í ár eru tekjurnar þegar orðnar miklar — um eða yfir 70 þús. kr. — og mjer er nær að halda, að sektarfjeð fari ekki árlega niður úr því nú næstu árin, þegar eða síðan reiknað er með gullgengi.

Það, sem lengt hefir hjer umræðurnar mest, eru orð hv. frsm. nefndarinnar (ÁÁ) um það, að við yrðum að sætta oss við það fyrirkomulag, sem nú væri á strandvörnunum, fram til 1940. En engin slík tímabilsákvörðun kom beinlínis til tals í nefndinni, en vitanlega dylst oss það ekki neinum, að það hljóta að líða mörg ár þangað til við getum orðið færir um að standast kostnaðinn við útgerð eins eða tveggja fullkominna gæsluskipa. Útgerðarkostnaður þeirra er vitanlega svo mikill, að það verður til muna að greiðast úr fjárhagnum áður en við getum hugsað til slíks. Hitt var oss ljóst, að vjer verðum að láta oss nægja að hafa fyrst um sinn smærri skip til að annast landhelgisgæsluna, þangað til vjer verðum sjálfir þess megnugir að kaupa stærri skip til hennar, og ef til vill taka hana að öllu í okkar hendur, en fyrri en við gerum það, mun strandgæslan aldrei verða fullkomin. Á það geta víst allir fallist, sem til þekkja. Á hinu tel jeg þó lítinn vafa, að stjórnin hafi á undanförnum tímum notað minna en hægt hefði verið aðstoð Dana í þessu efni, og jafnvel hafnað góðum boðum. Væri vel farið ef hæstv. núverandi stjórn hefði betri gætur á því eftirleiðis og hafnaði ekki gúðfúslegum boðum úr þeirri átt.

Þetta var nú aðeins til að leiðrjett misskilning, og skal jeg því ekki orðlengja þetta meir. En jeg vil undirstrika það með hv. þm. Borgf. (PO), að vjer verðum sem allra fyrst að verða sjálfum okkur nógir á þessu sviði. Hvað langt þess verði að bíða, skal jeg engu spá um.