26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get tekið það fram, eins og við fyrri kafla fjárlaganna, að jeg mun að mestu leyti styðja sparnaðartill. hv. fjvn., þótt jeg geri ráð fyrir að greiða atkvæði gegn einstökum atriðum; en þegar litið er á kaflann í heild, er það þó undantekning. Fyrst vildi jeg þá víkja að þeim brtt., sem jeg á við þennan kafla. Verður þá fyrst fyrir mjer brtt. á þskj. 196, 29. liður, við 16. gr. fjárlaganna. Málið horfir þannig við, eins og háttv. deild veit, að bændur í Hrunamannahreppi fengu í fjárlögum 1923 5000 kr. lán til smjörlíkisgerðar, sem þeir stofnuðu síðan til í sambandi við rjómabú. Stækkuðu þeir hús rjómabúsins og keyptu áhöld, og mun kostnaður hafa orðið um 7000 kr. Þeir starfræktu smjörlíkisgerðina aðeins eitt sumar, en þá var smjörlíkisgerð í sambandi við rjómabú bönnuð með lögum, og vil jeg lesa upp 5. gr. þessara laga, með leyfi hæstv. forseta: „Bannað er að framleiða smjörlíki þar, sem smjörgerð er höfð um hönd, og eigi má nota sömu tæki til skiftis við framleiðsluna.“ Þar með eru ráðstafanir og tillög bænda að engu orðin. Áhöldin liggja ónotuð og breytingarnar á byggingunum eru tilgangslausar. Bændur hafa orðið hart úti. Þeir geta ekki notfært sjer áhöldin og geta ekki lagt út í að byggja hús á nýjum stað. Þeir vilja því fá uppgjöf á láninu, sem jeg gat um áðan. Það virðist heldur ekki ósanngjarnt, er málavextir eru athugaðir. Löggjafarvaldið, sem að vísu brást vel við í fyrstu, setur bændum seinna stólinn fyrir dyrnar og gerir að engu fyrirhöfn þeirra og tilkostnað. Þess þarf ekki að geta, að bændur eru fúsir til að láta tækin af hendi. Jeg vænti þess fastlega, að hv. deild bregðist vel við í þessu máli.

Jeg vildi þvínæst minnast á örfá önnur atriði. Jeg á hjer eina brtt. ásamt hv. 2. þm. Reykv., og hefir hann talað fyrir henni og því sparað mjer ómak. Þessi maður, sem við viljum hækka styrk við, er mjög áhugasamur maður og duglegur. Hann hefir ferðast víða um land og athugað staði til laxa- og silungaklaks. Annar maður, sem hefir líkt starf á hendi, hefir langtum hærri laun. En að honum ólöstuðum efast jeg um, að starf hans beri meiri ávöxt. Til dæmis um, hve ágætan árangur starf hans hefir borið má geta þess, að á einum bæ var klakið út um hálfri miljón af laxahrognum síðastliðið ár. Þessi maður er því alls góðs maklegur og brtt. okkar bygð á fylstu sanngirni. (PO: Alveg rjett).

Þá skal jeg víkja að þeim till. nefndarinnar, sem jeg get ekki fylgt.

Verður þá fyrst fyrir mjer Garðyrkjufjelagið. Nefndin leggur til að lækka laun forstjóra þess um 1000 kr. Hann hefir nú 5000 kr. á ári, án allrar uppbótar. Hann hefir ferðast um landið til leiðbeininga og kostað sig sjálfur. Starfið er þjóðnýtt og maðurinn ágætur, og finst mjer því ilt, að kostum hans sje þröngvað.

Um einstaka liði, sem snerta útgáfur fræðirita, skal jeg ekki fjölyrða, en get þó ekki fylgt nefndinni þar að málum. Fjelögin munar mikið um þennan styrk, en ríkið ekki.

Sný jeg mjer þá að skólamálunum, og get jeg þar sumstaðar fylgt nefndinni að málum, sumstaðar ekki. Vil jeg fyrst minnast á iðnskólann. Vil jeg þar ekki spara meira en fyrverandi stjórn lagði til. Jeg er kunnugur iðnskólanum og veit, hve mikið gott hefir af honum leitt í verklegum efnum. Og ef meta skal áhrif skóla í landinu, hygg jeg, að hann verði ekki eftirbátur hinna. Það er gleðilegt, hve margir hafa öðlast þar mikla þekkingu á litlum tíma, og bera verk þeirra manna þeim góðan vitnisburð. Jeg þekki skólann frá fornu fari, og þykist því fær að dæma um þetta.

Einn alþýðuskóli hjer í bænum hefir notið styrks, sem nefndin vill láta falla niður. Þessi skóli veitir ungu fólki fræðslu í tómstundum þess á kvöldin, og getur það sannarlega ekki kallast óþörf starfsemi, og óvíst, að þetta fólk verði tómstundum sínum betur. Jeg get því ekki fallist á till. nefndarinnar í þessu efni.

Þá vil jeg að endingu minnast á þá till. nefndarinnar, að lækka styrkinn til íþróttasambandsins og ungmennafjelaganna. Jeg vona, að háttv. deild fallist ekki á þetta. Þessi fjelagsskapur er hvorttveggja svo ágætur og þarfur, að sjálfsagt er að virða hann og styrkja eftir föngum.

Þótt jeg hafi tekið fram þessi atriði, sem jeg er á öðru máli um en hv. fjvn., þá er jeg alls ekki að áfellast hana í heild, eins og jeg tók fram í upphafi máls míns. Jeg veit, að hún hefir samræmis vegna hagað till. sínum á þann hátt, sem jeg hefi hjer tekið fram. Og jeg hygg, að þó að einhverju leyti verði vikið frá till. hennar, að það verði ekki svo stórvægilegt, að samræmi það, er hún hefir viljað gæta, raskist.