11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Jeg veit ekki hvort jeg hefi skilið það rjett, að hv. 1. landsk. þm. (SE) áliti, að með þessu frv. sje gengið inn á þá braut að hætta að safna í landhelgissjóðinn. Ef svo er, þá er jeg hræddur um, að þetta sje nokkuð lausleg þýðing á frv. (SE: Er þetta flokksmál Íhaldsflokksins?). Nei, ekki mjer vitanlega.

Jeg get vel fallist á það, að ekki sje gott að þurfa að eyða úr sjóðnum til strandvarna nú þegar, og að betra væri að geta komist hjá því. En jeg get ekki sjeð, hvernig hv. þm. (SE) ætlast til, að blásið verði lífi í strandvarnir okkar með þeim tækjum, sem sje smábátum, sem notaðir hafa verið til að verja kafla og kafla af landhelginni, nema til þess verði veittur ríflegur styrkur.

Annars getur vel verið, að jeg líti nokkuð öðrum augum á strandgæslumálið í heild heldur en hv. 1. landsk. þm. og ýmsir aðrir. Þegar mál þetta hefir verið rætt bæði hjer á þingi og víðar, þá virðist venjulega það eitt hafa vakað fyrir mönnum, að hægt yrði að handtaka og sekta sem flest skip, sem staðin væru að ólöglegum veiðum í landhelgi. Þessi hugsjón hefir svo byrgt fyrir mönnum alla útsýn til hins, sem er þó engu minna virði, sem sje að verja landhelgina fyrir ágangi botnvörpunga og með því móti fá því til vegar komið, að smáskipa- og bátaútvegurinn fái notið miðanna betur en ella. Jeg verð að halda því fram, að þetta sje þýðingarmesta atriðið í allri landhelgisgæslu. Þetta atriði skiftir mestu máli: að landsmenn hafi gagn af gæslunni fyrir sínar eigin fiskiveiðar. Hitt skiftir aftur á móti ekki eins miklu máli, hvort endrum og eins takist að handsama sökudólg. Út frá þessu sjónarmiði er eðlilegt, að jeg leggi ekki eins mikla áherslu á þetta fullkomna strandgæsluskip, sem hv. 1. landsk. talar svo mikið um. Því að þegar hann er að tala um þetta skip, þá finst mjer hann eiga svo mjög við einhvern „dreadnought“, mjög hraðskreiðan, sem fyrst og fremst eigi að hremma togara og sekta þá, en svo geri aftur á móti minna til, þó að hann liggi síðan á lárberjunum á höfnum inni þess á milli. Menn halda víst, að hinir togararnir, sem sluppu, liggi með „skrekkinn“ á meðan einhversstaðar úti á reginhafi. Nei, ónei. Þeir munu aldrei vera öruggari að veiðum í landhelgi en einmitt á meðan varðskipið fer með einhvern sökudólg til hafnar, til þess að fá hann sektaðan, því að það tekur oftast 2–3 daga a. m. k. — Þetta hefir nú kannske verið útúrdúr. Jeg bjóst ekki við því, að svo yrði tekið í mál þetta, sem raun er á orðin, og hefi því ekki búið mig undir löng ræðuhöld að sinni. En jeg gat ekki setið hjá þeim óskum hv. 1. landsk., að frv. yrði lagt niður við trogið nú þegar. Jeg hefi því aðallega staðið upp til þess að mælast til, að því verði vísað til nefndar. Jeg held, að það sje vel þess vert, að athugað verði í nefnd, hvort ekki geti komið til mála að nota eitthvað af sektarfjenu til þess að bæta strandvarnir okkar á meðan við erum að búa okkur undir að fá fullkomið skip til þeirra, svo sem sýnilega er ætlast til í framtíðinni. Einmitt þessi ráðstöfun, að auka okkar eigin strandvarnir, getur hæglega orðið til þess, að meira sektarfje falli til, og enda mjög sennilegt, að svo verði. Er því ekki hægt að sanna fyrirfram, að landhelgissjóðurinn tapi nokkru við þessa ráðstöfun. Láti nú nokkuð eftir því, sem hjer er haldið fram, þá er tvent unnið með breytingu þeirri, sem frv. fer fram á. Í fyrsta lagi verða strandvarnirnar auknar, og í öðru lagi eru fullar líkur fyrir því, að sjóðurinn græði fremur en tapi á breytingunni.