26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera langorður um þetta mál, því að fyrst og fremst var það rætt allmikið hjer við 1. umr., og í öðru lagi hefir sjútvn., á þskj. 435, tekið fram þær ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir því, að hún leggur til, að frv. verði samþykt. Það er rjett að geta þess, að háttv. 2. þm. S.-M. (IP) var einna tregastur okkar nefndarmanna til þess að fylgja frv. óbreyttu, og fjellumst við hinir nefndarmennirnir á þá skoðun hans, að að rjettu lagi ætti ekki að skerða landhelgissjóðinn fyr en væntanlegt strandvarnaskip yrði bygt. En vegna sjerstakra fjárhagsörðugleika ríkissjóðs og þar sem því verður ekki mótmælt, að mikið má efla landhelgisgæsluna, með því að leggja fram meira fje til hennar, kom okkur saman um að leggja til, að frv. yrði samþykt, en tökum það jafnframt fram, að þetta beri að skoða sem bráðabirgðaráðstöfun, en ekki sem framtíðarfyrirkomulag. Á þessum grundvelli leggur nefndin því til, að frv. verði samþykt.