26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg á nokkrar brtt. við þennan kafla, sumpart einn og sumpart með öðrum háttv. þm., og vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær. Brtt. mínar eru þess eðlis, að þær hafa mætt misjöfnum dómum hjá ýmsum hv. þm. Að vísu eru þær velflestar í sparnaðaráttina, og allar þær, er máli skifta, og ætti þeim því að vera vel tekið, ef sparnaðarhjal háttv. þm. er annars á nokkrum rökum bygt. En hjer fer sem fyrrum, að hvar sem hendi er niður drepið til að færa saman útgjöld, er það talið óframkvæmanlegt; mönnum finst þá gengið of nærri sjer og hagsmunum sínum.

Fyrstu brtt., er jeg vildi minnast á, flyt jeg ásamt 4 öðrum hv. þm. Fer hún fram á, að styrkurinn til verslunarskólanna tveggja verði feldur niður. Jeg býst við, að jeg tali í fullu samræmi við skoðun hv. meðflm. minna, þegar jeg segi, að vjer teljum fjárhag ríkisins þannig háttað nú sem stendur, að það geti ekki haldið áfram að leggja fram styrk til þessara skóla. Og það því fremur, sem nú er orðið svo mikið um vel hæft verslunarfólk í landinu, að vel mætti þessi kensla falla niður 4 eða 5 ár þeirra hluta vegna.

Hv. þm. Str. (TrÞ) mælti á móti þessari tillögu, og þá einkum vegna samvinnuskólans. Jeg finn ástæðu til að lýsa yfir að jeg stend nær þeim mönnum, sem efla vilja samvinnu og styðja þá sjálfsögðu sjálfsbjargarviðleitni bænda, heldur en kaupmönnum, þó að jeg vilji hinsvegar, að þeir sjeu látnir óáreittir. Hv. þm. benti á til stuðnings samvinnuskólanum, að nemendur hans dreifðust út um sveitirnar, gerðust þar forystumenn bænda og leiddu þá í allan sannleika um þessa stefnu. Mjer þykir leitt, að hv. þm. skuli ekki vera hjer staddur, svo að hann geti heyrt mál mitt, en jeg býst þó við, að jeg muni ekki mæla síður vingjarnlegum orðum í hans garð en hann í minn áðan. Það er síður en svo, að jeg sje að amast við þessum skólum. Jeg tel þá báða verslunarskóla, sem menta eigi verslunarstjettina, þó að með ólíku fyrirkomulagi sjeu. Jeg er ekki alveg samdóma hv. þm. Str., sem jeg tel einn af best hugsandi samvinnumönnum hjer á landi, að nemendur samvinnuskólans, sem dreifast út um sveitirnar, verði svo miklar máttarstoðir þessarar stefnu, að skólinn sje af þeirri ástæðu nauðsynlegur oss bændum. Eftir því sem jeg hefi frjett af sumum þessum mönnum, hygg jeg, að þeir álíti sig hafa fengið svo mikla mentun og vísdóm, að meira þurfi ekki, og að þeir sjeu komnir yfir að finna það, að menn eru því hygnari eftir því sem þeir finna sig vanta meira.

Hv. þm. bar saman tímakaupið í þessum 2 skólum, að það væri 1 kr. í samvinnuskólanum, eða hann hefði kent þar fyrir það kaup, en 3 kr. í verslunarskólanum. (TrÞ: Jeg nefndi kvennaskólann, en ekki verslunarskólann). Jeg bið velvirðingar, ef njer hefir misheyrst, en þá get jeg komið að samanburði á þeim 2 skólum. Til dæmis má bera saman laun hins mikilsvirta skólastjóra samvinnuskólans, sem eru 8500 kr., og laun forstöðukonu kvennaskólans, sem eru 1500 kr. á ári. Þarna hallar ekki minna en á tímakenslunni. Þó að háttv. þm. Str. kenni í samvinnuskólanum fyrir 1 kr. um tímann, af því að skólinn er óskabarn hans, þá má hann ekki telja það ofgreitt, þó að borgað sje á fjórðu krónu fyrir tímakenslu í kvennaskólanum, ef það er í samræmi við hið almenna kaup fyrir tímakenslu, sem greitt er við skólana. Jeg skal ekki gerast hjer talsmaður kvennaskólans, enda munu þeir margir hjer í hv. deild. En þó vil jeg minna á, að þegar litið er á það mjög svo lága kaup forstöðukonunnar, sem sannar, að hún hefir tekið ástfóstri við skólann, þá er ekki sennilegt, að hún greiði meira fyrir tímakenslu en nauðsynlegt er. Annars skal jeg geta þess, að jeg veit þess dæmi, að nemendur frá samvinnuskólanum hafa fallið frá stefnu hans og gerst sjálfir kaupmenn eða gerst þjónar hjá kaupmönnum, og er þetta ekki sagt þeim til hnjóðs.

Að síðustu vil jeg endurtaka, að það er síður en svo, að jeg hafi tilhneigingu til þess að ráðast á þessa skóla, en það eru fjárhagsvandræði ríkissjóðs, sem valda því, að þessi brtt. er fram komin.

Jeg hefði gjarnan viljað fara lengra í ýmsum öðrum liðum og tel jeg, að hv. fjvn. hafi of óvíða árætt að drepa niður hendi til sparnaðar, mjer liggur við að segja af ótta við það, að hún kynni að verða óvinsæl. Jeg hygg, að það mætti telja sambærilegt við aðrar tillögur hv. fjvn., ef hún hefði t. d. lagt til að lækka að mun styrkinn til stýrimannaskólans, án þess að jeg eigi þar við, að taka skuli laun af fastakennurum skólans.

Jeg skal þá víkja að XXIII. brtt. á þskj. 196, um að fella niður styrkinn til búnaðarfjelaganna. Jeg skal strax taka það fram viðvíkjandi því, er hv. þm. Str. gat sjer til eða spurðist fyrir um, hvort þessi brtt. væri borin fram að undirlagi einhvers hluta eða allrar landbn., að tillagan styðst alls ekki við þá nefnd. Falli því einhver blettur á heiður minn fyrir flutning þessarar brtt., þá er skjöldur hv. meðnefndarmanna minna óflekkaður af þeim sökum. Það er rjett, sem hv. þm. Str. gat sjer til, að jeg flyt ekki þessa brtt. af því, að mjer sje í nöp við landbúnaðinn. Jeg er alinn upp við hann, lifi við hann og býst við að deyja frá honum. En þegar hv. fjvn. hefir lagt til, að þessi styrkur verði lækkaður niður í 10 þús. kr., sem jeg vil síst ámæla henni fyrir, þá finst mjer sníkjuháttur af bændum að seilast eftir jafnlítilli upphæð úr ríkissjóði, þegar hagur hans er eins þröngur og allir vita. Jeg skal þó geta þess, að brtt. mín á við upphæðina í stjfrv., 20 þús. kr., en sú upphæð er einnig svo lítil fyrir landbúnaðinn, að jeg tel, að hún muni ekki koma að neinu haldi. Enda held jeg því fast fram, að búnaðarfjelögin muni ekkert um að fá 10–15 aura á dagsverk, og þó að þessum styrk sje kipt í burtu, muni það á engan hátt spilla fyrir áhuga manna í umbótum á jarðrækt eða öðru, sem að búnaði lýtur.

Jeg verð að halda því fram, að sparnaðartillögur ættu helst að koma frá oss bændum, og ættum vjer þá síst að mæla á móti sparnaði í því, sem veit að oss sjálfum. Vjer skiljum best, hve brýn nauðsyn er á sparnaði, og ættum vjer því ekki að kippa oss upp við það, þó að hann bitni einnig á oss. Í sambandi við þetta skal jeg minna á, að þegar jarðræktarlögin koma til framkvæmda, getum vjer bændur búist við meiri fjárframlögum úr ríkissjóði, og er því síður ástæða til að sjá eftir, þó að þessi upphæð fjelli niður, þótt henni yrði að vísu varið til annars en fjárveitinga eftir jarðræktarlögunum.

Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa tillögu. Hún er borin fram af þeim hug, sem jeg hefi nú lýst, og þrátt fyrir þann mikla vilvilja, sem jeg þykist vita að sje í huga háttv. þm. Str. gagnvart landbúnaðinum, þá er hann þó ekki meiri en í mínu eigin brjósti, þó að hv. þm. hafi látið það koma betur í ljós skjallega, enda hefir hann miklu betri aðstöðu til þess. Jeg legg brtt. undir dóm hv. deildar. Þykist jeg hafa sýnt sjálfsafneitun í því að bera hana fram, og mun jeg greiða henni atkvæði mitt. Meira get jeg ekki gert.

Þá á jeg 2 brtt. ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), og þó að hann sje aðalfm. að þeim báðum, skal jeg samt fara nokkrum orðum um þær af sjerstökum ástæðum.

Önnur brtt. er um að lækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands niður í 120 þús. kr. Jeg skal geta þess, að heima í kjördæmi mínu var þetta atriði rætt á ýmsum fundum, og komu fram margar tillögur um það, er nokkrar gengu miklu lengra en þessi brtt., og sumar svo langt, að jeg hefði á engan hátt getað aðhylst þær. Því að jeg veit, að Búnaðarfjelag Íslands hefir látið margt gott af sjer leiða, enda viljum við flm. ekki hnekkja því á neinn hátt með brtt. okkar. En við teljum sjálfsagt, að hins mesta sparnaðar sje gætt gagnvart Búnaðarfjelaginu og Fiskifjelaginu, ekki síður en í öðrum efnum Þetta er óhjákvæmilegt, þegar í það öngþveiti er komið, að menn geta ekki veitt sjer það nauðsynlegasta, en verða að hugsa um það eitt, að draga fram lífið.

Jeg hefi ekki sjeð reikninga Búnaðarfjelagsins og veit því ekki fyllilega, til hvers þessu fje er varið. En með hliðsjón af því, sem jeg hefi heyrt, að rúmar 50 þús. kr. sjeu greiddar til ráðunauta, er eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort bændur fái þann kostnað endurgoldinn og hvort fræðsla þessara manna sje svona mikils virði. Jeg viðurkenni, að jeg get ekki fullkomlega dæmt um þetta, en þó að jeg geti ekki stutt það með rökum, leyfi jeg mjer að halda því fram, að hún sje ekki svo mikils virði, að ekki sje rjett að takmarka hana, eins og fjárhag ríkisins er komið nú. Það er með sjerstöku tilliti til þessa ráðunautaþunga, sem við flm. flytjum þessa brtt.

Um launakjör þessara manna veit jeg ekki, en þykir fróðlegt að geta þess, að laun forseta Búnaðarfjelagsins eru 8 þús. kr., og er ekkert við því að segja. Aftur á móti þykir mjer ferðakostnaður hans allhár, þar sem hann var á síðastliðnu ári 2747 kr. Þóknun til stjórnarmanna var 1250 kr., og er það hóflegt, en skrifstofukostnaður varð 10748 kr. Mjer er ókunnugt um þetta skrifstofuhald, en það virðist alldýrt, í samanburði við sumar aðrar skrifstofur, sem opnar eru alt árið. Og sje nokkur hæfa í þessu, er síst ástæða fyrir mig eða aðra að vera óánægðir með skrifstofukostnað annarsstaðar. Stjórnarkostnaður fjelagsins er því nær 23000 kr., auk þess sem búnaðarþingið kostaði rúmlega 3000 kr.

Jeg hefi fengið þessar upplýsingar alveg nýlega, og býst jeg við, að þær sjeu rjettar. Af þeim sjest, að um 60–70 þús. kr. fara í hreinan kostnað til stjórnarhalds og ráðunauta. Og þó að ráðunautarnir veiti mönnum fræðslu, efast jeg um, að hún sje 50 þús. kr. (hjer með talinn ferðakostnaður) virði á ári, þótt erfitt sje að meta hana til fjár. Það er tilgangur minn með þessu að benda á, að fjelagið hafi of marga ráðunauta. Er það ekki sagt til að ámæla forseta fjelagsins, því að jeg efast ekki um, að hann vilji fjelaginu og öllu landinu alt hið besta. En mjer er óskiljanlegt, að meiri sparnaðar skuli ekki hafa verið gætt í þessu, eins og nú stendur á. Að segja, að það sje hart af bónda að flytja slíka brtt., er ekki frambærileg ástæða. Slíkt slagorð hefir engin áhrif á mig.

Það, sem jeg hefi nú sagt um lækkun styrksins til Búnaðarfjelagsins, á eins vel við brtt. okkar hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um lækkun á styrknum til Fiskifjelagsins. Við höfum farið sömu leið sem gagnvart Búnaðarfjelaginu, að við förum fram á hóflega lækkun. Það verður því ekki sagt með nokkru móti, að við viljum draga taum annars atvinnuvegarins frekar en hins. Vil jeg enda mál mitt um þessar 2 brtt. með þeim orðum, að jeg vildi óska, að efnahag ríkissjóðs væri þann veg farið, að auðið væri að veita nokkur hundruð þúsunda til eflingar atvinnuvegunum, og því fje væri þá varið til þeirra hygginda, sem í hag kæmu, en ekki kastað á glæ. En leikið hefir orð á því um Fiskifjelagið, að mikill hluti styrksins færi í stjórnarkostnað. Á þar því sama við og jeg hefi sagt um Búnaðarfjelagið. Annars sannast það oft, að það fara ekki æfinlega saman hyggindi, sem í hag koma, og vilji á því að verða að góðu liði sem forráðamaður þess, er gera skal.

Jeg hefi ekki gengið þess dulinn, að slíkar tillögur sem þessar muni verða til þess, að sagt verður, að sá bóndi, sem leyfir sjer að bera þær fram, sje fífl og andstæðingur sinnar eigin stjettar. Jeg er nú orðinn svo veraldarvanur, að jeg mundi ekki kippa mjer upp við slík svigurmæli, þó að þeim yrði beint að mjer eða sögð um mig að baki, sem sennilegra er að verða mundi, því að menn eru öllu vanari að beita vígtönnunum að baki manna en framan að þeim. Jeg læt mjer á sama standa um það.

Þá hefi jeg ennþá leyft mjer að bera fram brtt. ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), undir lið XXVIII, við 16. gr. Jeg býst við, að jeg geti látið mjer nægja það, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði um þessa brtt. í gær, og það, sem hv. aðalflm. segir um hana þegar hann væntanlega tekur til máls. Jeg tel, að fje því, sem ætlað er til markaðsleitar fyrir íslenskar afurðir, sje vel varið, og jeg vænti því, að hv. þm. taki þessari till. vel, þótt hún að vísu miði í útgjaldaáttina. Jeg skal aðeins taka það fram, að jeg flyt till. með það fyrir augum, að aðaláherslan verði lögð á að leita markaðs fyrir kjöt. Er mjög nauðsynlegt, að tilraunir verði gerðar í þessa átt. Hinsvegar hefir svo mikið verið gert að þessu hvað sjávarafurðir snertir, að jeg tel, að vel megi við það una nú sem stendur.

Þá kem jeg að brtt. minni undir lið XXXII, við 18. gr. II. e. 12. Er þetta raunar nýr útgjaldaliður, en svo smávægilegur, að sumir hv. þm. hafa jafnvel hent gaman að því. En till. fer fram á, að Guðmundi Björnssyni barnakennara á Bíldudal verði veittar 100 kr. á ári í viðurkenningarskyni fyrir langt og vel unnið starf í þágu barnafræðslunnar. Hann hefir verið barnakennari í 35 ár og lagt alla sína krafta fram til þess, og það af áhuga fyrir málefninu, en lengstum borið lítið úr býtum. Hann er maður að miklu leyti sjálfmentaður, að öðru leyti en því, að hann hefir tekið próf við búnaðarskólann í Ólafsdal, og hefir unnið að barnafræðslunni á þjóðlegum grundvelli. Og jeg held, að allir geti orðið mjer sammála um það, að þeir menn sjeu viðurkenningarverðir, sem í kyrþey hlynna að heimafræðslunni og sem lausir við alla eigingirni kosta kapps um að rækta hugtún þjóðarinnar.

Eins og öllum er kunnugt, hafa ekki alls fyrir löngu verið gerðar þær breytingar á barnafræðslunni, að þeir einir eiga kost á kennarastöðu, sem hafa átt völ á því að ganga í skóla og ljúka kennaraprófi. Þetta hefir heldur ekki farið framhjá þeim manni, sem hjer um ræðir. Eins og jeg gat áður um, hefir hann stundað kenslustörf mjög lengi, fyrst og fremst frá 1889 til 1907, er fræðslulögin gengu í gildi, og þó jafnan nokkuð síðan, og seinast í vetur hefir hann tekið nokkur börn til kenslu. Hlutskifti hans síðari árin hefir aðallega verið það, að taka að sjer þau börnin, sem námið hefir gengið stirðast, og geta allir, sem nokkuð þekkja til kenslu, gert sjer í hugarlund, hversu aðlaðandi starf það sje. Hann hafði nú fyrst hugsað sjer að fara fram á að njóta sömu rjettinda sem aðrir barnakennarar, og fór jeg í þeim erindum til fræðslumálastjóra og kennara hjer í bæ, sem helst hafa um þau efni að segja. Jeg verð að segja, að þeir vildu gera alt, sem í þeirra valdi stóð, fyrir hann, en það strandaði á því, að hann hafði ekki borgað í styrktarsjóð kennara. Annars hefði jeg ekki leitað til þingsins með þetta, því mjer er óljúft að vera bónbjargamaður. En jeg er þess fullviss, að þetta er maður, sem er frekar þess verðugur en óverðugur, að þingið sýni honum samhug sinn með því að veita honum þessa litlu upphæð.

Eins og jeg gat um áður, þá veit jeg til þess, að sumir hv. þm. eru hissa á því, að farið skuli vera fram á svona litla fjárhæð. En hins ber þó að gæta, að fyrir gamla menn, sem sjaldan hafa haft úr miklu að spila og beygðir eru af elli og harmi, þá eru 100 kr. þó nokkurs virði í þeirra augum. En það skal jeg taka fram, að jeg hefði viljað hafa upphæðina miklu hærri, því þess tel jeg viðkomandi mann maklegan, en fjárhagsins vegna fór jeg ekki lengra en þetta.

Að lokum skal jeg láta þess getið, að jeg hefi í höndum vottorð frá sóknarpresti, sem styður mjög þessi ummæli mín.

Þá hefi jeg farið nokkrum orðum um brtt. mínar. Það er mjer mjög fjarri að vilja sýna hv. fjvn. nokkra áreitni, en get þó ekki að því gert, að mjer finst hún hafi sumstaðar farið of langt í því að færa fram áætlun stjórnarinnar útgjaldamegin. Þannig áætlar hún búnaðarskólanum á Hólum 3000 kr. til ljóss og hita, í stað 2500 kr. í áætlun stjórnarinnar. Sama lið við Hvanneyrarskólann færir hún fram um 1000 kr. frá því sem stjórnin hefir áætlað, úr 2000 kr. upp í 3000 kr., og ljós og hita við Eiðaskólann úr 2500 kr. í 3500 kr. Jeg efa ekki, að hv. fjvn. hafi gert þetta vegna þess að hún ætli, að þessar upphæðir fari til þessa. En mundu ekki þessar stofnanir reyna að fara gætilegar í þessari eyðslu, ef þær vissu, að meira fje væri ekki áætlað í þessu skyni? Það er á þessu sviði eins og öllum öðrum, að gæta verður hins fylsta sparnaðar, og því er ekki rjett að gefa mönnum undir fótinn með of háum áætlunum. Mun jeg því greiða atkvæði móti þessum brtt. hv. fjvn.

Jeg vil ekki tefja tímann með löngum umræðum. Má og vel vera, að þessi orð mín hafi valdið því, að einhverjir finni sig knúða til að mótmæla, og gefst mjer þá væntanlega færi á að svara aftur. Annars hefi jeg ekki trú á því, að langar umræður hafi mikla þýðingu, því jeg geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. viti nokkurnveginn strax, hverju þeir verði með og hverju á móti, þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur.