04.03.1924
Neðri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Það ætti ekki að vera óþakklátt verk að bera fram frv. þetta, því þótt það sje skýr og greinileg skylda löggjafarvaldsins að stuðla að því, að kjósandi geti á sem fylstan hátt notað kosningarrjett sinn, þá er það þó á hinn veginn jafnsjálfsögð skylda að gera það á þann veg, að ekki sje til beinnar spillingar. En kosningalögin frá síðasta þingi hafa í því efni reynst miður heppileg. Tilgangur laganna, með því að leyfa hinar svo nefndu heimakosningar, þ. e. a. s., að kjósandi fái að kjósa heima, ef hann vegna sjúkdóms- eða annara forfalla kemst ekki á kjörstað, er að vísu góður og rjettmætur, og frá mínu sjónarmiði ekkert hægt að mæla í gegn honum, fyr en hægt er að sanna, að hann nái ekki markmiði sínu nema með misbrúkun. Og nú virðist það auðsætt af kosningakærum þeim, sem komu fyrir þingið, að svo hefir verið. Það hefir sem sagt komið í ljós, að lögin hafa verið herfilega misbrúkuð í þessu efni við síðustu kosningar.

Það er og vitanlegt, að máttur löggjafarvaldsins til þess að varðveita menn fyrir ýmsum óhöppum nær afarskamt. Menn á öllum sviðum verða bótalaust að þola ýmsar misfellur af sjúkdómum, og oft er þeim þannig kipt frá ýmsu, sem þeim er ekki síður nauðsynlegt að nota en kosningarrjettinn. Jeg tel því kjósendum alls ekki misboðið, nje þeir lítilsvirtir, þó lögin gangi ekki svo langt, sem þau nú gera. Líka má benda á það, að hagur kjósenda er alls ekki fulltrygður með þessu. Veikist t. d. þingmaður, sem kjósendur hafa á þing kosið, meðan á þingtíma stendur, tekur enginn sæti hans, heldur verður kjördæmið þingmannslaust og án nokkurs til að gæta rjettar síns, og mætti vel ganga á undan að bæta úr þessu fyrir kjósendum.

Tilgangur laganna næst og ekki. Læknum er gert að skyldu að skera úr, hvort kjósandi geti farið á kjörfund eða ekki, en þar sem hrepparnir eru stórir, getur læknir ómögulega komið því við að fara um þá alla, og því verða að gegna þessum læknisskyldum þeir menn, er ekki bera skyn á sjúkdóma. Það kom og fram í kosningakærum út af síðustu kosningum, að læknar eru illa settir hvað vottorðin snertir, sjeu þeir ákafir flokksmenn. Og fyrir kom það, að læknir vildi ekki gefa þeim vottorð, sem ætlaði að kjósa þann frambjóðandann, sem læknirinn var á móti. Sýnir það, að læknirinn er ekki heppilegur aðili í málum þessum, þegar hörð er kosningabaráttan.

Grundvöllur laganna er líka ótraustur. Kjósandinn getur sagt sem svo við lækninn eða hreppstjórann: Jeg get ekki sótt kjörfund, ef vont veður verður. Nú vita þeir heldur ekki um það, og geta því leiðst til að gefa þeim vottorð, sem alls ekki eiga að fá þau. Eins er ekki rjett að heimta af hreppstjórum, að þeir sjeu færir um að gefa vottorð, sje um sjúkdóm að ræða. Enn er ein ástæða — og tel jeg fyrir mitt leyti hana eina nægilega til þess að sýna, að lögin eru órjettmæt — með þessum heimakosningum er dreginn mergurinn úr kosningalögunum, eyðilagður kjarni þeirra. Jeg býst við, að allir sjeu mjer sammála um, að það sje aðalatriði leynilegra kosninga, að þær varðveita sannfæringu kjósenda. Því þótt jeg geti gefið það eftir, að ýmsir geti hallast og hneigst í ýmsar áttir í kosningabaráttunni, þegar sótt er á þá af pólitískum stefnum úr öllum áttum, þá er þó kjósandi ekki látinn undirskrifa neitt fyr en á kjördegi. Og víst er það, að hvernig sem málið hefir verið sótt og varið og hverju sem hann hefir lofað, þá kýs hann þó í kjörklefanum aðeins eftir sinni sannfæring. Og þessi leynd yfir atkvæði hans, það er stóra atriðið í kosningalögunum, sem ekki má hagga við.

En kjósandinn, sem heima kýs, hann verður að taka ákvörðun strax og láta uppi atkvæði sitt, og þó honum síðar kynni að snúast hugur, þegar kosningasmalarnir væru farnir, þá er búið að fyrirbyggja, að hann geti kosið eftir sannfæringu sinni.

Jeg þarf ekki að taka það fram, því hv. þm. er það fyllilega kunnugt af kosningakærunum, að mönnum hefir verið neitað að kjósa heima nema þeir kysu vissan frambjóðanda; eins hitt, að öðrum hefir verið þröngvað til að kjósa heima, sem er jafnóheimilt. Og hefir þetta vitanlega átt sjer víðar stað en þar, sem yfir því var kært. Af þessum ástæðum telja flm., að lögin beri að fella úr gildi hvað heimakosningarnar snertir, þar eð búast megi við 10 ósjálfráðum atkvæðum fyrir 1, sem heima yrði að sitja. Og ósjálfráðu atkvæðin gætu margfaldast, því líklegt er, að misbrúkunin ykist.

Hinsvegar verður að gera eitthvað til að greiða fyrir kjósendum að sækja kjörfund. Hallast jeg þá helst að því að skifta hreppunum í kjördeildir, og vil jeg vinna alt, sem jeg má, að því að koma þeim lögum á. Ef það kæmist á, þyrftu mjög fáir kjósendur að sitja heima, og næðist tilgangur kosningalaganna þá miklu betur en láta þetta atriði gilda lengur, sem þegar er sýnt, að nær ekki tilgangi sínum.

Leyfi jeg mjer að fara þess á leit, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar að lokinni umræðunni.