26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki fara út í almennar umræður um fjárlögin nú, þó til þess væri nokkur ástæða. Skal jeg því aðeins minnast á einstaka brtt., sem jeg flyt ásamt öðrum háttv. þm. Um þær get jeg þó verið stuttorður, þar sem hv. meðflutningsmenn mínir hafa þegar minst þeirra að nokkru leyti.

Vil jeg þá fyrst minnast á brtt. okkar háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 196, XXVII, um hækkun á fje til markaðsleitar erlendis fyrir íslenskar afurðir. Þessi tillaga hefir þegar sætt andmælum frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem aðallega voru bygð á því, að undanfarið hafi verið gert eins mikið í því og hægt hafi verið. En þar til er því að svara, að „sjaldan fellur eik við fyrsta högg,“ og þó að mikið sje ef til vill búið að gera í þessu efni, er ótrúlegt, að ekki sje hægt að gera meira. Og með þeim hugsunarhætti, að gefast þegar upp eftir fyrstu tilraun, verður sjaldan komist langt. Jeg vil benda á, að bættir markaðir og markaðsskilyrði eru sama sem aukin fram leiðsla, og aukin einmitt á hinn hagkvæmasta hátt, því að sú aukaframleiðsla er fljótfengnust og fæst án verulega aukins erfiðis. Aukin framleiðsla í þessum og öðrum skilningi bætir aftur efnahag þjóðarinnar, og bættur efnahagur eykur tekjur í ríkissjóð. Það gæti því blátt áfram verið praktiskt mál fyrir ríkissjóðinn að veita það fje, sem tillagan fer fram á.

Jeg lít svo á, að sjerstaklega sje ástæða til að leggja mikla alúð við þetta. Fyrst og fremst fyrir þá sök, að bannmenn krefjast mjög eindregið, að gert sje alt, sem mögulegt er, til þess að leitast fyrir um markað fyrir íslenskan saltfisk, svo að hægt sje að losna undan oki Spánverja. Og í öðru lagi hin knýjandi nauðsyn þess að leitast fyrir um bætt markaðsskilyrði fyrir íslenska saltkjötið.

Þá sný jeg mjer að brtt. okkar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 196, XXXV, um alt að 200 þús. kr. ábyrgð fyrir klæðaverksmiðju á Austurlandi. Hv. meðflutningsmaður minn hefir nú minst á hana, og get jeg því verið stuttorður. Menn hafa altaf nú á síðari tímum sannfærst meir og meir um það, að það væri lífsskilyrði fyrir þjóðirnar að vera sem mest sjálfum sjer nógar. Um þetta hafa menn sannfærst nú á síðustu tímum, m. a. af hinu mikla tollastríði þjóða á milli.

Í þessu atriði erum við illa settir, þar sem framleiðsluvörur okkar eru svo fáar. En því meir knýjandi er ástæðan til að reyna að gera þær sem fjölbreyttastar, og vil jeg í því sambandi minna á ullariðnaðinn, sem ennþá er á mjög lágu stigi hjá okkur, þar sem við sendum mestalla ull okkar út úr landinu sem hrávöru, en flytjum aftur inn ógrynni af allskonar vefnaðarvöru, og borgum þannig útlendingum öll vinnulaunin. Þetta er alkunnugt og margviðurkent af öllum, og þar á meðal þinginu, því að á mörgum síðari þingum hefir verið stutt að því að reyna að vekja áhuga fyrir því að auka hinn innlenda ullariðnað. Með það fyrir augum skipaði þingið milliþinganefnd, til þess að gera tillögur í þessu máli, sem hún hefir nú fyrir nokkru skilað. Um þær skal jeg ekkert tala hjer.

Á Austurlandi hefir verið mikill áhugi á þessu ullariðnaðarmáli og skilningur á þeirri miklu þýðingu, sem það hefir, bæði fyrir hag einstaklingsins og þjóðarinnar í heild sinni. Hafa Austfirðingar því látið rannsaka þar skilyrðin fyrir slíkri verksmiðju. Niðurstaða þessara rannsókna hefir orðið sú, að staðhættir eru taldir þar góðir, ágæt aðstaða með vatnsafl og ullarframleiðsla meir en næg, svo að hægt yrði að reka þar fullkomna verksmiðju. Stofnkostnaður verksmiðju á borð við Gefjuni, eða nokkru stærri, hefir af verkfræðingi verið áætlaður 500–600 þús. kr. Og áhuginn fyrir stofnun þessa fyrirtækis er svo mikill þar eystra, að þegar hefir safnast í hlutafje milli 80 og 90 þús. kr. aðeins í þremur hreppum.

Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að menn hafa ekki verið á einu máli um það, hvaða staður væri heppilegastur fyrir þessa verksmiðju, og hefir þó aðallega verið talað um Reyðarfjörð eða Seyðisfjörð. Þessir staðir hafa báðir líka aðstöðu til vatnsafls og samgangna á sjó, og er að því leyti ekki gott að gera upp á milli þeirra. Við flm. höfum bundið ábyrgðarheimild þessa við Reyðarfjörð, meðfram til þess að skera úr deilu þessari, svo að hún hamli ekki framgangi málsins. Líka lítum við svo á, að þar sjeu öllu betri skilyrði fyrir hendi hvað snertir samband og samgöngur við ullarframleiðendur, því að þaðan eru greiðastar samgöngur við Fljótsdalshjerað, sem er stærsta ullarframleiðsluhjerað Austurlands. Að ákveða þetta svona teljum við hafa þýðingu fyrir áhuga manna um hluttöku í fyrirtækinu.

Jeg mintist áðan lauslega á nefnd þá, sem sett var til að athuga þetta ullariðnaðarmál. Komst hún að þeirri niðurstöðu, að heppilegast myndi verða að hafa eina allsherjarullarverksmiðju fyrir alt land, en ekki fjórðungsverksmiðjur. Um þetta atriði eru vitanlega mjög skiftar skoðanir, en við flutningsmenn erum sammála um það, að velja beri fjórðungsverksmiðjurnar, því það er betur fallið til að efla áhuga almennings, vegna þess að þá geta menn verið í beinna og nánara sambandi við verksmiðjuna og þá mun hver fjórðungur reyna að búa að sinni verksmiðju. En aftur á móti er jeg hræddur um, ef aðeins væri ein allsherjarverksmiðja, þá myndi áhuginn ekki verða eins almennur, þar sem fjöldinn stæði svo langt frá verksmiðjunni. Gæti jafnvel farið svo, að hún vekti ekki meiri áhuga en erlendar verksmiðjur.

Þá er okkur það einnig nokkur þyrnir í augum, ef svo færi, að verksmiðja þessi yrði reist hjer í Reykjavík, því að eins og nú hagar til með útsvarsálagningar á landi hjer, eru engin takmörk fyrir því, hvað slíku fyrirtæki gæti orðið íþyngt með sköttum. Gæti það óneitanlega orðið til þess að draga úr heillavænlegum árangri hennar.

Það, sem við meðal annars höfðum í huga er við bárum fram þessa tillögu, var það, að fá þingið til að láta í ljós, hvort það vildi styðja að þessu máli og á þann hátt glæða og viðhalda áhuga fólksins fyrir því. Því að ella mætti búast við því, að almenningur misti alla von um, að fyrirtækið gæti komist í framkvæmd, og legði árar í bát.

Að því er snertir formið á brtt. okkar, þá höfum við farið fram á, að þingið veiti stjórninni heimild til þess aðeins að ábyrgjast ákveðinn hluta stofnkostnaðar. Í fjárlögum fyrir 1 eða 2 árum hjet þingið láni í þessu skyni, en okkur þótti ekki fært að fara fram á slíkt nú, og kusum því að hafa það aðeins ábyrgðarheimild.

Ef þingið lítur á þetta mál líkt því sem það hefir áður gert, hlýtur það að vilja styðja þessa viðleitni, og má jeg þá óhætt lofa því, að einstaklingarnir munu þá og leggja fram krafta sína til að koma þessu máli í framkvæmd.

Jeg þarf ekki að minnast á tillögu okkar hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), því að hún hefir verið tekin aftur. Annars er það mjög sanngjörn krafa, sem hjer var farið fram á, að presturinn á Skeggjastöðum fengi dálítinn viðbótarstyrk, þar sem hann hefir lagt fram úr sínum eigin vasa milli 10 og 20 þúsundir, en hefir ekki fengið nema 5 þús. króna framlag úr ríkissjóði, sem hann verður þó að borga fulla vexti af, og 5 þús. króna lán, sem á að endurborgast með vöxtum, og þetta til að reisa varanlegt hús á embættissetri, og öll umbótin — eins það, sem hann hefir lagt fram af eigin fje — er og verður eign ríkisins.

Jeg ætla þá þessu næst að minnast á ummæli hv. þm. Ak. (BL) um fjárveitinguna samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna. Þingmaðurinn komst svo að orði, að það væri óviðkunnanlegt að vera að kaupa bændur til að gera umbætur á sínum eigin jörðum. Jeg held, að það væri sönnu nær að snúa þessu við og segja, að þetta fje væri veitt sem lítill partur af endurgjaldi til bænda fyrir það að skila jörðum sínum — hvort sem væri í eigin ábúð eða leiguábúð — í betri rækt og yfir höfuð verðmætari til eftirkomandi þegna og borgara þjóðfjelagsins. Þetta er ekkert sjerstakt fyrir okkur hjer. Þetta er viðurkent og algengt alþjóðaráð, gert algerlega af þjóðhagslegum ástæðum. Þetta er gert með það fyrir augum að efla ræktun landsins og gera landið þannig í einu betra og byggilegra, gert til þess að færa út möguleikana fyrir því, að sem flestir geti lifað á landinu og við sem best kjör. Þeir, sem leggja fram fje til ræktunar, njóta þess ekki nema að parti sjálfir, en landinu er skilað verðmeiru og betra. Þetta er aðeins að skoða sem „praktiskt“ ráð til þess að auka meðaldugnað þeirra, sem við landbúnað fást. Það má auðvitað segja, að þessa þyrfti ekki við, ef allir væru fyrirmyndarmenn að dugnaði, en það verður að taka mennina eins og þeir eru. Jeg skal játa það, að ef jeg hefði jafnþröngan hugsunarhátt um þetta atriði eins og hv. þm. Ak. (BL), þá mundi jeg líta á þetta mál eins og hann, en því fer fjarri, að svo sje. Og þó að hann geti ekki eða vilji ekki skilja þetta, þá er það hans sök sjálfs og honum ekki of gott að berja höfðinu við steininn.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á fjárveitinguna til búnaðarfjelaganna, 10 þús. kr. Það hefir komið fram till. um að fella þessa fjárveitingu niður. Greri jeg það ekki að neinu kappsmáli, en jeg hygg þó, að rjettara væri að halda styrknum og skoða hann þá sem endurgjald til fjelaganna fyrir að láta mæla og gefa skýrslu um jarðabætur sínar. Tel jeg það nauðsynlegt fyrir hagfræðina.

Jeg vil nota tækifærið til þess að leiðrjetta ummæli hv. þm. Barð. (HK) út af styrknum til Búnaðarfjelagsins. Tók jeg svo eftir, að hann segði, að af styrknum færu 55 þús. kr. til launa ráðunauta fjelagsins. Jeg veit, að þetta er ekki rjett, og vil því ekki láta það óleiðrjett. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið um þetta, þá hafa laun ráðunauta ásamt búnaðarmálastjóra numið síðastliðið ár samtals 38400 kr., en fyrir yfirstandandi ár er búist við, að þau nemi kr. 34698,66. Við þetta er þó það að athuga, að ef þúfnabaninn verður starfræktur, þá er ekki búist við, að fjelagið greiði nema hálf laun eins ráðunautsins, og lækkar þá fjárhæðin niður í 32 þús. kr.

Að lokum vildi jeg beina þeirri spurningu til hv. fjvn., hvort hún áliti ekki ástæðu til að taka til athugunar til 3. umr., hvort ekki væri rjett að gera róttækari tillögur um sparnað fyrir ríkissjóð, því að hv. frsm. (ÞórJ) hefir lýst yfir því, að það væri mögulegt.