26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1925

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt. og get sem ýmsir aðrir háttv. þm. hælt mjer af því, að þær snerta lítið kjördæmi mitt. Jeg vildi þá fyrst minnast á brtt. viðvíkjandi lánsheimild til þess að kaupa tóvinnuvjelar. Slík lánsheimild hefir áður staðið í fjárlögum og komið að góðu gagni. Lít jeg svo á, að ekki beri að fella slíka heimild niður, því að Alþingi er að mínu viti skyldara að hvetja en letja menn til að efla tóvinnuna. Það hefir komið fram sú uppástunga, að heppilegt væri að reist yrði ein slík verksmiðja í nánd við Reykjavík. Skal jeg ekkert um það segja, hversu holt það væri, en jeg veit, að slíkt væri vel framkvæmanlegt og æskilegt úti um land. Slíkar verksmiðjur eru ekki nema á 2 stöðum á landinu. Kembingarvjelar eru undirstaðan undir heimilisiðnaðinum. Fyrst koma þær, svo spunavjelarnar, þá prjónavjelar og vefstólar, og eru kembingarvjelar þannig undirstaða heimilisiðnaðar. Tel jeg þessa leið mjög æskilega, í stað þess að flytja iðnaðinn burt frá heimilunum, og skapa með því verksmiðjulýð, sem nú er eitt hið mesta vandræðaviðfangsefni annara þjóða. Lánsheimild þessi er, eins og allar aðrar lánsheimildir, því skilyrði bundin, að ráðuneytið sjái sjer fært að veita lán. Frá fjárhagslegu sjónarmiði er því ekkert á móti till., en hinsvegar gæti hún orðið hvöt fyrir menn til eflingar tóvinnunni. Er sjerstök ástæða til slíkrar hvatar nú, því það er ekki gott að leggja innflutningsbann og verndartolla á slíka iðnaðarvöru án þess að þing og stjórn geri annað og meira til að efla iðnaðinn í landinu. Þinginu ber skylda til þess að gera landið sjálfu sjer nógt, eftir því sem hægt er.

Þá á jeg aðra brtt. um það, að taka aftur upp í fjárlögin styrk til handritaskrár Landsbókasafnsins. Jeg bar fram till. um það áður, að feld yrði niður fjárveitingin til að gefa út manntalið 1703, og jeg óskaði þess þá, að þeirri till. minni fylgdu ekki aðrir en þeir, sem ætluðu að fylgja mjer um hina. Þar sem handritaskráin er mikið nauðsynlegri en manntalið, sem nú er samþykt, þá er jeg öruggur um þessa till. mína. Um nauðsyn handritaskrárinnar þarf jeg ekki að tala sjerstaklega. Jeg veit, að hv. þm. er ljóst, hversu mikill fjársjóður liggur grafinn í handritasafni Landsbókasafnsins. Handritaskráin grefur upp þann fjársjóð til almenningsafnota.

Jeg vil svo leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. annara hv. þm. og brtt. hv. fjvn.Hv. fjvn. gerir það að till. sinni, að feldur verði niður styrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar til orðasöfnunar. Tel jeg það mjög óheppilegt, þar eð maður þessi vinnur að starfi, sem ilt er að fresta. Það væri hægt að fresta því með góðu móti, ef hjer væri um orðasöfnun úr bókum að ræða, en ekki úr hinu lifandi máli. Nú standa einmitt yfir miklir breytingatímar á menningarháttum þjóðarinnar; því ber mikla nauðsyn til að safna nú því, sem rammíslenskt er í málinu og ekki er í letur komið. Jeg skal játa það, að það eru margir líkir styrkir, sem verður að fella niður sakir fjárhagsörðugleika þjóðarinnar, en jeg er sannfærður um, að það megi síst fella þennan styrk niður. Jeg veit, að margir hafa skoðað styrk þennan sem bitling, en það er ekki rjett. Maður þessi vinnur ekki einn að orðasöfnuninni, heldur hefir hann um 300 menn úti um alt land sjer til hjálpar. Ef hann fengi ekki styrkinn, yrði þessi starfsemi að falla niður, því hann hefir þurft að ferðast mikið um landið vegna þessarar orðasöfnunar. Auk þess er Þórbergur Þórðarson merkilegur maður fyrir margra hluta sakir. Hann er skáld gott og hefir þar að auki skrifað upp sögur og önnur þjóðleg fræði. Er það trú mín, að hann muni verða talinn merkilegur maður í sögu þjóðarinnar engu síður en Ólafur Davíðsson og fleiri, sem þingið teldi sjer skylt að styrkja, ef lifðu. Vona jeg að hv. deild felli ekki styrkinn.

Þá er það annar styrkur, sem hv. fjvn. leggur til að verði feldur niður; en það er styrkurinn til ekkju Jóhanns heitins Sigurjónssonar skálds. Skil jeg ekki vel þá athugasemd hv. nefndar, er hún segir, að ekki sje vert að veita henni þennan styrk, vegna þeirra upplýsinga, sem fyrir liggi um hana. Mjer hefir altaf skilist svo, að styrkur þessi hafi ekki verið veittur konunni hennar vegna, heldur vegna ritfrægðar Jóhanns, og jeg fæ ekki sjeð, að sú ástæða sje fallin niður nú. Ef hv. nefnd á við það, að konan hefir lent í óláni, þá virðist mjer það frekar vera ástæða til að hækka styrkinn, en ekki að fella hann niður. Kona þessi var efnuð er hún giftist Jóhanni heitnum, en þau efni gengu til þurðar í búskap þeirra. Annars skal jeg ekkert um það segja, hvað satt er í því, sem blöðin hafa skýrt frá um konu þessa, en jeg hefi það eftir kunnugum manni, að frásagnirnar sjeu mjög ýktar. Konunni er að mörgu leyti vorkunn, því að eftir lát manns síns varð hún að flytja í versta hverfi Kaupmannahafnar — og þess geldur hún nú. Þær ástæður, sem hvöttu þingið til þess að veita henni þennan styrk, eru ekki fallnar niður; það var gert vegna Jóhanns heitins, sem hafði gert þjóðinni sóma með ritum sínum. Hann er ásamt fornsögum vorum og íslenskri síld — ef jeg mætti nefna hana í svo heiðarlegum „selskab“ — hið eina, sem miljónir manna þekkja frá Íslandi. Jeg vænti því, að þingið sjái sóma sinn og felli ekki þennan styrk niður.

Þá hefir hv. fjvn. gert till. um skólamál og leggur yfirleitt til, að úr þeim sje dregið. Vil jeg þá fyrst minnast á kennaranámsskeið, sem haldið er hjer á vorin. Það hefir hlotið styrk áður, en nú leggur hv. nefnd það til, að hann falli niður. En jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að styrkur þessi fer alls ekki í laun handa kennurum námsskeiðsins, því að þeir menn eru allir í þjónustu ríkisins. Hefði jeg skilið þessa till. hv. nefndar, ef styrkir til ýmsra annara skóla, t. d. námsskeiðs húsmæðra, sem líkt er ástatt um, hefðu verið lagðir niður. Með því að fella niður þennan styrk missir landið 6 vikna starf manna, sem eru í þjónustu þess hvort eð er. — Þá vildi jeg nefna það, að háttv. nefnd vill lækka styrkinn til iðnskólans. Er það mjög ómaklegt. Skólinn hefir nú starfað í 50 ár, en var gerður að föstum kvöldskóla fyrir 20 árum. Árin 1906–10 hafði skólinn 5 þús. kr. styrk, og verður því tæplega litið svo á, að 6 þús. kr. sje of mikið nú. Njóta margir menn kenslu við skólann, enda hefir því verið lýst yfir í þessari hv. deild, að skólinn gerði mjög mikið gagn. Hafa iðnaðarmenn lagt á sig þá kvöð að greiða 75 kr. á ári með hverjum nemanda, sem skólann sækir, og er það eigi lítil fjárhæð. Það hefir áður verið minst á samvinnuskólann. Hefir hv. fjvn. lagt það til, að styrkurinn til hans yrði lækkaður um sömu fjárhæð og styrkurinn til iðnskólans. Jeg vildi aðeins geta þess í þessu sambandi, að samvinnuskólinn er enginn sjerskóli sem verslunarskóli, heldur veitir hann mönnum, auk sjerfræðinnar, almenna fræðslu. Bókfærsla er kend þar að 1/3 hluta, tungumál að 1/3 og fjelagsfræði allskonar, svo sem alt, er að kaupfjelags- og samvinnufjelagsskap lýtur, að 1/3. Tel jeg því mjög ómaklegt að lækka þennan styrk, þar eð skólinn er eigi neinn sjerskóli, heldur almennur unglingaskóli, en marga þá skóla hefir háttv. nefnd ekki lækkað.

Þá kem jeg að kvennaskólanum í Reykjavík. Hefir einnig komið fram tillaga um að lækka hann. Er það mjög misráðið, sjerstaklega þegar þess er gætt, að það mun vera einn hinn ódýrasti skóli í rekstri á öllu landinu. Býr skólinn við mjög örðug kjör, þar sem hann á ekki húsnæði sjálfur, en verður að leigja það. Fara til húsnæðis og ljósa um 10 þús. krónur af styrk þeim, sem áætlaður er í fjárlögunum. Er mjer kunnugt um það, þar eð jeg hefi kent við skólann, að honum er mjög vel stjórnað. Ætla jeg mjer ekki að fara mörgum orðum um þessa till., því jeg býst við, að hv. þm. sje það ljóst, að mentun kvenna er ekki of mikið styrkt, þó að þessi styrkur fái að halda sjer.

Jeg er hv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið upp aftur í fjárlagafrv. styrk þann til leiðbeiningar við húsagerð í sveit, sem landsstjórnin feldi niður. Er öllum kunnugt um, að slíkur styrkur er mjög nauðsynlegur, enda hefir hann komið að góðum notum.

Það er ekki nóg fyrir sveitabændur að fá húsateikningar frá Reykjavík. Þeir þurfa að eiga kost á manni, sem getur leiðbeint um, hvernig húsin eigi að byggja. Víða hjer á landi eru hús köld, saggasöm og veggir sprungnir, og stafar þetta vitanlega af vanþekkingu á að reisa þau. Sparnaðurinn má ekki hamla endurbótum í húsagerð, því það er einhver brýnasta þjóðarnauðsyn. Í þúsund ár hefir ekki verið meira fje eytt til annars hjer á landi en til húsabygginga. Við höfum bygt ljeleg hús, sem hafa fúnað fljótt og þurft að endurreisa á 20–50 ára skeiði. Í þetta hefir þjóðarauðurinn farið, og heimilismenningin hefir svo fúnað niður með moldarkofunum. Mjer er kunnugt um það, að maðurinn, sem þessi styrkur er veittur, hefir margt vel gert. Mjer er kunnugt um tvö hús á Vesturlandi, sem bygð voru á sama tíma; annað var bygt eftir teikningu húsameistara ríkisins, og kostaði hver ten.m. 68 kr. Hitt var bygt eftir fyrirsögn Jóhanns, og kostaði ekki nema 29 kr. hver ten.m., og var þó fyrirmyndarhús að öllum frágangi. Þetta dæmi eitt sýnir ljóslega, hve mikil nytsemd má verða af störfum þessa manns, enda vinnur hann sjálfur að steypunni og kennir þá um leið öðrum þetta starf. Jeg lít svo á, að þessum manni beri skylda til að gefa út rit til leiðbeiningar í þessum efnum, enda hefir hann lýst því yfir, að hann myndi gera það svo fljótt sem kostur er á. Hingað til hefir hann leitast við að safna reynslu um það, hvað væri haldbest við byggingar. Eftir að hafa aflað þessa fróðleiks er hann fær um að skrifa leiðbeiningar til almennings.

Í sambandi við þetta vil jeg minnast á síðustu brtt. mína. Hún er smá að fjárhæð, en stór að því er efni snertir. Er þar farið fram á að veita 1000 kr. til verðlauna fyrir ágætustu teikningar og tillögur um híbýlaprýði. Eins og kunnugt er, er gamli stíllinn hjer á landi alveg að hverfa. Gömlu baðstofurnar, þar sem rúmin stóðu með heimaofnum ábreiðum sitt til hvorrar handar undir sköruðum súðum, eru að hverfa úr sögunni. Í stað þeirra eru komin teningslöguð herbergi, sem ekkert er til í, ekki vegna fátæktar einnar saman, og því síður vegna smekkleysis fólksins, heldur vegna þess, að fólkið hefir engar fyrirmyndir neinstaðar frá. Þegar flutt var úr gömlu baðstofunni í nýja húsið, var ekkert þaðan að flytja, því húsgögnin voru föst. Afleiðingin er sú, að í nýja húsinu er ekki um önnur húsgögn að ræða en ef til vill eina kommóðu og nokkra stóla úr kaupstað, þó enginn sparnaður sje að hafa stóla heldur en fasta bekki, sem væru þá smíðaðir heima og útskornir eftir hagleik og hugviti íbúanna. þannig hygg jeg, að mætti forða töluverðu fje, sem nú fer til útlanda að óþörfu, og sem aðeins er til menningarspillis. Á þann hátt gæti till. mín verið sparnaðartill., eins og nauðsyn er um allar till. nú, ef þær eiga að ná framgangi. Sparnaðurinn er í því fólginn að leiðbeina fólki til að lifa af eigin störfum og hagleik.

Einnig er mikil menningarbót að því, að fólkið fáist til að skapa sjálft heimili sín í ríkara mæli en hingað til. Í seinni tíð hefir lítil rækt verið lögð við að glæða fegurð heimilanna og ekki verið fje til þess varið. Þessi till. mín stendur í nánu sambandi við till hv. fjvn., og leyfi jeg mjer því að vænta stuðnings hennar. Menning heimilanna á að geta geymst í híbýlunum og gengið mann fram af manni, í stað þess að fúna niður jafnóðum með hverri kynslóð. Atvinnuvegirnir eru einskis nýtir, ef þeir styðja ekki holla og fagra menningu. Ekki er það til of mikils mælst af svo göfugri samkomu sem þessari, að hún hafi eitthvað af hugarfari konunnar, sem keypti smyrsl fyrir aura sína, í stað þess að gefa þá fátækum. Fjárhagsvandræði okkar munu lengi standa yfir, og ekki gott að slá öllu á frest, sem til menningar horfir, þangað til þeim linnir, enda mun seint úr rætast, ef menn geta ekkert annað til fundið þjóðinni til viðreisnar en nábleikan sparnað, en þann sparnað kalla jeg nábleikan, sem ekki þekkir önnur verðmæti en sparisjóðsbækur.