07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. er komið frá bæjarstjórn Reykjavíkur og er flutt af 3 þm. þess kjördæmis. Það er enginn nýr gestur hjer á Alþingi. Það kom fram á síðasta þingi, en tími vanst ekki til að afgreiða það. Var því vísað í nefnd og afgreitt á þann veg, að ríkisstjórninni var falið að athuga það og undirbúa ásamt öðrum málum, sem snertu löggjöf kaupstaðanna. Frv. þessu fylgir allítarleg greinargerð, og býst jeg við, að hv. þm. hafi kynt sjer hana. Jeg vil þó taka það fram, að breytingar hafa verið gerðar á frv. síðan það var hjer í fyrra. Er nú t. d. lagt á vald bæjarstjórnanna, hve hátt þær vilji ákveða lóðargjöld. Það hefir verið sagt, að hjer sje um mikið deilumál að ræða. En sannleikurinn er sá, að það eru sárafá mál, sem bæjarstjórnin hefir jafneindregið viljað koma fram sem þessu. Sjest þetta best af því, að nú eru nýlega gengnar um garð bæjarstjórnarkosningar hjer, og hefir þó í engu breyst afstaðan til þessa máls. Og það var að engu leyti ágreiningsefni við kosningarnar, eins og sjest á því, að frambjóðendur úr báðum flokkum voru málinu fylgjandi.

Það er annars engum efa bundið, að Reykjavíkurkaupstað er full þörf á því að fá breytt skattalögunum, því þau eru nú orðin allgömul, að jeg ætla frá 1877. Voru þá lóðargjöld um þriðjungur allra bæjargjalda, en nú eru þau aðeins sárlítill hluti þeirra. Og algerlega raskast það hlutfall, sem var á milli lóðargjalda og aukaútsvara. En lóðargjöldin eru bæði rjettlátur gjaldstofn og ábyggilegur.

Jeg vona, að hv. deild taki vel þessu frv., þar sem það er bæði allvel undirbúið og hefir mikið fylgi bak við sig. — Er og auðsætt, að bæjarstjórnir ættu að hafa sem frjálsastar hendur í öllu, sem bæina varðar sjerstaklega.

Legg jeg svo til, að málinu verði vísað til hv. allshn.