07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. 1. þm. Árn. (MT) og hæstv. atvrh. (KlJ) fyrir undirtektir þeirra undir það atriði, sem jeg nefndi og er í mínum augum versti annmarki sveitarstjórnarlöggjafarinnar, en það er rjettleysi utansveitarmanna, sem verða útsvarsskyldir í öðrum sýslum, og þó einkum í kaupstöðum. Hv. 1. þm. Árn. nefndi eina af leiðum þeim, sem orða má til að bæta úr þessu. En þar sem nú hefir verið skipuð yfirskattanefnd í Reykjavík vegna ríkissjóðsskattanna, gæti einnig komið til mála að nota þá nefnd sem æðsta úrskurðarvald í þessum efnum, sem áfrýja mætti til úrskurðum bæjarstjórnar. Það skiftir minstu, hvernig þessu úrskurðarvaldi er komið fyrir, ef það er einungis til og er óhlutdrægt.

Hæstv. atvrh. kvað þetta frv. ekki standa í sambandi við samræmingu á löggjöfinni um málefni kaupstaðanna. Það er ekki rjett, því að í nokkrum höfuðatriðum stendur þetta frv. einmitt í sambandi við það mál. Hjer er farið fram á að gera víðtæka breytingu á útsvarsskyldu utanhjeraðsmanna í Reykjavík. Hingað til hefir Reykjavík haft sama rjett í þessum efnum sem aðrir landshlutar. En hjer er farið fram á miklu víðtækari rjett, og er þó dregið talsvert úr þeim ákvæðum frá því, sem var í frv., er lá fyrir síðasta þingi. En því víðtækari sem rjetturinn er til útsvarsálagningar utanhjeraðsmanna, því meir kallar að krafan um að skapa mönnum betri rjettarskilyrði um upphæð útsvarsins. Til þess að spara mjer að standa upp aftur, skal jeg taka það strax fram, að frv. það, sem næst er á dagskránni, fer fram á breytingar á skilyrðunum fyrir kosningarrjetti um bæjarmálefni Reykjavíkur, sem fara langt út fyrir þau skilyrði, sem gilda annarsstaðar og nú gilda hjer í bæ. En það snertir einnig mjög mikið það samræmingarstarf, sem jeg gat um.