10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Eins og ræða hv. frsm. meiri hl. (MJ) bar með sjer, er það aðallega tvent, sem á milli ber í þessu máli, hve hátt lóðagjaldið skuli vera og hvernig skuli leggja það á. Um hið síðartalda — stefnuatriðið sjálft — hygg jeg, að flestir geti orðið sammála. Vegna hvers hafa lóðir hækkað í verði? Það er vegna aðgerða bæjarfjelagsins, en ekki vegna aðgerða eigendanna. Bæjarfjelagið hefir lagt fje miljónum saman í fyrirtæki og framkvæmdir í bænum, sem hafa haft þessa stórkostlegu hækkun í för með sjer, einkum í miðbænum. Það virðist því ekki ósanngjarnt, að bærinn fái eitthvert endurgjald. Það hefir verið talað um, að lóðaskatturinn myndi hafa í för með sjer lækkun á lóðaverði. Betur, að svo yrði. Nú er svo komið, að hver, sem ætlar að reisa hjer smáhús á góðum stað í bænum, verður að verja alt að 10 þús. kr. til lóðarkaupa, og geta allir sjeð, hvílíkur þröskuldur þetta er fyrir byggingaframkvæmdum. Þetta hefir líka þau áhrif, að bærinn þenst út um öll holt og eykur kostnað við götulagningar og önnur mannvirki, sem auka og margfalda kostnað bæjarfjelagsins. Lóðarskatturinn myndi án efa ýta undir byggingar hjer, bæta úr húsnæðisvandræðum og spara beinan kostnað bæjarins við nýjar götuleiðslur o. fl. Það liggur í augum uppi, að þar, sem fólki fjölgar eins og hjer, stuðlar mannfjöldinn að því að auka verðmæti lóðanna án nokkurs tilstillis eigendanna. Undir eins og bygð kemur á óbygt land, hækkar það í verði, þótt það hafi verið lítils eða einskis virði áður.

Að vísu er það rjett, sem hv. frsm. meiri hl. hjelt fram, að þessi skattur kemur allhart niður á þeim, sem hafa nýkeypt lóðir. En jeg hygg, að þeir sjeu langtum fleiri, sem hafa grætt á því að bíða eftir verðhækkuninni á lóðum sínum og eiga þær enn, en hinir, sem nú eiga nýkeyptar dýrar lóðir, og hjer verður ekki fremur en annarsstaðar siglt fyrir öll sker, þannig að einhver verði ekki hart úti. Jeg get ekki fallist á þá staðhæfingu hv. frsm. meiri hl., að hjer sje alt öðru máli að gegna en um þá kaupstaði, er þetta lóðargjald er komið á í. Hjer eru lóðir aðeins í hærra verði, og því meiri sanngirni og nauðsyn, sem krefst skattsins. Mjer er kunnugt um, að í bæjarfjelagi því og hreppsfjelagi, er hafa komið

þessum skatti á, gengur alt vel með þennan lóðarskatt, og hann þykir gefast vel.

Við minnihlutamennirnir álítum, að við höfum gengið svo langt til samkomulags í niðurfærslu gjaldsins frá því, sem var í frv., að engin ástæða er til neinnar mótstöðu gegn skatti þessum, hvaða afstöðu sem menn kunna að hafa til ákvæða frv. Sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja meira um það.

Jeg vil benda á það um leið og jeg kem að brtt. meiri hl., að jeg tel það mjög óheppilega ráðstöfun að sameina lóðar- og húsaskattinn. Með því móti er húseigendum í lófa lagið að velta lóðaskattinum yfir á leigjendur, sem þó hafa sannarlega nóg á sinni könnu fyrir.

Þar sem svo er ákveðið í e.-lið 2. gr. frv., að sumar lóðir sjeu í lægra skattflokki, þar sem hundraðsgjaldið væri skal jeg geta þess, að í þessum flokki eiga að lenda lóðir, sem sjerstaklega er umsamið til ræktunar eða annars þessháttar, og mundi einnig mikið af lóðum ríkissjóðs koma hjer undir.

Jeg þarf ekki að víkja að 2. brtt., við 7. grein, þar sem ákveðið er, að útsvarsskylda nái ekki til manna fyr en þeir hafi staðfestst hjer í þrjá mánuði, enda er það í samræmi við það, sem gildir í öðrum bæjar- og sveitarfjelögum. Þó hygg jeg, að okkar brtt. sje rjettari, enda þótt ekki muni nema einum staf. Í brtt. meiri hl. stendur „3 mánuðir“ en í brtt. okkar „3 mánuði“, sem er í samræmi við aðra skipun málsgreinarinnar. (MJ: Hjer er aðeins um prentvillu að ræða).

Jeg hefi áður vikið að brtt. um sameiningu húsa- og lóðargjaldsins, og skal því ekki fjölyrða um það. Jeg get ekki fallist á, að það sje rjett í brtt. meiri hl. við 2. gr. frv., að lögbinda bæinn til að annast ráðstafanir til útrýmingar rottu. Það gæti orðið bænum allkostnaðarsamt, ef hann ætti að taka á sínar herðar allan vanda af húseigendum og leigjendum í þessu efni, og þar undir gæti það heyrt t. d. að kaupa fyrir menn rottugildrur o. s. frv. Þá finst mjer og, að það orðalag, að bærinn annist tryggingar gegn eldsvoða, gefi alt of mikið tilefni til misskilnings. Vitanlega er hjer átt við slökkvilið og slökkvitæki, en ekki við iðgjöld fyrir brunatryggingar, en samt sem áður tel jeg þetta orðalag ófært, og hæglega geta orðið deilur út af því.

Skal jeg nú minnast á brtt. meiri hl. við 9. gr. Mjer fanst það satt að segja nógu langt gengið að leyfa utanbæjarmönnum einum málskot til yfirskattanefndar. Það eru ef til vill einhverjir, sem halda það, að bæjarstjórnin mundi frekar vilja ná sjer niðri á þeim mönnum, sem flutt hafa burt úr bænum og undan útsvarsgreiðslu þar, en eiga þó ekki nema 5 mínútna gang inn í miðjan bæinn frá bústað sínum utan bæjarins og stunda atvinnu í bænum alt árið. En jeg hygg, að þessum mönnum mundi engin ósanngirni sýnd í álögum. En þó hefi jeg ekkert á móti því að leyfa þeim málskot þetta til yfirskattanefndar, en vil heldur ekki ganga lengra. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, er ólíklegt, að hún yrði ekki sanngjörn, eins og hún hefir verið. Kærur undanfarið hafa heldur ekki verið tiltölulega margar. Hitt er annað mál, að stöðugt eru til fastir kærendur, sem aldrei verður gert til hæfis og kæra á hverju ári, og er ekki rjett að auka kostnað með því að leyfa þeim málskot þetta. Það þarf því varla að væna bæjarstjórnina um ósanngirni, enda hefir hún þótt ganga heldur of langt í eftirgjöfum sínum heldur en hitt, og hefir það ef til vill stafað af því, hve erfiðlega hefir gengið að innheimta bæjargjöldin. Bæjarfógeti hefir ekki talið sig hafa nægilegan mannafla til að framkvæma lögtök, og það er eiginlega fyrst nú í ár, að ríkt hefir verið gengið eftir innheimtunni. Jeg sje af þessum ástæðum enga ástæðu til að veita fleirum en utanbæjarmönnum leyfi til að nota sjer þetta málskot.

Þá kem jeg að 4. brtt., um gjalddaga. Eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, hafa gjalddagar undanfarið verið tveir, og vill meiri hl. halda því fyrirkomulagi og telur það gera mönnum hægara fyrir með greiðslur. Það er nú svo, að í þessu máli eru tveir aðiljar. Öðrumegin bærinn, hinumegin gjaldþegnarnir. Vegna dráttar á útsvarsgreiðslunum verður bærinn að taka lán og greiða af því háa vexti. Margir hafa þá reglu að draga greiðslu til seinni gjalddagans, og sumir humma alla greiðslu fram af sjer meðan unt er, þótt þeir geti borgað. — Borgarstjóri telur heppilegra að hafa aðeins einn gjalddaga. Með því móti fær bærinn gjöld sín greidd fyr á árinu og hægara að framkvæma lögtök á heppilegum tíma. Nú eru gjalddagar 1. apríl og 1. okt. Meiri hl. vill hafa þá 1. maí og 1. október. Nú er venja að fara að rukka menn eftir 1. apríl, en ekki byrjað á lögtökum fyr en eftir seinni gjalddaga, og er þá tíminn orðinn alls ónógur til að ná gjaldinu inn fyrir áramót. Á meðan verður bæjarstjórnin að greiða vexti af lánsfje sínu.

Meiri hl. getur þess í nál. sínu, að hann telji yfirskattanefnd bærasta til að fjalla um og útkljá kærur yfir útsvörum. Jeg tel að vísu eðlilegt, að samræmi sje á milli tekjuskatts og aukaútsvara, en vil þó varhygðar vegna mótmæla því, að þessi orð í nál. eigi að skoða sem neina mælisnúru fyrir yfirskattanefnd til að fara eftir í væntanlegum útsvarskærum.

Jeg skal að lokum geta þess, að það myndu einkum vera efnamennirnir, hinir hærri gjaldendur, sem mundu nota sjer málskot til yfirskattanefndar. Efnalítið fólk mundi ekki fara að eiga á hættu þann kostnað, er af þessu kynni að leiða, og því kæmi þetta ranglátlega niður. Vona jeg því, að hv. deild felli þetta ákvæði, eða að hv. meiri hl. taki það aftur til 3. umr. og reyni að lagfæra. Eins og jeg hefi sagt áður, er jeg ekki á móti því, að þetta nái til utansveitarmanna. Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði um sameiningu lóðar- og húsaskatts, að jeg tel það mjög óheppilega ráðstöfun, að slíkt komist á, og vona, að deildin fallist á þær ástæður, er jeg bar fram gegn því, og samþykki því brtt. minni hlutans.