10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg skal ekki bæta miklu við þær málalengingar, sem orðnar eru í þessu máli. Jeg get þó ekki varist að láta í ljós furðu mína yfir því, hve háttv. frsm. meiri hl. (MJ) bakaði sjer mikla fyrirhöfn, til þess að sannfæra hv. deildarmenn um, að lóðargjöldin, sem hann vill þó leggja á, sjeu ósanngjörn, því það skein í gegnum alla ræðu hans, að öll lóðagjöld væru óhæfa, en ágreiningurinn í þessu máli er þó ekki um annað en það, hvort lóðargjaldið skuli vera 0,8% eða 1%. — Hv. frsm. talaði eins og hjer væri um eitthvað alveg nýtt að ræða, eins og þessi braut, sem hjer væri verið að leggja inn á, væri alveg ókönnuð. En löggjöfin hefir þegar viðurkent, að byggingarlóðir sjeu hæfar til að bera gjald til ríkissjóðs. Í lögunum um fasteignaskatt er lóðargjaldið sett hærra en húsaskatturinn. Það er að vísu talsvert lægra en hjer er gert ráð fyrir, ekki nema 0,3%, en vitanlega með það fyrir augum, að bæjar- og sveitarfjelög noti einnig þennan skattstofn. Það hefir líka umyrðalaust verið heimilað öðrum bæjar- og sveitarfjelögum að leggja á lóðargjald upp í 2%. Í heimild þeirri stendur meira að segja, að það skuli ekki vera lægra en 1%, og má af því sjá, að þá þótti ástæða til að ákveða lágmark. Það er því undarlegt, að gjald þetta skuli þykja svo háskalegt, þegar um Reykjavík er að ræða. Auðvitað eru lóðirnar hjer dýrari, eignirnar eru meiri, en principið breytist ekki fyrir það. Það er og víst, að lóðirnar í öllum kauptúnum landsins eiga fyrir sjer að hækka. Það hefir verið sagt, að lóðargjöldin hjer sjeu beint eignarnám. Það er undarlegt, að menn skuli ekki geta skilið það, að ef 1% lóðargjald er eignarnám hjer, þá muni 2% gjald annarsstaðar vera það líka, þótt um minni eignir sje að ræða. Það yrði þá bara meira í heild, sem tekið yrði hjer, en það eitt gerði þetta ekki rangt, ef ekki væri rangt að leggja slíkt og jafnvel hærra hundraðsgjald á annarsstaðar. — Nei, menn voru á rjettri leið áður, en eru nú að hverfa inn á ranga braut. Og orsökin mun vera sú, að nú er meiri hagsmuna að gæta; það standa sterkari hagsmunir að baki andstöðunnar nú en áður og sterkari „agitationir“. Verða nú hv. þm. að gera upp við sig, hvort rjett sje að láta slíkt ráða úrslitum málsins, — hvort þeir af þessum sökum eigi að láta undan síga. Því verður ekki á móti mælt, að lóðargjöld sjeu rjettmæt. Lóðir fá aukið verðmæti fyrir fólksstrauminn til bæjanna, og eigendur þeirra græða þannig fyrirhafnarlaust. En um leið og lóðirnar sprengjast upp, er öðrum borgurum gert erfiðara fyrir og gjaldþol þeirra minkað. Hvað getur þá verið á móti því að leggja gjald á það, sem veldur þessu? Ef hjer væri um eignarnám að ræða, þá væri nokkur ástæða til að vera hikandi. En það er síður en svo sje. Það hefir verið borið fram sem mótbára, að lóðargjöldin komi ósanngjarnt niður á þeim mönnum, sem keypt hafa lóðir hæstu verði. Það er svo um alla hluti, sem lagt er á, og auk þess er ekki útlit fyrir annað en að lóðirnar haldi áfram að hækka. En það varðar bæjarfjelagið í heild sinni miklu, að lóðir hætti að hækka í verði, því hátt verð á lóðum er ekki til góðs heildinni, heldur þvert á móti. Það eykur dýrtíð fyrir öllum almenningi, þeim einum til góðs, sem lóðirnar eiga.

Nú er hugsanlegt, að því verði haldið fram, að ef gjaldið sje sett 1%, þá muni lóðir lækka í verði. En sje það sett 0,8%, þá muni það standa í stað, og gæti þetta þá rjettlætt það, að lægri skatturinn yrði samþyktur. En þessu hefir ekki verið haldið fram. Og það væri líka alveg út í loftið gert; og tilgangurinn með því að setja lóðaskattinn 0,8% er aðeins sá, að slengja honum saman við húsaskattinn; en löggjafarvaldið hefir viðurkent, að hjer sje um ólíka skattstofna að ræða. Jeg hlýt því í þessu atriði að hallast að minni hl. nefndarinnar.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á ummæli hæstv. fjrh. (JÞ) viðvíkjandi hag ríkissjóðs með tilliti til þessara laga. Hann sagði, að hjer kæmi nýr skattur á ríkissjóð, 11 þús. kr. eftir till. minni hl., og 9 þús. kr. eftir till. meiri hl. nefndarinnar. Við skulum nú segja, að hjer komi nýtt 11 þús. kr. gjald til bæjarsjóðs, sem ríkið greiðir. Það er rjett að benda á það, en í því sambandi vil jeg benda á plagg, sem einmitt lá fyrir sömu nefnd og þetta frv., sem upplýsti um það, hvaða gjaldstofnum ríkið hefði svift bæjarsjóð. Jeg hefi sjeð þá greinargerð, sem borgarstjóri hefir samið, og af henni sjest, að ríkið hefir svift bæinn 210 þús. kr. skatti á ári. Jeg veit, að hv. þdm. er í fersku minni ýmislegt, sem gert hefir verið til þess að rýra skattstofna bæjarins. Samvinnulögin, frv. um útsvarsskyldu verslunarfyrirtækja ríkissjóðs o. fl. í greinargerð þessari er líka minst á skemtanaskattinn, sem er 30–40 þús. kr. á ári. En þess má geta, að sá skattur var aldrei ætlaður til almennra bæjarþarfa. Sem sagt, þá munar hjer um 2 þús. á skatti ríkisins, hvor till. nefndarinnar, meiri eða minni hluta, verður samþykt. Með öðrum orðum: á lóð, sem metin er á 1 miljón kr., er munurinn 2 þús. kr.

Viðvíkjandi smávægilegum breytingum á frv., sem hjer hefir verið minst á, skal jeg aðeins víkja að fám. Fyrir almenning skiftir það í raun og veru ekki miklu, hvort gjalddagar útsvara eru tveir eða ekki nema einn. Eins og nú eru gjalddagarnir tveir, og þó vitanlega fleiri. Hjer eru fastir innheimtumenn, sem taka á móti greiðslum eftir því, sem gjaldendum hentar, og mundi svo verða áfram, þó einn gjalddagi sje ákveðinn. Eina breytingin, sem af því leiddi, er sú, að gjaldendur, sem vitanlegt er um, að geta borgað í einu, væru látnir gera það, í stað þess að græða vexti á kostnað bæjarins með því að draga greiðsluna. Að hafa tvo gjalddaga þýðir það, að slíkir menn borga ári seinna helming útsvarsins, og græða þannig hálfs árs vexti. Þetta hefir því nokkra þýðingu viðvíkjandi þessum gjaldendum, en annars varðar hún litlu.

Hvað snertir skipun niðurjöfnunarnefndar, þá geri jeg ekki mikið úr því, hvort nefndarmenn eru 5 eða 15. Í eins stórum bæ og Reykjavík er nú orðin, þar sem búa um 20 þús. manna, eru engin líkindi til þess, að nokkrir 15 menn haft fullkomna þekkingu á ástæðum allra. Og síst yrði tryggingin fyrir því meiri, þó að þessir menn væru kosnir af almenningi. Jeg held það sje þó betur tryggt, ef þeir eru kosnir af bæjarstjórn. Hún mun taka meira tillit til þess sjerstaka verks sem vinna á, heldur en ef aðeins er hugsað um fylgi við pólitískar kosningar. Fyrirkomulaginu við niðurjöfnun er líka breytt, með því að tilgangurinn er sá, að meir og meir sje horfið að beinum tekjuskatti. Formaður nefndarinnar er líka skattstjóri Reykjavíkur, og hefir nefndin aðgang að öllum plöggum skattstofunnar. Og þær upplýsingar, sem nefndin fær þannig, munu vega fullkomlega á móti því, að nefndarmönnum er fækkað. Jeg er þessu að vísu ekki kunnugur, en mjer þykir ekki ósennilegt, að 5 menn standi hjer betur að vígi en 15 menn áður, sem ekki höfðu við annað að styðjast en persónulegan kunnugleika.

Jeg gleymdi að taka það fram viðvíkjandi lóðargjaldinu, sem ekki er þýðingarlítið, að þar sem það er miðað við fasteignamat, sem er allmiklu lægra en kaup- og söluverð, þá er það í rauninni lægra en það sýnist. Það má segja, að söluverð lóða muni eiga fyrir sjer að lækka, eins og annað verðlag, en ekkert hefir bólað á því enn. Og ef svo fer, sem menn vona, að úr rætist með afkomu útgerðarinnar, og þar með bæjarins í heild, þá er ekki ástæða til að óttast það, að lóðaverðið lækki.