10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Klemens Jónsson:

Jeg skal nú ekki vera langorður í þetta sinn. Hæstv. fjármálaráðherra (JÞ) gat ekki fallist á það, að bæjarstjórnin hefði fult sjálfsforræði um meðferð mála bæjarins, heldur bæri nauðsyn til að hafa strangt eftirlit með stjórn kaupstaðanna, þar sem það hefði komið fyrir, að ríkið hefði orðið að greiða allháar upphæðir fyrir kaupstaði. Vildi hann því, að ríkisstjórnin hefði hönd í bagga með um meðferð fjármála bæjanna og liti eftir því, að ekki væri farið um of óvarlega í sakirnar. En jeg vil taka það fram, að sú greiðsla, sem ríkissjóður þarf nú að taka á sig fyrir Vestmannaeyjar, þarf ekki að stafa af neinni vanrækslu eða af því, að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum vilji skjóta bænum undan að borga. En ef ástæður kaupstaðarins eru svo, að hann getur ekki staðið í skilum, verður ríkið, sem ábyrgst hefir, auðvitað að taka á sig greiðslurnar. Slíkum greiðslum, samkvæmt lagaheimild, verður ekki komist hjá, og landið má altaf búast við því, hve strangt eftirlit sem það hefir, að sá, er ábyrgst hefir verið fyrir, geti ekki staðið fyllilega í skilum, þegar misjafnlega árar og misjafnlega hepnast þau fyrirtæki, sem ráðist er í.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði um áfrýjun útsvaranna, þá verð jeg að segja það, að betur sjá augu en auga, 15 menn betur en 5. Viðvíkjandi kosningu niðurjöfnunarnefndar taldi hann betra, að hún væri kosin af bæjarstjórn en af almenningi, því flokkarnir í bæjarstjórn mundu kjósa sömu mennina oftast. Jeg hafði ekki beinlínis á móti því, heldur hinu, að þeir væru of fáir. Jeg fell ekki frá því, að fyrra fyrirkomulagið sje tryggilegra. Reynslan hefir enn ekki sýnt a. m. k., að nýja fyrirkomulagið sje betra en hitt. Það hafa ýmsar raddir komið fram um það, að breytingin hafi ekki orðið til batnaðar. Hvort kærur hafa aukist síðan, veit jeg ekki, en auðvitað er það, að altaf verða einhverjir óánægðir, hverjir sem jafna niður og hvernig sem þeir gera það.

Háttv. þm. sagði, að gjaldendur gætu fullvel samið um það við borgarstjóra, að fá að greiða útsvar sitt í tveim eða jafnvel í fleiri greiðslum. Það gleður mig að heyra þetta, því að jeg efast ekki um, að mörgum muni koma það vel og margir muni nota sjer það. En verði ekki ákveðinn nema einn gjalddagi, vil jeg benda á það, að óheppilegt er að ákveða hann að vorinu, því að þá eru ástæður manna venjulega heldur erfiðar. Að haustinu er alt öðru máli að gegna, og teldi jeg rjettara að setja hann 1. september eða 1. október en 1. maí.